Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Að auka flækjustigið.

Fötluð börn og ungmenni sem njóta umönnurbóta hafa jafnframt fengið umönnunnarkort frá Tryggingastofnun Ríkisins.

 

Þessi umönnunarkort eru ígildi öryrkjakorta og veita foreldrum afslátt vegna kaupa á lyfjum fyrir börn. Jafnframt hefur verið nægjanlegt að sýna þessi kort í afgreiðslu sundastaða í borginni og í Húsdýra-og fjölskyldugarði til þess að fá frían aðgang líkt og aðrir öryrkjar fá.

 

Nú nýlega heyrði ég af ungri móðir með fatlað barn sem var vísað frá sundstað í borginni og tilkynnt að ekki væri lengur nægjanlegt að framvísa umönnunarkorti TR. Nú þyrfti að sýna kort sem gefið væri út af Sjálfsbjörgu og þyrfti að sækja sérstaklega um. Þess utan þyrfti að greiða fyrir slík kort.

 

Á heimasíður TR kemur eftirfarandi fram;

Börn handhafa umönnunarkorta fá einnig frían aðgang að sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu og fjölskyldu- og húsdýragarði Reykjavíkur. Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu útbýr sundkortin fyrir Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur og hægt er að nálgast þau á skrifstofu Sjálfsbjargar að Hátúni 12 gegn framvísun umönnunarkorts. Greiða þarf 1.200 kr. vegna barns sem er synt og getur klætt sig sjálft. Þurfi barn á aðstoðarmanni að halda kostar kortið 2.000 kr. en þá fær foreldri eða aðstoðarmaður barnsins einnig frían aðgang að sundlaugum eða fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Sundkort þessi gilda út almanaksárið

 

Er ekki verið að flækja málið fullmikið með þessum hætti? Eða er verið að reyna að torvelda fötluðum börnum og ungmennum aðgengi að þjónustu borgarinnar?


Eru samgöngur og umhverfismál allt?

Fór burt úr bænum á fimmtudag. Vetrarfrí var á fimmtudag og föstudag í skóla yngsta sonar míns og tilvalið að efla fjölskylduböndin með góðum vinum í sveitinni.

 

Á föstudag var Hólmavík heimsótt. Fengum tækifæri að sjá íslenskan galdramann að störfum í galdasafninu. Fengum til láns rúnir sem vernduðu gegn draugum. Þeim var síðan skilað aftur á sýslumörkunum.

 

Óhætt að óska heimamönnum  til hamingju með Eyrarrósina sem veitt var til Strandagaldurs s.l. fimmtudag. Strandagaldur rekur m.a. galdrasafnið á Hólmavík. Þessi verðlaun  eru veitt fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Verðlaunagripurinn var komin í hús á föstudag og er hann eftir Steinunni Þórarinsdóttur og var mikil prýði af honum.

 

Átti ágætt spjall við heimamann um stöðu mála á Hólmavík. Þar búa nú rúmlega 400 íbúar.  Þessi ágæti maður átti tvö börn í framhaldsskóla á Akureyri og heldur því úti tveim heimilum. Hann greiðir um 100 þúsund krónur til heimildshalds á Akureyri mánaðarlega og fær tvisvar sinnum á ári 80 þúsund í dreifbýlisstyrk fyrir hvort barn. Áttti ekki von á að unga fólkið snéri aftur heim að loknu námi. Enga vinnu að fá við hæfi.

 

Heyrði í frambjóðenda vinstri grænna í norðvestur kjördæmi í dag í útvarpinu, eftir að landsfundi þeirra lauk. Hélt því fram að samgöngubætur og strandsiglingar myndu gera gæfumuninn í ástandi mála á landsbyggðinni. Fyrir utan umhverfismálin sem væru stæðstu málin.

 

Gott að leggja áherslu á umhverfismál og samgöngumál. Held hinsvegar að þau mál ein og sér verði ekki til þess að fjölga íbúum á stöðum eins og Hólmavík eða svipað er ástatt um. Það þarf mun meira að koma til og ekki síst fleiri og fjölbreytari atvinnutækifæri fyrir unga fólkið.

 


Eftir hverju er beðið?

Nú eru að hefjast enn á ný formlegar viðræður á milli ríkis og sveitarfélaga um mögulegan flutning á verkefnum ríkis til sveitarfélaga. Nú á að ræða málefni fatlaðra og aldraðra. Þetta var ákveðið á árlegum samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga sem haldinn var þann 16. febrúar s.l.

Þessi frétt birtist hinsvegar í morgunblaðinu 18,febrúar 1998, eða fyrir níu árum síðan.

"UM NÆSTU áramót er boðuð sú breyting að málefni fatlaðra flytjast frá ríki til sveitarfélaga. Helstu rökin fyrir þessari breytingu eru að verið sé að færa ákvarðanatökuna nær þeim sem þjónustunnar eiga að njóta og jafnframt að styrkja sveitarstjórnarstigið. Þessi umræða, sem nú fer fram á opinberum vettvangi hér á landi, er meira en 10 ára gömul erlendis."

 

Eftir hverju bíða menn eiginlega? Er ekki búið að ræða málin nóg og komin tími á að stíga skrefið til fulls.

 

 


Geta ráðherrar bundið hendur næstu ríkistjórnar?

Þegar samgönguráðherra lagði fram samgönguáætlun fyrir árin 2007-2018, upphófs mikil umræða um hvaða þýðingu slíkt plagg hefði. Ekki aðeins væru aðeins þrír mánuður eftir af kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar heldur væri slíkt plagg ekkert annað en óskalisti og hefði ekki neina fjárhagslega skuldbindingu í för með sér.

 

Það leiðir hugann af því hvaða vald ráðherrar hafa til þess að skuldbinda ríkið og hversu víðtækt slíkt vald er. Ekki síst nú þegar styttist til kosninga.

 

Það sem á eftir fer í þessum pistli er hluti af hópverkefni sem ég vann og fjallaðir um fjárveitingavald ráðherra og sýnir að samningar ráðherra eru alls ekki alltaf bindandi.  

 

Þó ákveðnar takmarkanir séu á fjárveitingarvaldi ráðherra þá hefur hann engu að síður mikil völd á sviði fjárveitinga, bæði formleg og óformleg

Samningar ráðherra virðast þó ekki hafa skuldbindandi áhrif og hafa fallið dómar þess efnis að ráðherra geti ekki bundið fjárveitingar þótt undirritaður sé samningur um ákveðna þjónustu. Dæmi um slíkt er dómur sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 27.október síðast liðinn þar sem íslenska ríkið var sýknað af kröfu Öryrkjabandalags Íslands, vegna samkomulags bandalagsins við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra árið 2003 um hækkun lífeyris. Í dómnum segir m.a. að bandalagið hafi vitað að ráðherra hefði ekki heimildir til að hækka bætur eða til að stofna nýjan bótaflokk og þess vegna sé ríkissjóður ekki bundinn af samkomulaginu (Héraðsdómur Reykjavíkur 26. okt. 2006)

Á sama hátt geta yfirlýsingar ráðherra eða fréttir af þeim ekki orðið grundvöllur réttmætra væntinga um uppbyggingu. Þannig var viljayfirlýsing borgarstjóra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma sem gerð var vorið 2002 túlkuð sem marklaust plagg af þáverandi fjármálaráðherra. Hann taldi jafnframt að þar sem málið hefði ekki verið borið undir fjármála- eða forsætisráðherra, né ríkisstjórnina, hefði þessi viljayfirlýsing ekkert gildi. Það væri ekki verk eins fagráðherra að gera slíkt (Morgunblaðið, 18.05.2002).

 

Svo mörg voru þau orð. Undir hvað ætli samgönguáætlun flokkist  þá, annað en marklaust plagg?


Slæmir leiðtogar og samverkamenn

Leiðtogafræðin verið tekin með krafti þessa dagana. Annað fengið minni tíma. Verkefnaskil framundan og eins gott að vera vel að sér í fræðunum.

 

Las yfir hluta af fræðum B. Kellerman sem skrifaði bókina, Bad Leadership-What it is, How it Happens, Why it Matters

 

Hún hefur rannsakað fjöldann allan af leiðtogum og meðal þess sem hún heldur fram er að einkenni "vonda leiðtoga" sé að þeir búi yfir greind, mikilli starfsorku, vilja til valda og árangurs, ákveðni og einbeitni, hæfni til boðskipta og eigi auðvelt með að taka ákvarðanir.

 

Þótt allt þetta teljist oftast til kosta eru nokkrir þættir sem hún segir að standi upp úr hjá þessari tegund leiðtoga. Það eru þættir eins og fagleg vanhæfni, ósveigjanleiki, óhóf, tilfinningaleysi og kuldi, þröngsýni, og síðast en ekki síst að þeir séu spilltir og illgjarnir.

 

Það er þó aldrei þannig að þessi leiðtogar standi einir. Þannig segir hún að það finnst ekki ill eða slæm forysta, án slæmra samverkamanna "There is no bad leadership without bad followership" Og þá er mikilvægt að láta ekki ánetjast og verða samsekur slæmum forystumönnum.

 

Nú er bara að máta leiðtoga sína inn í þessa mynd og sjá hvort maður sé slæmur samverkamaður.


Skylmingar um ábyrgð

Í þjóðfélagi þar sem  breytingar verða miklar á samfélagsháttum á stuttum tíma nær stjórnsýslan oft ekki að breyta sínum háttum með sama hraða. Þannig verða breytingar í samfélaginu oft fyrst, og síðan kemur  krafa á hið opinbera að breyta þjónustu sinni eða efli eftirlit, eftirá.

 

Stjórnsýslan hér á landi er einfaldlega veikburða og ekki alltaf í stakk búin til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu. Það hefur margoft komið fram á liðnum árum.

 

Þótt miklar breytingar hafi orðið á stjórnsýslunni á liðnum áratug til batnaðar, er kerfið alltaf að breytast. Ný verkefni koma upp á borð stjórnvalda og breytingar á lögum og reglum krefjast meiri eftirfylgni. Nýjar stofnanir taka til starfa og eldri stofnanir sameinast. Kerfið breytist og stundum gleymist að fylgja eftir öllum þáttum starfsemi hins opinbera.Breytingar innan stjórnsýslu eru hluti af breytingum í samfélaginu öllu og fylgja eðlilegri þróun.

 

Hlutverk stjórnmálamannananna í þessu kerfi er fyrst og fremst að móta stefnuna og síðan er það stjórnsýslunnar að framfylgja henni.

 

Þegar upp koma mál sem benda á brotalamir innan kerfisins er það stjórnvalda að bregðast við. Slíkt þarf að gera með ábyrgum hætti og koma í veg fyrir að slíkt eigi sér stað aftur. Einnig þarf að leita leiða til að lágmarka þann skaða sem orðið hefur vegna slíkra mála, og bæta þann skaða ef mögulegt er.Ef slík mál snúa að einstaklingum sem jafnvel hafa haft af því skaða, eiga stjórnvöld að bregðast en hraðar við.

 

Stjórnvöld á hverjum tíma eiga líka að sýna auðmýkt gagnvart slíkum vanda. Menn verða aldrei minni af því að viðurkenna mistök.

 

Slíkt á stjórnarandstaðan líka að viðurkenna, og í stað þess að leita af einstaklingum til að draga til ábyrgðar á hún að viðurkenna sinn þátt í að móta þá stjórnsýslu sem við búum við.

 

Hættum pólitískum skylmingum vegna Byrgis og Breiðavíkurmála. Hugsum frekar um þá einstaklinga sem um sárt eiga að binda vegna þessa og göngum samhent í að leysa vanda þeirra.


Botninum náð

Ekki er ástandið beysið fyrir okkur framsóknarmenn samkvæmt nýjustu skoðanakönnun fréttablaðsins sem birtist um helgina. Var stödd utanbæjar og fréttir af slakkri stöðu flokksins bárust mér seint í gærkveldi.

 

Ætla ekki að neita því að ég hélt að botninum væri náð. Við færum ekki undir 7%. En verðum víst að bíta í það súra epli að staðan hefur enn versnað og flokkurinn mælist  með undir 4% fylgi. Ætla ekki að falla í þann pyt að gagnrýna sendiboða slæmra tíðinda.

 

Held þó að þetta sé langt frá því að vera raunveruleg staða. Byggi það ekki á óskhyggju heldur þeirri fullvissu að flokkurinn á mikið inni. Veit að þó við höfum misst einstaklinga fyrir borð er enn mikið af fólki sem fylgir okkur að málum.  Þótt staðan sé slæm þykja mér menn ganga full langt í því að spá flokknum dauða.

 

Kristinn farinn úr flokknum. Ekki neitt sem kemur á óvart. Hefur um langt skeið verið ósáttur við sína stöðu innan flokksins. Kristinn átti engar rætur í flokknum og það er eitt af því sem heldur mönnum í flokknum, jafnvel þótt þeir séu ósáttir við stöðu mála á tímabilum.

 

Held þó, að hann hefði getað fengið nokkra framsóknarmenn til að fylgja sér ef hann hefði valið að fara í framboð fyrir aðra en frjálslynda. Þeir sem ganga til liðs við þann flokk virka ekki trúverðugir. Flokkurinn sá virðist vera að verða samansafn þeirra sem ekki hafa þrifist innan annara flokka.

 

Svo er bara bíða og sjá hvort botninum sé ekki náð í skoðanakönnunum fyrir okkur framsóknarmönnum.


Hvað kostar barnið þitt?

Þegar sonur minn, sem er fatlaður, hóf nám í almennum grunnskóla var mér sagt frá því hversu mikið fjármagn fylgdi honum inn í skólann. Ég vissi ekki alveg hvort ég ætti að vera þakklát eða hreykin vegna þessa. Þetta hlýtur að hafa verið gert til þess að auka kostnaðarvitund mína um hversu kostnaðarsamt það er að mennta eitt stykki barn.

 

Ætli þetta sé gert þegar öll börn hefja nám í grunnskóla, eða bara þegar fötluð börn hefja nám? Skyldi foreldrum almennt vera tilkynnt hvað mikið sé greitt af skattfé til að kosta menntun barnins í grunnskóla?

 

Kostnaðarvitund er góðra gjald verð en það er sérkennilegt hvað oft hún virðist koma við sögu þegar málið snýr að þjónustu við fatlaðra.

 

Nú er komið að því á mínu heimili að endurnýja umsókn um umönnunarbætur sonarins. Slíkt gerist á 4.ára fresti.  Því fylgja heimsóknir til lækna til þess að útvega vottorð auk heimsóknar á svæðisskrifstofu. Þetta hlýtur að að tákna það að von sé til að litningargallinn hans hafi læknast, eða hvað?

 

Kostnaðarvitundin skellur þó fyrst á manni þegar á að fylla út 16 lið umsókninnar um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, svokallaðar umönnunargreiðslur.

 

Þar er mér gert að skila greinagerð um tilfinnaleg útgjöld vegna heilsuvanda og meðferðar barnsins. Ótrúlegt hvað hið opinbera leggur mikið á sig til að gera okkur foreldrum grein fyrir hversu mikil útgjöld það hefur í för með sér að eiga fatlað barn.  

 

Ætli þetta sé gert af umhyggju fyrir okkur foreldrum og þörfinni á að efla án frekar vitundina um hvað það kostar að eiga börn? Sérstaklega fötluð börn.


Að grafa upp gömul bein.

 Ég, eins og líklega þjóðin öll, hef staðið agndofa frammi fyrir þeim atburðum sem gerðust á drengjaheimilinu á Breiðuvík. Ekki skrítið að margir af þeim sem þar dvöldu hafi síðan ekki náð að fóta sig á beinu brautinni. Með allt það sem drengirnir hafa þurft að upplifa hefur ekki verið auðvelt að ganga út í lífið fullur af væntingum og vonum. Fæstir þeirra sem þar dvöldu hefur heldur ekki tekist það.

 

Vandinn snýst hinsvegar um hvernig taka á því að menn hafi verið beitir harðræði fyrir áratugum síðan. Á að draga einstaka menn til ábyrgðar eða þá sem sátu við stjórnvölin. Eiga þessir einstaklingar rétt á bótum vegna þess harðræðis  eða duga önnur meðul?

 

Mál sem að undanförnu hafa verið dregin fram í dagsljósið af fjölmiðlum sýna að það er margt sem átti sér stað í íslensku samfélagi sem er ótrúlegt er að hafi viðgengist árum og áratugum saman.

 

Samfélagið hefur sem betur fer breyst til batnaðar í aðbúnaði sínum við slíka samfélagshópa á liðnum áratugum. En fjölmiðlar hafa að mínu mati gert rétt í að minna okkur á skyldur okkar við þá og samábyrgð okkar allra gagnvart þeim.

 

Aðbúnaður þeirra sem áttu högg að sækja virðist hafa verið sínu verstur.

 

Málefni heyrnleysingjaskólans og þeir atburðir sem þar áttu sér stað í þögninni.

Stofnanir eins og Breiðavík og drengirnir sem þar voru vistaðir.

Kópavogshæli og aðbúnaði vistmanna þar.

Miklu fleiri dæmi eru þarna úti og rétt að draga þau fram í dagsljósið

 

Margt af því sem þarna gerðist er samfélaginu öllu til skammar.

Fjölmiðlar hafa haft frumkvæði á að koma þessum málum upp á borðið.

Almenningu á einnig rétt á að hið opinbera stígi fram og setji af stað opinbera rannsókn á þeim úrræðum sem beitt var á síðustu öld í þjónustu við þessa hópa.

 

Annars hanga beinagrindurnar áfram í skápnum.


Orsök og afleiðing.

Varaformaður frjálslyndra segir að ástæða fylgistaps flokksins í skoðanakönnun Blaðsins í dag, sé ekki vegna brotthvarfs Margrétar Sverrisdóttur.

 

Það hafi mun færri sagt sig úr flokknum en búist var við, við úrsögn Margrétar. Ástæða fylgishruns frjálslyndra sé hinsvegar umræða síðustu vikna um flokkinn.

 

Hefur sú umræða ekki fyrst og fremst skapast vegna brotthvarfs Margrétar og ótrúlegra vinnubragðra tengdri þeirri atburðarás.Eða  hvað ætli varaformaðurinn telji að umræða síðustu vikna hafi snúist um?


Næsta síða »

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband