Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

ÍTR leysir vandann

Vegna færslu minnar frá því  í morgun og frétta um niðurskurð á þjónustu við fötluð börn í sumar er ánægjulegt frá því að segja að málið virðist vera að leysast.

Þökk sé frábæru fólki hjá íþrótta og tómstundasviði Reykjavíkurborgar.

 Þessi frétt er nú inn á vef DV :

Yfirmenn Íþrótta- og tómstundaráðs, ÍTR, eru staðráðnir í að bjóða upp á frístundaklúbba fyrir fatlaða í sumar þrátt fyrir að borgarráð hafnaði fjárveitingu þess efnis. Þeir hugleiða nú með hvaða hætti bregðast skuli við niðurskurði borgarráðs.

Vonir stóðu til um að reka klúbbana á heilsársgrundvelli, líkt og frístundaheimilin verða framvegis rekin, en þess í stað samþykkti borgarráð ekki fjármuni til fatlaðra. Til greina kemur hins vegar að taka þá fjarmuni sem til þarf af öðrum rekstrarliðum ÍTR og þannig fái fatlaðir þá þjónustu sem þeir þurfa hjá ÍTR, óháð niðurskurðinum frá borgarráði.

Frábært fólk sem þarna starfar og ekki var við öðru að búast af þeirra hálfu en að gengið yrði í málið og það leyst  fljótt og vel.

Takk fyrir það.


Ólafur, hvar eiga fötluðu börnin að vera í sumar?

Sumarfrí nálgast í grunnskólum borgarinnar og hefur hefur það hingað til verið nokkurt púsl fyrir mína fjölskyldu líkt og aðrar fjölskyldur með börn.  Að vera með fatlað barn gerir málið en flóknara.

11. ára drengurinn okkar hefur hingað til ekki haft sömu möguleika til sumarstarfs og önnur börn og hefur því þurft að vera heima meira en minna allt sumarið. Það þýðir að einhver fullorðin hefur þurft að vera heima við á sama tíma.

Hann hefur  tvær vikur á sumri verið í frábærri sumardvöl í Reykjadal en annað sumarstarf hefur hann ekki getað nýtt sé undanfarin sumur. Hann er komin á þann aldur að sumarstarfið sem boðið er upp á kallar á sjálfstæði einstaklingisins sem hann ekki býr yfir.

Fyrir nokkrum dögum barst mér hinsvegar bréf frá frístundaklúbbnum, sem hann dvelur eftir skóla virka daga, þar sem fram koma að sumarstarfið þar yrði líklega frá 9.júní -21.ágúst frá 08.00-17.00 og hvaða vikur ég myndi nýta.

Við vorum því farin að skipuleggja sumarið með það fyrir augum að þetta sumarið gætum við verið nokkuð áhyggjulaus og stundað okkar starf án verulegrar skipulagningar.

Mér var því það nokkuð áhyggjuefni þegar í morgun var lesið upp úr forystugreinum dagblaðana, ritstjórnarpistil DV. Pistilinn fjallaði um það að borgarráð hefði skorið niður þessa þjónustu á fundi sínum s.l. fimmtudag. Ekkert fjármagn hafi verið veitt til starfsins í sumar.

Á vef DV kemur  fram:Frístundaheimili Reykjavíkurborgar bjóða framvegis upp á þjónustu á heilsársgrundvelli. Breytingin tekur gildi í vor og var samþykkt á fundi borgarráðs fyrir helgi. Íþrótta- og tómstundaráð borgarinnar óskaði eftir 75 milljóna króna fjárveitingu til að færa rekstur frístundaheimilanna og frístundaklúbba fatlaðra í heilsársform. Borgarráð samþykkti aðeins 56 milljónir króna og hafnaði beiðni um fjármagn til að halda úti sumarstarfi í frístundaklúbbum fatlaðra.

Erfitt að sjá þetta í fundargerð borgarráðs þar sem vísað er til umsagnar fjármálastjóra Reykjavíkurborgar sem ekki kemur fram í fundargerð. Am.k. tók ég ekki eftir neinu þegar ég las fundargerðina sl. fimmtudag.

Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 12. f.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs 8. febrúar sl., þar sem lagt er til að frístundaheimili ÍTR verði rekin á heilsársgrunni frá og með vorinu 2008, og óskað eftir fjárveitingu til verkefnisins. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra, ódags.
Samþykkt með þeim hætti sem fram kemur í umsögn fjármálastjóra. Fjárveiting, 56 mkr., fari af liðnum ófyrirséð. R08020135
 

Þetta skapar ófremdarástand hjá mörgum fjölskyldum fatlaðra barna í borginni, ef rétt er.

Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það svart á hvítu , að þetta sé stefna Reykjavíkurborgar í málum fatlaðra barna. Fötluð börn verða að hafa möguleika á að nýta sér tómstundarúrræði á sama hátt og ófötluð börn yfir sumartímann.

Ég skora á borgaryfirvöld að breyta þessari ákvörðun sinni til þess að þessi börn geti notið sömu þjónustu og önnur börn í borginni.

Þau þurfa á slíkri þjónustu að halda ekki síður en önnur börn í borginni og fjölskyldur þeirra eiga að geta stundað vinnu yfir sumartímann líkt og aðrar fjölskyldur í borginni.

 


Morgunútvarpið-aftur og nýbúin

Í morgun stillti ég útvarpið aftur á rás 1. Hef frá því morgunvaktin hætti í byrjun mars s.l. átt í erfiðleikum að finna mína réttu rás til að byrja daginn með. Ekkert af þeim mörgu útvarpsrásum sem í boði eru hafa verið við mitt hæfi.

Gafst upp í morgun og stillti aftur á rás 1. Íhaldsseminni eru engin takmörk sett.

Mér til mikillar undrunar hafði dagskránni verið breytt aftur. Nú hefst morgunútvarpið kl. 6.05 alla virka morgna í stað 7.30 áður.

Fagna þessu þótt mér hafi þótt dagskráin í morgun frekar rýr af talmáli en framtakið er þó gott.

Nú er bara að vona að þessi breyting dugi lengur en einn mánuð hjá RÚV eins og sú síðasta.


Hver verður nýr Vegamálastjóri?

Vegagerðin hefur átt hug minn allan síðustu vikur. Kannski ekki ein af þeim stofnunum ríkisins sem vekja mestan áhuga almennings og oftar en ekki neikvæð umfjöllun um störf hennar og forgangsröðun verkefna.

Ástæða þessa áhuga míns er tilkomin vegna þess að ég hef ásamt hóp ágætra kvenna verið að vinna verkefni sem tengist Vegagerð og ég fékk það hlutverk að taka viðtöl við nokkra starfsmenn stofnunarinnar.

Fann fljótt að það ríkir mikil starfsánægja hjá Vegagerðinni. Starfsaldur þeirra aðila sem ég ræddi við var hár og góður starfsandi virtist ríkja. Þetta átti a.m.k. við í miðlægri starfstöð vegagerðar.

Ég var orðin svo ánægð með þennan vinnustað á fimmta viðtalinu að það var farið að ræða um það í verkefnavinnunni hvort ég myndi ekki sækja um starf þarna í vor. Mér fannst það ekkert ólíklegt.

En hingað til hefur bara verið auglýst eftir starfskröftum með tækni og verkfræðimenntun hjá Vegagerðinni.

Og síðan var auðvitað auglýst laust starf Vegamálastjóra. Í þeirri auglýsingu kom fram að menntunarkröfur væru háskólamenntun í verkfræði eða sambærileg menntun . 

En hvað er sambærileg menntun við verkfræði? Það hlýtur að vera nokkuð teygjanlegt.

Á vef BHM kom þessi frétt:

Nokkrir félagsmenn aðildarfélaga BHM hafa vakið athygli bandalagsins á auglýsingu um stöðu Vegamálstjóra sem birtist á Starfatorgi þann 19. mars sl.Þar er gerð krafa um háskólamenntun í verkfræði eða sambærilega menntun. Alls óljóst er hvað átt er við með sambærilegri menntun; er átt við sambærilega lengd menntunar eða menntun í skyldum greinum og þá hverjum?Sé litið til verkefna stofnunarinnar eins og þau eru skilgreind í lögum í 5 gr. laga nr. 80/2007 felast þau helst í aðstoð við ráðherra vegna stefnumótunar, skiptingu fjármuna, rekstur og umsjón tilgreindra málaflokka. Á fjárlögum 2008 er gert ráð fyrir um 35 milljarða króna umsvifum Vegagerðarinnar og starfsmenn munu vera um 320.Í lögum um Vegagerðina er ekki gerð krafa um að Vegamálstjóri hafi verkfræðimenntun. Með vísan til þess, verkefna hennar og umsvifa fer Bandalag háskólamanna fram á að auglýsingin verði dregin til baka og staðan auglýst að nýju með skýrum kröfum um menntun umsækjenda.

Umsóknarfrestur um embættið rennur út á morgun, föstudaginn 4.apríl. Hef ekki mikla trú á að auglýsingin verði dregin til baka eða henni breytt úr því sem komið er.

Ætli auglýsingin sé kannski sniðin að þörf einhvers ákveðins umsækjenda eins og oft þekkist hjá hinu opinbera og búið sé að handsala embætti nýs Vegamálastjóra við einhvern gæðinginn.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hver verður ráðin í starf Vegamálastjóra og hvort viðkomandi verði ráðin utan eða innan stofnunar.


Skilaboð dagsins-mótmæli borga sig

Skyldu félögin hafa lækkað eldsneytisverð ef ekki hefðu komið til mótmæli? Held það varla.

Held að það séu skilaboð dagsins. Mótmæli borga sig.

 


mbl.is Fleiri lækka eldsneytisverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðin greið?

Mikið hlýtur það að vera Samgöngumálaráðherra mikil léttir að borgarstjórn Reykjavíkur skuli vera búin að samþykkja hvaða leið skuli vera farið í lagningu sundabrautar.

Í gær var samþykkt í borgarstjórn áskorun þar sem fram kemur að að borgaryfirvöld hafi samþykkt samhljóða að sundabraut verði lögð í göng. Sú leið sé bæði út frá samgöngu- og umhverfissjónarmiðum langbesta lausnin til langrar framtíðar. Íbúasamtök Grafarvogs og Laugardals hafi einnig mælt eindregið með því að Sundagöng á leið 1 verði farin.

Jafnframt kemur fram í morgunblaðinu í dag að gerð Sundaganga eiga ekki að fylgja nein stórkostleg vandræði vegna jarðlaga á fyrirhugaðri gangaleið. Þetta telur Hreinn Haraldsson, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Vegagerðarinnar, en sá ágæti maður er með doktorspróf í jarðfræði.

Um síðustu helgi  lýsti hinsvegar Ísleifur Jónsson, verkfræðingur og fyrrverandi stjórnandi Jarðborana ríkisins, að Jarðgangagerð væri varsöm leið fyrir Sundabraut. Hann nefndi þar hættu á jarðskjálftum og jafnframt að lekt í ungu bergi svæðisins verði mikil. Þessi skoðun hefði kannski getað tafið málið en gott að þeirri hindrun er rutt úr vegi.

Um langt árabil var það alltaf Reykjavíkurborg sem stóð í vegi fyrir því að hægt væri að hefja framkvæmdir við Sundabraut. Talsmenn ríkistjórnarflokkana töluðu alltaf í þá veru.

Að ekki væri búið að ákveða hvar leið ætti að fara. Ekki stæði á ríkisvaldinu að hefja framkvæmdir.

Nú liggur fyrir hvaða leið á að fara með lagningu sundabrautar og Samgönguráðherra hlýtur að setja málið í forgang og hefja undirbúning að framkvæmd strax.

Leiðin er greið og símapeningarnir bíða í bankanum. Ekki eftir neinu að bíða.

Sundabraut í framkvæmd strax.


mbl.is Jarðfræði á leið Sundaganga vel þekkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband