Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Atvik sem ekki gleymist

Það eru næstum tuttugu ár síðan þetta gerðist. Ég var í barnaafmæli vestur í bæ. Synir mínir tveir voru að leika sér með hinum gestunum fyrir utan húsið.

Þetta er atvik sem aldrei gleymist. Eitt barnið kom hlaupandi inn og sagði við mig "það var keyrt á strákinn þinn".

Ég hljóp út, allt gerðist ótrúlega hægt. Sonur minn lá á götunni. Það blæddi úr eyrum, nefi og munni en hann grét. Hann var með meðvitund.

Ég sá ekki þann sem keyrði bílinn. Mér var seinna sagt að hann hefði grátið enn sárar en ég. Sjúkrabíl og lögregla komu næstum strax að mér fannst. Í sjúkrabílnum náði ég að róa mig.

Þetta fór betur en á horfði. Slæmt lærbrot og nokkrar skrámur. Sex vikur í strekk á spítala. En allt löngu gróið. Upplifunin gleymist aldrei.

Öll mín samúð hjá foreldrum litla barnsins.


mbl.is Ók á barn og stakk af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur engum háður

Þekki Ólaf og störf hans í borgarstjórn ágætlega eftir að hafa setið með honum í fjögur ár í borgarstjórn. Ólafur hefur um margt sérstöðu innan meirihlutans nú þegar hann tekur sæti sem fulltrúi í meirihluta.

Hann hefur mesta reynslu í borgarstjórn af fulltrúum meirihlutans. Hann var varaborgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1990-1998. Hann varð þá Borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1998-2001 en þá sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum. Hann sat þó áfram sem óháður borgarfulltrúi til loka kjörtímabilsins vorið 2002 Hann var síðan kjörinn borgarfulltrúi af F-lista Frjálslyndra og óháðra í borgarstjórnarkosningunum vorið 2002. 

Hann kom mér alltaf fyrir sjónir sem einstaklingur með miklar hugsjónir og var ekki tilbúin að gefa mikið eftir í þeim efnum.

Mér finnst sérkennilegt, ef rétt er, að hann hafi verið beðin um að skila vottorði um heilsufar sitt áður en hann tekur á ný sæti í borgarstjórn.  Í 45. grein samþykkta Reykjavíkurborgar kemur fram:

Nú telur borgarfulltrúi sig ekki geta gegnt skyldum sínum í borgarstjórn án óhæfilegsálags og getur borgarstjórn þá létt af honum störfum eða veitt honum lausn að eigin ósk umtiltekinn tíma eða til loka kjörtímabils. Varamaður tekur þá sæti hans skv. 24. gr. sveitarstjórnarlaga.Séu borgarfulltrúi og varaborgarfulltrúi báðir forfallaðir á sami framboðsaðili rétt á að tilnefna fulltrúa af framboðslista sínum til bráðabirgða.

Ekkert kemur fram í samþykktunum að kjörnir fulltrúar þurfi að skila slíku vottorði þegar þeir snúa á ný til starfa.

Ætli þetta sé spuni sem settur er að stað af minnihluta eða taugaveiklun meirihlutans? Það verður án efa forvitnilegt að fylgjast með störfum Ólafs sem forseta Borgarstjórnar á næstu misserum.


mbl.is Ólafur F. látinn skila vottorði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott framtak

Hlýt að fagna þessu ágæta framtaki. Öruggt mál að íbúar hverfa borgarinnar eru oftast best að sér í málefnum sinna hverfa. Þeir vita hvernig hjartað slær í hverfinu og hvað má betur fara. Hljóta að vera margar góðar hugmyndir sem hægt er að koma í framkvæmd með þessum hætti.

20 nóvember s.l. var formlega stofnuð Íbúasamtök bústaðahverfis. Undirbúningur hafði staðið yfir um nokkuð skeið og raunverulega var um að ræða að endurvekja íbúasamtökin betra líf í Bústaðarhverfi.

Félagssvæði íbúasamtakana afmarkast af Miklubraut í norðri, Reykjanesbraut í austri, Fossvogsdal í suðri sunnan Bústaðarvegar að Kringlumýrarbraut og Grensásvegi í vestri. 

Ég er í stjórn þessara íbúasamtaka og við höldum okkar fyrsta stjórnarfund n.k. fimmtudag. Við höfum nú þegar fengið inn á okkar borð erindi frá íbúum og ætlum okkur að hefja kraftmikið starf á nýju ári.

Þá verður gott að vita af slíkum sjóð til að leita í til að koma góðum hugmyndum í framkvæmd í hverfinu okkar.


mbl.is 300 milljónir til hverfistengdra verkefna í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný uppeldisstöð í burðarliðnum

Margt ágætt í þessu frumvarpi. Þarf að ræða störf þingsins á hverjum tíma og færa starfhætti til átt til nútímans.

Sé að það verður veruleg aukning á pólitískum ráðningum í þessu frumvarpi. Þar kemur m.a. fram að:

formenn stjórnarandstöðuflokka fái aðstoðarmenn. 
Ráðnir verði aðstoðarmenn fyrir formenn stjórnarandstöðuflokka sem jafnframt eru alþingismenn. Þeir yrðu nú þrír. Aðstoðarmennirnir verði starfsmenn skrifstofu Alþingis, en ráðnir eftir tillögu formanna flokkanna.

Hér koma inn þrír pólískt ráðnir starfsmenn af skattfé.


Að bæta aðstöðu þingflokka. 
Stefnt verði að því að færa ritaraþjónustu þingmanna, sem nú er á vegum skrifstofu þingsins, á forræði þingflokkanna þannig að þeir geti betur lagt þær áherslur í starfi sínu sem þeir kjósa. Stöðugildi eru nú átta. Alþingi greiddi áfram laun ritara og léti þeim í té starfsaðstöðu (eins og nú er) en ráðning þeirra væri eftir tillögu þingflokkanna.

Þarna væri hægt að setja inn pólitísk ráðna ritara. Hér koma átta stöður. 


Að þingmenn Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæma fái aukna aðstoð (aðstoðarmenn). 
Í tengslum við kjördæmabreytinguna 1999 var rætt um að þingmenn Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæma fengju sérstaka aðstoðarmenn (eða stöðuhlutfall aðstoðarmanns) með hliðsjón af því hve stór þessi kjördæmi eru að flatarmáli og erfið yfirferðar af þeim sökum. Niðurstaðan varð hins vegar sú að fá stjórnmálaflokkunum fé til ráðstöfunar í þessu skyni, en ljóst er að það fé fer að mestu í almennan rekstur flokkanna. Því er nú lögð áhersla á að aðstoð við þingmenn þessara kjördæma verði bein (ekki í gegnum flokkana) og að sú aðstoð tengist hverjum og einum þingmanni sérstaklega en síðan sé það á valdi hvers þingmannahóps hvort hann sameinist um starfsmann. Þingmenn Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæma eru nú 29. Þar af eru fjórir ráðherrar sem hafa aðstoðarmenn og skv. 2. tölul. hér að framan er lagt til að formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu fái aðstoðarmenn, en sem stendur eru þeir allir úr þessum kjördæmum, þ.e. þrír þingmenn. Málið snýst því nú um aðstoð við 22 þingmenn.

Og hérna 22.stöður.

Þrjátíu og þrjár stöður fyrir nýja aðstoðarmenn og ritara sem  ráðnir verða af skattfé.

Án efa verður þetta besta uppeldisstöð fyrir verðandi stjórnmálamenn sem til er.

 


mbl.is Frumvarp um ný vinnubrögð þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera sammála um að vera ósammála

Mér finnst á margan hátt að það sé nýtt skeið runnið upp í íslenskum stjórnmálum. Þetta skeið einkennist af því að samherjar í stjórnmálum hafa á einhvern hátt sammælst um það að vera ósammála.

Ekki það að þessir stjórnmálamenn þurfi að tilheyra sama flokknum, þótt slíkur ágreiningur þekkist auðvitað innan sama flokks, heldur hitt að stjórnmálamenn sem tilheyra sama meirihluta eru ósammála um fleiri og fleiri máli.

Virðist hafa verið tekið upp samkomulag um það að mega hafa aðra skoðun á málum. Að mega vera ósammála.

Í dag voru það Geir og Ingibjörg sem ekki sáu  þróunarskýrslu Sameinuðu Þjóðanna, sem kynnt var í dag, með sömu augum.

Geir taldi að ekkert ýti á það að við Íslendingar myndum auka við þróunaraðstoð eða afstöðu okkar í umhverfismálum þótt við værum það lands sem byggi við best lífsskilyrðin.

Ingibjörg taldi hinsvegar að staða okkar á listanum auki á skyldur okkar vegna þróunaraðstoðar og pólitískrar ábyrgðar okkar alþjóðastjórnmálum.

Þetta virðist vera lenskan í meira og meira mæli að samherjar í ríkisstjórn hafa leyfi til að hafa ólíka sýn á einstök mál. Það sama gildir að sama skapi í borgarstjórn þegar menn ekki geta komið sér saman um stefnu í einstökum málum. Að vera þá bara ósammála.

Skyldi þessi nýi stíll verða til þess að málin vinnist hraðar eða að sameiginleg niðurstaða fáist?

Er alls ekki viss um það.

 


Spilling hér og þar

Hlustaði á Sverrir Hermannson tala um spillinguna í Mannamáli í kvöld. Hann fór mikinn og hafði margt að segja um spillingarmálin og slæma menn.

Sverrir hefur án efa upplifað miklar breytingar á sinni ævi. Hann þekkir örugglega nokkur dæmin hér áður um það að menn misnotuð stöðu sína sér og sínum til framdráttar.

Á þeim tíma þegar hann var bankastjóri voru vinnubrögðin með allt öðrum hætti. Ekki bara í Landsbankanum heldur í samfélaginu öllu. Var á vissan hátt hluti af tíðarandanum.

Held að samfélagið sjálft móti þau viðhorf sem eru til slíkra mála á hverjum tíma. Samfélagið hér á landi hefur breyst ótrúleg mikið á liðnum áratugum en þó tel ég að við eigum langt í land með að marka okkur reglur um hvað má og hvað má ekki. Hvað sé t.d. siðlegt í stjórnmálum.

Það er líka þannig að þó mönnum verði á eru þeir ekki tilbúnir að taka pokann sinn og fara af vettvangi. Þeir sjá ekki sökina í sínu eigin máli. Þá er það samfélagsins að draga menn til ábyrgðar og þar eru tól og tæki til þess að víkja mönnum frá af skornum skammti. Reglur eru óskýrar og jafnvel ekki til.

Við þekkjum þannig aðeins örfá dæmi þess hér á landi að menn víkji úr embætti sínu nema þeir séu til þess þvingaðir. Hvorki stjórnmálamenn eða embættismenn. Þar sýnir sig hvað við erum um margt ólík frændum okkar á norðurlöndunum.

Gerist oft og iðulega að norrænir ráðherrar segja af sér vegna spillingar. Mörg dæmi á liðnum misserum í Svíþjóð. Sá frétt í byrjun mánaðarins um sænskur ráðuneytisstjóri og nánasti samstarfsmaður forsætisráðherra þar í landi hefði sagt af sér.

Ástæða þessa er að hún hafði sést nokkuð drukkin á krá með blaðamanni. Á sama tíma hafði hún verið á bakvakt sem yfirmaður almannavarna og neyðarástandsviðbragða stjórnvalda. Þó virðist fara tvennum sögum af því hvort hún hafi verið á vakt eða ekki samkvæmt sænskum dagblöðum.

Myndi einhver segja af sér hér á landi vegna slíks brots? Á erfitt með að sjá það fyrir mér.


Að segja minna en meira

Þakka góðar kveðjur til mín síðustu daga. Flest þeirra samtala og tölvupósta sem ég hef fengið hafa verið með jákvæðum hætti. Þó ekki án undantekninga. Sumir eru mér reiðir.

Skil vel að einhverjir séu ósáttir við ákvörðun mína að kveðja flokkinn og jafnvel undrist hana. Á þessa ákvörðun við mína eigin samvisku. Orðin þreytt á fylkingum og eilífum átökum. Veit sem er að ástandið í þeim málum er verst í mínum hrepp, Reykjavík.

Það sem kemur mér hinsvegar á óvart er að þeir sem kvarta mest yfir því að ég hafi ekki verið opinskárri um stöðu einstakra mála innan flokksins skuli vera  þeir sem enn starfa þar. Það eru þeir sem vilja láta opna lokið af pottinum þannig að út úr flæði. Ljóst af þessum samtölum að menn vilja umræðu um vinnubrögðin upp á yfirborðið en vilja sjálfir ekki vera til þess að gagnrýna. Vita víst hvað slíkt þýðir.

Vel að gera það ekki nú. Tel að þeir sem eftir eru væri frekar að opna umræðu um slík mál innan flokksins. Þá kannski verður það til þess að vinnubrögðum verður breytt. 

Ég hef valið að hverfa af vettvangi.


Úrsögn mín úr Framsóknarflokknum

Ég hef starfað með framsóknarflokknum frá árinu 1980.  Ég starfaði til að byrja með í ungliðahreyfingu flokksins og þegar ég hafði aldur til gekk ég til liðs við félögin í Reykjavík. 

Um langt árabil hef ég verið í forystusveit félaganna í Reykjavík. Var m.a. fyrsta konan sem gegndi starfi formanns Framsóknarfélags Reykjavíkur. Ég hef setið í miðstjórn flokksins samfellt í 16 ár og var borgarfulltrúi flokksins á árunum 2002-2006.  

Ég hef alla tíð talið mig starfa að heilindum með Framsóknarflokknum. Ég hef gert allt mitt til þess að vinna stefnumálum hans brautargengi utan sem innan flokks.  Af þessu starfi mínu hef ég oftast haft ánægju og ekki síður hef ég fengið til þess tækifæri að kynnast fjöldanum öllum af góðu fólki.  

En allt er breytingum undirorpið. Á síðustu misserum hefur mér fundist sú taug sem tengt hefur mig við flokkinn hafa rofnað. Ég hef  átt erfiðara með að samsama mig við þá stefnu sem flokkurinn hefur unnið að og gagnrýnt margt í verkum hans. Ekki síður hefur gagnrýni mín beinst að þeim vinnubrögðum sem mér hefur þótt vera beitt innan flokksins. 

Ég hef reynt að leggja mig fram við að vinna að betri vinnubrögðum innan flokksins, talið sjálfum mér og öðrum trú um það um langt skeið, að brátt séu bjartari tímar framundan. Að fari menn að vinna með öðrum takti og með nýju fólki munum við öll finna fjölina okkar aftur. 

Því miður sýnist mér að sú von mín ætli ekki að rætast. Margt af því góða fólki sem ég hef starfað með á löngum ferli er horfið á braut. Sumir hafa kvatt flokkinn með formlegum hætti og aðrir vilja ekki lengur taka þátt í starfi hans. Þeir hafa misst trú á flokknum.  

Ég hef alltaf reynt að tala hreint út. Það á jafnt við um vinnubrögð og stefnumál innan flokksins. Slíkt er þó ekki fallið til vinsælda. Ekki síst þegar sífellt er klifað á nauðsyn þess að tala einum rómi utan flokksins og leysa deilur innanflokks. Á sama tíma er horft fram hjá vinnubrögðum innan flokksins sem ekki eiga heima í starfi stjórnmálaflokks sem á að vera í forystu í  framgangi lýðræðis og jafnræðis innan samfélagsins. 

Mér finnst á margan hátt að á flokkurinn minn sé horfinn og ég geti ekki lengur fundið hvar og hvernig hjarta hans slær. Að flokkurinn hafi færst of mikið frá stefnu sinni og það þróttmikla starf sem áður einkenndi hann sé nú fyrir bí.  

Mér er það ekki létt að segja skilið við margt af því góða fólki sem enn fylgir  flokknum, en í núverandi stöðu tel ég mig knúna til þess að segja mig úr Framsóknarflokknum.  

Ég hef jafnframt tilkynnt úrsögn mína til skrifstofu Framsóknarflokksins í dag.   


Stofnfundur íbúasamtaka Bústaðarhverfis í kvöld

Sett hér  inn fréttatilkynningu vegna stofnfundar íbúasamtaka Bústaðarhverfis sem haldinn verður í kvöld. 

Stofnfundur íbúasamtaka Betra líf í bústaðarhverfi verður haldinn þriðjudaginn 20.nóvember kl. 20.00 í safnaðarheimili Bústaðarkirkju

Tilgangur íbúasamtakanna er að vera samstarfsvettvangur íbúa og félagasamtaka á félagssvæðinu, að vinna að framfara- og hagsmunamálum í Bústaðarhverfi, að stuðla að samhug innan svæðisins, að byggja upp samstarf við opinberar stofnanir sem hafa með málefni hverfisins að gera, að byggja upp samstarf við önnur íbúasamtök og að hvetja íbúa til hugmynda og athafna fyrir hverfið.

Félagssvæði samtakanna er Bústaðahverfi og afmarkast af Miklabraut í norðri, Reykjanesbraut í austri, Fossvogsdal í suðri, sunnan Bústaðavegar að Kringlumýrarbraut og Grensásvegi í vestri

Íbúar hverfisins eru hvattir til að mæta og sýna samtöðu um málefni hverfisins.

 


Fundur hjá Akri

Góður fundur hjá Akri í kvöld og ágætis mæting. Flestir fundarmenn voru núverandi eða fyrrverandi félagar í Framsóknarflokknum. Því einkenndist umræðan af stöðu mála þar á bæ.

Menn hafa sterkar skoðanir á málum innan flokksins. Margt bendir til að átök muni harðna á næstu misserum á þeim vettvangi. Boðar ekki gott ef rétt reynist.

Menn voru sammála um að hafa fastan fundartíma hjá Akri einu sinni í mánuði á nýju ári. Næsti fundur verður seinnipart janúar og mun góður gestur koma á fundinn.

Sýnist á öllu að þetta verði meginvettvangur minn á næstu misserum fyrir þátttöku í stjórnmálastarfi. Skýrist þó betur á næstunni.  

 


Næsta síða »

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband