Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Konur segja nei

Öll höfum við heyrt mýtuna um að konur vilji ekki taka að sér störf í stjórnum fyrirtækja. Þegar eftir slíku er óskað segi þær nei og beri ýmsu við. Að sama skapi heyrist það sama í umræðunni um konur og fjölmiðla að konur segi frekar nei þegar þær eru beðnar að koma í viðtöl. Þetta sé ástæða þess að færri konur en karlar sitji í stjórnum fyrirtækja og að þær séu ekki eins sýnilegar í fjölmiðlum.

Ég viðurkenni það að þegar ég hóf þátttöku í stjórnmálum fannst mér oft erfitt að taka að mér að verkefni sem tengdust því að koma opinberlega fram. Erfiðast verkefnið fannst mér að flytja í fyrsta skipti, ræðu fyrir hönd þjóðhátíðarnefndar Reykjavíkur á Austurvelli á 17.júní, í beinni útsendingu í sjónvarpi. En það vandist eins og allt annað. þetta er auðvitað bara spurning um að undirbúa sig vel fyrir þau verkefni sem manni er falið.

Mér var ráðlagt það af góðri konu að ef ég væri beðin um að koma í viðtöl í fjölmiðlum ætti ég aldrei að segja nei,  Helst ekki heldur, ef ég væri beðin að taka sæti í stjórnum eða ráðum, sérstaklega ef fáar konur ættu þar sæti fyrir. Eftir þeim ráðleggingum hef ég farið

Ég hef oftar en ekki verið fyrst konan sem hef tekið sæti  í ólíkum ráðum og stjórnum og ekki verið eftirbátur þeirra karla sem setið hafa fyrir.

Hef hinsvegar oft velt því fyrir mér hvað karlar eru óragir við að taka að sér verkefni án þess að hafa til þess sérstaka burði. Við konur þurfum hinsvegar oft að velta málum fyrir okkur lengur og vera algerlega vissar um að við völdum verkefnunum, og gott betur en það ef eitthvað er. 

Öll höfum við mismunandi bakgrunn og mér finnst gott framtak að auglýsa nöfn þessara 100 kvenna sem eru tilbúnar að taka að sér frekari verkefni í stjórnum fyrirtækja.

Ég er hreykin af þessum konum og öllum konum öðrum sem eru tilbúnar að segja Já. Þær eru góðar fyrirmyndir fyrir þær ungu konur sem eftir koma.

Ég segi Já


mbl.is Konur bjóðast til að setjast í stjórnir fyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gegnsæi í málefnum OR

Sýnist Kjartan Magnússon sýna það strax að hann á fullt erindi sem formaður Orkuveitu Reykjavíkur.

Samkvæmt hádegisfréttum RÚV ætlar hann að leggja til sem fyrsta verk nýrrar stjórnar að aflétta leynd af fundargerðum stjórnarinnar.

Hingað til hafa fundargerðir stjórnar ekki verið gerðar opinberar og oftar en ekki hefur það verið gagnrýnt. Málefni fyrirtækisins og ekki síst ákvarðanir stjórnar  eiga að þola dagsins ljós.

Þetta framtak Kjartans mun gera gegnsæi málefna stjórnar OR meira og skapa meiri vinnufrið um málefni þessa góða og öfluga fyrirtækis.

Fróðlegt verður að sjá hver verður niðurstaða starfshóps um málefni OR vegna REI málsins sem Svandís Svavarsdóttir leiddi . Kynna á niðurstöðu starfshópsins í vikunni.

Þetta hvorutveggja ætti að verða til þess að loftað verði út hjá fyrirtækinu og vinnufriður skapist á ný hjá Orkuveitunni.


Ráðherranefndin

Það er margt sem upp kemur í MPA náminu sem vekur áhuga. Ekki síst það vinnulag sem viðhaft er innan stjórnsýslunnar en vekur oft ekki mikinn áhuga almennings.

Þannig hef ég rekið mig á, að áfangar í náminu sem ég hafði ætlað að myndu ekki vekja áhuga, hafa orðið til þess að ég fæ brennandi áhuga á viðfangsefninu og öllu sem að því snýr. En þannig á nám auðvitað að vera.

Nú er undirbúningur fyrir fjárlög næsta árs hafinn. Í áfanga um ríkisfjármál var farið yfir hvernig fjárlög eru unnin. Ferlið er með þeim hætti að fyrst fara mál í vinnslu hjá stofnunum, síðan ráðuneyti, þá til fjármálaráðuneytis svo til ráðherranefndar síðan til ríkisstjórnar og loks fyrir Alþingi.

Áhugi vaknaði fyrir hvað ráherranefnd stæði. Svörin voru í þeim dúr að formenn stjórnarflokka og varaformenn ynnu málin áður en þau væru lögð fyrir ríkisstjórn. Þetta hefði verið gert s.l. sjö til átta ár með þessum hætti og hraðaði undirbúningi.

Nú væri það hinsvegar þannig að fulltrúar í þessari nefnd væru forsætisráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og félagsmálaráðherra. Engir varaformenn með lengur?

Ég velti því fyrir mér hvað hafi komi til, að slíkar breytingar voru gerðar. Af hverju er varaformaður Sjálfstæðisflokksins ekki með?

Ætli formaður Samfylkingar hafi viljað hafa jafna hlut kvenna og karla í nefndinni og því tekið félagsmálaráðherra með sér en ekki varaformanninn? 


Nýtt myndband frá Heru

Nú þegar spáð er yfir 10 stiga frosti í borginni um næstu helgi er gott að hlýja sér með nýja myndbandinu frá Heru, bróðurdóttur minni, sem býr í Nýja Sjálandi.

http://www.youtube.com/watch?v=9TAtNjdQ9fM

Þar verður hitinn 25gráður og sól um helgina.

 


Að leggja niður stjórnmálaflokk

Las í Berlingske í dag að flokkur Centrum-Demokraterne-CD í Danmörku ákvað á fundi sínum í gær að leggja flokkinn niður frá og með 1.febrúar n.k.

Varaformaður flokksins Hans Christian Christensen telur að svo margir flokkar starfi á miðju stjórnmálanna og að flokkur hans eigi því ekki lengur erindi til kjósenda. Allt of margir af fyrrum félögum hans hafi valið af fara til starfa í öðrum stjórnmálaflokkum.

Þekki ekki stefnu eða störf þessa stjórnmálaflokks en tel það virðingarvert þegar menn viðurkenna að þeirra sé ekki lengur þörf.

 


Opinber fordæming úr musteri friðarins

Það er nokkuð ljóst að orð formanns framsóknarflokksins austan af Egilsstöðum hafa ekki borist suður til Reykjavíkur. Var hann ekki að hvetja sitt fólk til að slíðra sverðin.

Mér þykir miður að þetta ágæta félag fari inn á þessa braut. Að vera kallaður "ónefndur fyrrverandi félagsmaður og borgarfulltrúi" er útaf fyrir sig nokkuð sérstakt. Hefur þetta fólk ekki manndóm í sér til að tala til mín með nafni.

Nú svo er þetta í fyrsta skipti sem undirrituð er formdæmd opinberlega. Fyrir hverjar sakir veit ég ekki, nema kannski þær að yfirgefa flokkinn og leyfa mér að segja skoðum mína á málefnum líðandi stundar.

Hér er þessi annars dæmalausa ályktun:

Stjórn Alfreðs, Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík suður, hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna atburða undanfarinna daga.

„Það er gríðarlegt áfall fyrir Framsóknarflokkinn að leiðtogi hans í Reykjavík, Björn Ingi Hrafnsson, hefur ákveðið að hætta í stjórnmálum. Mikill uppgangur hefur verið í félagsstarfinu og friður hafði skapast undir öruggri forystu Björns Inga í borginni. Mörg góð verk liggja eftir þennan öfluga forystumann sem lagði allan sinn metnað í að vinna vel fyrir flokkinn okkar sem og borgarbúa alla.

Það er með ólíkindum að einstaklingar eins og Guðjón Ólafur Jónsson sem og ónefndur fyrrverandi félagsmaður og borgarfulltrúi Framsóknarflokksins geti lagst svo lágt til að skemma vísvitandi fyrir flokknum og flokksfólki öllu. Fólk sem er algjörlega rúið trausti og stuðningi innan flokksins, fólk sem hefur ítrekað reynt að beita svikum og óheilindum til að ná sínu framgengt. Stjórn Alfreðs fordæmir svona vinnubrögð afdráttarlaust og afgerandi. Við viljum ekki vinna með svona fólki, við viljum ekki fólk í flokknum okkar sem eru ekki að hugsa um hag flokksins heldur lætur eigin hagsmuni stjórna ferð.

Á sama tíma og stjórn Alfreðs harmar brotthvarf foringja flokksins í Reykjavík er komið að því að þau vinnubrögð sem tíðkuð hafa verið af Guðjóni Ólafi Jónssyni og ónefndum fyrrverandi félagsmanni og borgarfulltrúa flokksins verði útrýmt í flokknum. Þessu fólki hefur ítrekað verið hafnað af flokksmönnum en þrátt fyrir það reyna þau áfram að koma sjálfum sér til valda með ógeðfelldum og sviksamlegum hætti. Stjórn Alfreðs fordæmir slík vinnubrögð og þá aðila sem fyrir þeim standa."

Þeir sem þetta lesa geta svo dæmt sjálfir um hvar vandinn liggur.

Anna Kristinsdóttir, fyrrvarandi borgarfulltrúi og félagi í Framsóknarflokknum
 


mbl.is Mikið áfall fyrir Framsóknarflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstíga minnihluti?

Ekki er hægt að sjá á fundargerð borgarráðs frá því í gær að samvinna félagshyggjuflokkanna sé mikil þegar tekið var fyrir málefni húsanna að Laugavegi 4 og 6.

"Þá er lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. í dag, að umsögn til Húsafriðunarnefndar ríkisins varðandi friðun húsanna, sbr. erindi nefndarinnar frá 9. þ.m.
Umsögnin samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

Loks er lagt fram til kynningar bréf borgarstjóra til menntamálaráðherra vegna málsins, dags. í dag.

Óskar Bergsson óskar bókað:

Ég óttast að með þessari samþykkt sé borgarráð að setja í uppnám allt deiliskipulag Laugavegar og stjórnsýsla Reykjavíkurborgar verði fyrir álitshnekki. Ég tel að deiliskipulagið útiloki ekki þann möguleika að útlit húsanna taki mið af götumyndinni og því hefði verði heppilegra að halda sig við samþykkt deiliskipulag sem unnið hefur verið samkvæmt öllum lögformlegum leiðum.

Svandís Svavarsdóttir óskar bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði tekur undir framkomna tillögu um kaup borgarinnar á Laugavegi 4 og 6 enda er hún í fullu samræmi og samhljóða tillögu sem undirrituð flutti í borgarráði í ágúst 2006. Um er að ræða verðmæti sem felast í sögu, samhengi, götumynd og umhverfisgæðum sem verða aldrei metin til fjár. Almenn umræða er augljóslega að snúast á sveif með slíkum sjónarmiðum en því ber að fagna.

Dagur B. Eggertsson óskar bókað:

Samþykktin á þessu formi er ófullnægjandi enda hvergi getið um fjármagnsskuldbindingar eða hvaða mörk er eðlilegt að setja í þeim efnum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:

Við áréttum að þessi samþykkt felur ekki í sér fordæmi fyrir önnur hús á svæðinu og leggjum áherslu á heildarskoðun gamalla húsa í miðborginni, sérstaklega við Laugaveg.

Ef þetta er dæmi um sameiginlegan málflutning minnihlutans er hann að mínu mati ekki mjög sannfærandi.

Hefði fyrrverandi meirihluti getað náð sameiginlegri niðurstöðu í málinu? Er von að spurt sé.

 


Reykjavík eitt kjördæmi

Ánægð með frumvarp sem Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingar, hefur lagt fram á Alþingi.

Þar er lagt til að skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi sé feld úr gildi og borgin verði aftur gerð að einu kjördæmi.

Það að búa í sveitarfélagi sem eru tvö kjördæmi þegar kosið er til Alþingis er aðeins til að flækja málin en frekar fyrir almenningi. Í 1.grein frumvarpsins kemur m.a. fram að Kjördæmaskipun skal ávallt þannig háttað að allir íbúar sveitarfélags séu í sama kjördæmi.

Merkilegast finnst mér, ef rétt er, að rökin fyrir skiptingunni sé aðeins vegna hagræðis vegna útreikninga en enginn önnur rök liggi þar að baki.

Þegar þessi breytingar voru gerðar á kjördæmaskiptingu landsins árið 1999/2000 urðu um það miklar umræður í samfélaginu.

Mikil óánægja var meðal félaga í framsóknarfélögunum í Reykjavík vegna þessa og málið ósjaldan tekið upp á fundum með þingmönnum flokksins. Félagsmönnum flokksins var sagt að ekki væri mögulegt að koma á neinum breytingum vegna kjördæmisskiptingarinnar. Skipta yrði Reykjavík upp í tvö kjördæmi og fyrir því lægju margar flóknar ástæður vegna útreikninga og fjölda þingmanna. Það væri ekki einu ástæðu þess að breyta þyrfti kjördæmisskipan.

Nú er bara að vona að þingmenn Reykjavíkur, allir sem einn, hvar sem þeir eru í flokki standi á bak við þetta frumvarp.

Greinagerð með fumvarpinu er eftirfarandi:


Með þessu frumvarpi er lagt til afnám kjördæmaskiptingar í Reykjavík.
Við breytingar á skipan kosninga til alþingis um aldamótin (með stjórnarskrárbreytingu, lögum nr. 77/1999, og kosningalögum, nr. 24/2000), þegar kjördæmum var fækkað í sex, var ákveðið að skipa kjósendum í Reykjavík í tvö kjördæmi og sett á fót kjördæmin Reykjavíkurkjördæmi suður og Reykjavíkurkjördæmi norður. Mörk þessara kjördæma eru ekki ákvörðuð í kosningalögum þar sem kveðið er á um mörk annarra kjördæma heldur er landskjörstjórn falið að ákveða þau hverju sinni.
    Á sínum tíma voru þau rök helst færð fyrir því að skipta Reykjavík í tvö kjördæmi að þannig yrðu þingmannahópar kjördæmanna sex svipaðir að stærð og því hentugar einingar við útreikning í kosningakerfinu sem upp var tekið.
    Reykvíkingar og fulltrúar þeirra mótmæltu því að sveitarfélaginu væri skipt í tvö kjördæmi í fyrsta sinn í lýðræðissögu Íslendinga (sjá m.a. samþykkt borgarráðs 26. janúar 1999 og 25. apríl 2000). Andstaða við kjördæmaskiptinguna varð þó minni en vert væri vegna þess að í breytingunum í heild fólust þær réttarbætur fyrir Reykvíkinga og aðra íbúa á höfuðborgarsvæðinu að nokkuð var dregið úr misvægi atkvæða, samanber ákvæði kosningalaganna um helmingsmun við rásmark nýja kerfisins, og íbúar höfuðborgarsvæðisins, rúmlega þrír fimmtu landsmanna, kusu í fyrsta sinn meiri hluta þingmanna, 33 af 63.
    Skemmst er frá að segja að í Reykjavík skilur ekki nokkur maður af hverju sveitarfélagið þarf að skiptast í tvö kjördæmi við alþingiskosningar. Kjördæmaskiptingin hefur á hinn bóginn aukið vanda við lýðræðisstarfsemi í höfuðborg Íslendinga.
    Reykvíkingar hafa ekki myndað nein sérstök tengsl við „sína“ þingmenn umfram þingmenn í hinu borgarkjördæminu. Stjórnmálasamtök í borginni skipuleggja grunneiningar sínar eins og um eitt kjördæmi væri að ræða. Einu samtökin sem greindu félagsstarf sitt í Reykjavík eftir nýju kjördæmunum, Framsóknarflokkurinn, hafa sameinað kjördæmasambönd sín í höfuðborginni. Á Alþingi kemur kjördæmaskiptingin ekki fram í störfum þingmanna Reykjavíkur. Þingmannahópar kjördæmanna tveggja hafa aldrei fundað hvor í sínu lagi eða haft með sér nokkurn félagsskap, og má raunar færa að því rök að við kjördæmabreytinguna hafi heldur dregið úr samstarfi Reykjavíkurþingmanna.
    Íbúar í einstökum hverfum hafa í hvorumtveggja þeim kosningum sem háðar hafa verið eftir nýja kerfinu þurft að bíða fram á síðustu vikur kosningabaráttunnar eftir úrskurði um það í hvoru kjördæminu þeir skuli kjósa. Við kosningarnar árið 2003 voru mörk kjördæmanna tveggja miðuð við Hringbraut–Miklubraut–Vesturlandsveg. Íbúum Grafarholtshverfis, sem er sunnan þessarar brautar, var þó skipað í norðurkjördæmið. Vorið 2007 brá hins vegar svo við að kjördæmamörk voru dregin þvert um Grafarholtið. Búast má við frekara hringli með kjördæmamörk í hverfum Reykjavíkur haldi núverandi skipan velli. Í kosningunum vorið 2003 olli kjördæmaskiptingin þeim mistökum að úrskurða varð atkvæði gild sem greidd voru í öðru kjördæmi en greiðendurnir tilheyrðu, þegar íbúar á Framnesvegi sunnan Hringbrautar greiddu atkvæði á sama kjörstað og nágrannar þeirra á Framnesvegi norðan Hringbrautar. Kjördæmaskiptingin í Reykjavík hefur einnig valdið þeim vandkvæðum við val manna á framboðslista að erfitt er að láta vilja kjósenda í prófkjöri um gengi einstakra frambjóðenda endurspeglast í kosningaúrslitum. Bæði 2003 og 2007 gerðist það að frambjóðandi sem ekki náði kjöri hafði fengið meiri stuðning í prófkjöri flokks síns en frambjóðandi sem náði kjöri á lista flokksins í hinu borgarkjördæminu.
    Skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi flækir leikreglur lýðræðisins fyrir kjósendum og veldur þeim óþægindum. Kjördæmaskiptingin hefur þyngt róðurinn við stjórnmálastarf í borginni, aukið vanda við framkvæmd kosninga, spillt vali á framboðslista og torveldað samráð með fulltrúum Reykvíkinga á þingi. Nauðsynlegt er því að gera höfuðborgina að nýju að einu kjördæmi við alþingiskosningar.
    Kjördæmi eru nú ákveðin bæði í stjórnarskrá og sérlögum. Fjöldi þeirra er tiltekinn í stjórnarskrá, „fæst sex en flest sjö“, og þar segir einnig að landskjörstjórn geti ákveðið kjördæmamörk í Reykjavík. Í kosningalögum er síðan kveðið á um skiptingu kjördæmanna og þingmannatölu þeirra. Þótt hugsanlegt sé að knýja fram sameiningu kjördæmanna í Reykjavík með breytingum á kosningalögum – þá með því að bæta við kjördæmi utan höfuðborgarinnar! – er náttúrlegra að breyta þessum ákvæðum í stjórnarskrá. Það er í samræmi við eðli og orðalag stjórnarskipunarlaga að gera það með grundvallarreglu sem varðar grundvöll lýðræðisskipunar og mannréttinda á landinu, nefnilega að mörk sveitarfélaga séu virt við skipan kosninga til Alþingis Íslendinga.
    Í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga er ekki gerð tillaga um breytingar á almennum lögum en eðli málsins samkvæmt yrði að setja ný kosningalög að þessu frumvarpi samþykktu. Minnsta hugsanleg breyting frá núverandi skipan er sú að Reykjavíkurkjördæmi norður og suður yrði sameinuð í eitt, sem þá hefði átján kjördæmissæti og fjögur jöfnunarsæti. Hlutfallsákvæði kosningalaga mætti þá t.d. orða þannig að ekkert kjördæmanna utan Reykjavíkur hefði færri kjósendur en nemur fullum þriðjungi kjósenda í Reykjavíkurkjördæmi en ekki fleiri en næmi tveimur þriðju af þeirri kjósendatölu. Nú kann mönnum að þykja það spilla einhvers konar innra jafnvægi kosningakerfisins að eitt kjördæmanna sé helmingi stærra en hvert hinna, svo sem vegna lágmarksfylgis til að koma að manni í kjördæmi, og virðist þá hægur vandi að bregðast við því með sérákvæði í kosningalögum án þess að ganga á hlut Reykvíkinga.

 


Að axla sína ábyrgð

Mér hefur oftar en ekki fundist sú hefð vera í íslenskum stjórnmálum að menn axli ekki sína pólitísku ábyrgð.

Það er nú einu sinni þannig að þegar menn taka sæti sem kjörnir fulltrúar verða þeir opinberar persónur. Þetta gera menn að eigin ósk og sækjast eftir slíku fremur en hitt.

Allt sem þeir gera eða segja er undir smásjá fjölmiðla og almennings. Verk þeirra eru sífellt til umræðu og menn verða að þola að verk þeirra þoli dagsljósið. Það eru ekki allir sem þola slíkt áreiti.

Björn Ingi hefur nú kosið að hverfa úr borgarstjórn eftir 19 mánaða setu  og ber við persónulegum ofsóknum. Hvort það er raunveruleg ástæða fyrir brotthvarfi hans eða fyrirsjáanlegt áhrifaleysi  í borgarstjórn get ég ekki svarið fyrir. Kannski er ástæðan enn önnur.

Það er gott ef hann telur að slíkt verði til að framsóknarflokkurinn nái að rétta úr kútnum og með því axlar hann þá ábyrgð sem honum ber. Eftir sitja þó kjósendur flokksins til borgarstjórnar sem völdu hann til forystu með annan einstakling við stjórnvölin.

Vonandi verður þetta til að friður ríki í framsóknarflokknum, en það mun tíminn einn leiða í ljós.


Stjórnmál snúast um traust

Eftir lestur viðtals við Margréti Sverrisdóttur  í morgunblaðinu í dag, verð ég að taka ofan fyrir henni. Ég þekki hana af góðu einu og tel að hún sé ein fárra sem setur sannfæringu sína ofar völdum í borgarstjórn. Víst hefði hún getið fengið feitan bita hjá Ólafi í nýjum meirihluta. Ef allir þeir sem skipa núverandi meirihluta, minnihluta á morgun, sýndu sömu heilindi væri orðspor borgarmála með öðrum hætti.

Þetta snýst auðvitað allt um traust á milli manna.

Hvort sem menn eru í meirihluta eða minnihluta. Ekki síður snýst þetta um traust almennings til borgarstjórnar. Almennings sem kýs fulltrúa sína á  fjögurra ára fresti. Borgarfulltrúarnir fimmtán eru í raun ekkert nema fulltrúar þeirra kjósenda sem kjósa þá til valda. Vald þeirra og áhrif eru ekki endilega komin til vegna þeirra eigin verðleika heldur oft á tíðum vegna pólitískra áhrif þeirra flokka sem þeir starfa fyrir. Það er þó alls ekki einhlít.

Í flestum lýðræðisríkjum hafa menn glímt við þann vanda að kosningaþátttaka fer minnkandi. Slíkt hefur ekki verið raunin hér á landi og hefur fámennið hér á landi og nálægð okkar hvort við annað verið ein ástæða þessa.

Traust almennings til stjórnvalda og stofnana samfélagsins skiptir máli í þeim efnum. Minna traust almennings kallar þannig oftar en ekki á minni kosningaþátttöku og slíkt er ekki af hinu góða.

Kosningaþátttaka hér á landi hefur verið meiri í sveitarstjórnarkosningum en í þingkosningum og þar kemur nálægðin að.  Í síðustu sveitarstjórnarkosningum  kusu 66.040 í Reykjavík, eða 77,1% sem er nokkru minni kjörsókn en fyrir fjórum árum þegar hún var 84,0%. Það eru því ýmis teikn á lofti um að kosningaþátttaka sé að minnka.

Held að hægt sé að segja með vissu að traust almennings til stjórnmálamanna hafi ekki aukist við atburði síðustu mánaða í borgarstjórn.

Dagur segir Ólaf hafa verið blekktan. Svandís segir að sér hafi ekki verið boðið neitt. Björn segir að sér hafi verið boðið allt. Hvað sem satt er og farið hefur fram í tveggja manna tali er það almenningur sem hristir hausinn yfir öllu saman.

Traust almennings gagnvart flestum þeim sem í borgarstjórn sitja, hefur án efa minnkað.

Það á örugglega ýmislegt eftir að ganga á í borgarstjórn á þeim rúmu tveim árum sem eftir eru af kjörtímabilinu. Vonandi verður það ekki til þess að minnka traustið en frekar.

Það verða nefnilega aðrar kosningar árið 2010.


Næsta síða »

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband