Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Jafnréttið fær nýjan byr

Án efa á eftir að verða mikil umræða um þetta frumvarp og skiptar skoðanir á einstökum þáttum þess.

Sé að völd Jafnréttisstofu eru aukin til muna í þessu frumvarpi. Henni er veitt heimild til að kalla eftir hvers kyns gögnum frá einkafyrirtækjum, félagssamtökum og stofnunum ef grunur leikur á að hlutaðeigandi hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Jafnframt verði heimilt að beita sektum, sem nema 50 þúsund krónum á dag, ef gögn berast ekki innan þess tíma sem krafist er.

Annað sem vekur athygli mína er að lagt er til afnám samningsbundinnar skyldu til launaleyndar í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. 

Fyrirtæki með 25 eða fleiri starfsmenn er líka samkvæmt frumvarpinu að gera framkvæmdaáætlun þar sem fram kemur hvernig fyrirtæki hyggist framfylgja jafnréttisáætlun sinni.

Síðan er tillaga þess efnis að jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna hafi sérþekkingu á jafnréttismálum þar sem ljóst þykir að styrkja þurfi stöðu þessara fulltrúa frá því sem nú er.

Allt tillögur sem munu fá mikla umræðu á þinginu á næstu vikum


mbl.is Frumvarpi að nýjum jafnréttislögum dreift á Alþingi í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ritstjórn starfs og siðareglna borgarstjórnar

Á fundi borgarráðs í gær var eftirfarandi tillaga lögð fram:

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 24. þ.m.:
Lagt er til að skipuð verði ritstjórn starfs- og siðareglna fyrir borgarstjórn Reykjavíkur, sbr. samþykkt borgarstjórnar frá í júní sl. Allir flokkar sem sæti eiga í borgarstjórn tilnefni fulltrúa í hópinn og verði Guðmundur Steingrímsson, aðstoðarmaður borgarstjóra, formaður hans. Hópurinn hefji þegar störf og getur hann kallað til þá embættismenn og sérfræðinga Reykjavíkurborgar sem verkefnið krefst. Drög að siðareglunum verði kynnt stjórnkerfisnefnd, forsætisnefnd og borgarstjórnarflokkum áður en þær verði lagðar fyrir borgarráð og borgarstjórn.

Málinu var frestað en ég hlýt að vona að hún verði samþykkt á næsta fundi ráðsins.  

Ritstjórn fyrir þetta mikla verkefni er mikilvæg og tel ég að Guðmundur sé vel til þess falinn að stýra þessu verki. Nú er bara að vona að vinna við starfs-og siðareglur borgarstjórnar líti dagsins ljós sem fyrst.


Jákvæðar breytingar framundan

Fór í dag í með son minn í fyrstu heimsókn í frístundaklúbbinn sem hann ætlar að dvelja í, eftir að skóladegi lýkur í vetur. Þetta er nýtt úrræði fyrir fötluð ungmenni 10-16 ára og rekið í samstarfi ríkis og borgar. Ég hef beðið með óþreyju eftir að það hæfi starfsemi síðan í haust.

Ég sé fram á nýja tíma hjá mér á næstu vikum.

Sumrinu eyddum við sonur minn meira og minna saman fyrir utan 14 daga sem hann dvaldi í frábærum sumarbúðum í Reykjadal.

Allt frá því að skólinn hófst í haust hef ég sótt hann í skólann kl. 14.10 á hverjum virkum degi og við eytt því sem eftir er dagsins saman. Vinnudagurinn ekki verið langur hjá mér frá skólabyrjun.

Þótt það sé yndislegt að eiga góðan tíma með börnunum sínum er öllum hollt að eiga tíma fyrir sjálfan sig. Svo ekki sé talað um að eiga samskipti við fólk á svipuðum aldri.

Því sé ég fram á jákvæðar breytingar hjá okkur báðum á næstu dögum og held að okkur báðum hlakki til.

Ég mun nú eyða næstu vikum í að undirbúa meistararitgerð mína í stjórnsýslufræðunum sem ég ætla mér að klára á vori komandi.  Sonur minn mun án efa eignast nýja vini og félaga í þessum ágæta klúbbi. 


Fjarri heimahögum

Stödd í Nurnberg í Þýskalandi. Verið þar síðan um helgi. Ótrúleg uppbygging hefur þarna farið fram frá lokum síðari heimstyrjaldar.

Hef fræðst mikið um einkaleyfi og stöðu þeirra þar sem eiginmaður minn situr 30 ára afmælisfund EPI-European Patent Institute.

Hinsvegar fræðst mikið um uppgang Hitlers í síðari heimstyrjöld og áform hans um heimsyfirráð. Ótrúlegt að sjá það sem eftir stendur að höfuðstöðvum flokks hans í Nurnberg. Þar var m.a. gert ráð fyrir að 50 þúsund áhorfendur  gætu verið saman komnir innandyra. 

Auk þessa hef ég svarað ótal spurningum eins og endranær um hversu margir búi á Íslandi, hversu stórt landið sé, hver sé helsta atvinnugreinin og hvaða mál við tölum. Er eins og oft áður í hlutverki sendiherra landsins, líkt og allir þeir sem slíkar samkomur sækja.

 

 


Friður eða átök?

Nú hefur verið gefin hin opinbera lína sjálfstæðismanna í Reykjavík um sambandslitin. Nú skulu menn hætta að ræða um ósætti innan hópsins og sammælast um að Vilhjálmur hafi traust  hinna borgarfulltrúanna og allra annarra sjálfstæðismanna í borginni.

Svo slæmt virðist ástandið hafa verið orðið að ekki aðeins mætti formaðurinn flokksins á fund sjálfstæðismanna í Reykjavík heldur ritaði varaformaðurinn grein í morgunblaðið í dag um hverju væri um að kenna.

Það má sjálfstæðisflokkurinn eiga að á undanförnum árum hefur forystu flokksins tekist með ótrúlegum hætti að halda flest öllum ágreiningi innan flokks, utan fjölmiðla.

Meðan aðrir flokkar hafa oft á tíðum logað stafnana á milli í ágreiningi, nú síðast frjálslyndi flokkurinn, þá þekkist ekki meðal sjálfstæðismanna að bera mál sín á torg.

Ágreiningur skal leystur innanbúðar.

En nú er eins og eitthvað hafi gerst, menn eru ekki lengur til í að sitja undir þessum vinnubrögðum. Kannski ekki skrítið þar sem stjórnmálaflokkar eiga að vera vettvangur fólks til að ræða mál á lýðræðislegan hátt. Takast á og hafa ólíka sýn. Jafnvel innan sama flokks.

Kannski er sá tími kominn að lokið sé farið að opnast á pottinum og við hin fáum að sjá hvað kraumar undir.  

 


mbl.is „Hætta að takast á við fortíðina“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntun er máttur, eða hvað?

Er undrandi á ályktun félaga minni í framsóknarfélagi Skagafjarðar sem samþykkt var í gær á félagsfundi. Hún segir að þeir alþingismenn sem eru annað hvort veikir eða í námi skuli kalla inn varamann í sinn stað.

Þingmaður flokksins í kjördæminu Magnús Stefánsson er í námi um þessar mundir og reyndar líka Birkir Jón Jónsson þingmaður Norðausturkjördæmis. Reyndar eru þeir báðir í MBA námi við Háskóla Íslands. Námið fer þannig fram að kennt er annan hvern föstudag og laugardag til þess að fólk geti stundað atvinnu meðfram náminu. Ætti ekki að tefja þá félaga mikið frá því að sinna störfum sínum á þingi.

Hef alltaf talið það kost fyrir kjörna fulltrúa að hafa þekkingu á ólíkum sviðum þjóðlífsins. MBA námið er m.a. ætlað að efla starfshæfni og er góður kostur fyrir alla þá sem í senn vilja efla þekkingu sína í viðskiptafræði og auka færni í stjórnun og rekstri. Ekki veitir af slíkri þekkingu í störfum þeim sem kjörnir fulltrúar taka sér fyrir hendur.

Þetta nám gerir þá félaga án efa betri og hæfari sem kjörna fulltrúa á þingi og gerir þeim jafnframt kleyft að sinna verkum sinnum betur.

Held að Skagfirðingar hefðu betur fagnað þessu framtaki í stað þess að tala með þessum hætti til sinna félaga.  Eða er þetta kannski allt byggt á misskilningi?


Ný vinnubrögð-nýr meirihluti

Þessu góða fólki treysti ég vel til góðra verka. Veit að málefni OR og REI verða skoðuð ofan í kjölinn og almenningi kynnt málið allt að þeirri skoðun lokinni. Þá fyrst geta menn dæmt það hvað raunverulega fór úrskeiðis.

Verður vonandi til þess að almenningur fái aftur trú á stjórnmálamönnum. Held að margt hafi gerst í þessu máli sem hafi kastað rýrð á stjórnmálin í heild sinni og skaðað trú íbúa á sína kjörnu fulltrúa.

Vonandi verður þeirri skoðun snúið við með nýjum vinnubrögðum í nýjum meirihluta.

p.s. Og svo klára menn væntanlega reglur um siðferði borgarfulltrúa sem liggur fyrir forsætisnefnd


mbl.is Bryndís Hlöðversdóttir nýr stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég minnist þess ekki"

Mér fannst pínlegt og jafnframt erfitt að horfa á Vilhjálm fráfarandi borgarstjóra og Bjarna Ármannsson í kastljósinu í kvöld.

Vilhjálmur hlýtur að sjá það að hann á enga framtíð fyrir sér í stjórnmálum. Hann hefur oftar en einu sinni orðið missaga í málum tengdum REI.

"Ég minnist þess ekki" þýðir einfaldlega ekki að málin hafi ekki verið kynnt fyrir honum.

Vandinn er hinsvegar sá að Vilhjálmur virðist ekki hafa fylgst með því sem gerðist í kringum hann þegar hann sat slíka kynningarfundi. Slíkt gengur auðvitað ekki fyrir æðsta embættismann borgarinnar.

Held að nú verði menn að finna nýjan forystumann í borgarmálin fyrir sjálfstæðisflokkinn. Verða án efa margir sem vilja gegna því hlutverki.

Að öðrum kosti verða menn með lík í lestinni fram að næstu kosningum.


mbl.is Minnist þess ekki að hafa séð minnisblaðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr meirihluti-nýjar áherslur

  Í gær urðu tímamót við stjórn borgarinnar þegar meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarflokks sprakk.

Þetta er um margt merkileg tímamót, vegna þess að slíkt hefur ekki gerst áður í sögu borgarstjórnar. Ekki síður eru þetta tímamót fyrir sjálfstæðismenn sem höfðu grunlausir talið sig hafa tryggt völd sín a.m.k. fram að næstu kosningum. Slíkt kom greinilega fram í viðtölum við Vilhjálm og fulltrúa sjálfstæðisflokkinn í gær. Þar töluðu reiðir og birtir menn og töldu sig hafa verið sviptir völdum án nokkurrar ástæðu. Töluðu jafnvel um valdarán. Slík afstaða er ekki óalgeng þegar menn lenda í slíkri stöðu. Pólitíkin er óútreiknaleg.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði í kosningunum 1994 verið við völd, næstum án undantekninga, um áratuga skeið. Fulltrúar þeirra höfðu vanist því að vinna að málum án samráðs eða með samþykki minnihlutaflokka borgarstjórnar og heldu því utan um stjórn borgarinnar eins og eign sína.

Á árunum 1994-2006 kom síðan að nýr meirihluti í borgarstjórn sem skipaður var úr fleiri flokkum og vann málin með öðrum hætti. Þar var aldrei ein rödd sem ákvað hvaða stefnu skyldi taka. Þar þurfti umræðu í aðdraganda ákvarðanatöku og þar komu allir flokkar að. Slíkum vinnubrögðum voru borgarbúar orðnir vanir og vildu ekki afturhvarf til gamalla tíma.

Hlakka til að fylgjast með nýjum meirihluta og störfum hans. Víst er að margt verður vandasamt sem þar kemur upp. Ekki síst vegna þess að mörg mál sem fyrrverandi meirihluti vann að voru gagnrýnd að þeim flokkum sem nú munu skipa meirihluta. Þar verða menn að vera samkvæmir sjálfum sér og snúa skútunni hratt en örugglega. Það má ekki gerast við slíkar breytingar að stjórnsýslan verði óstarfhæf vegna breytinga á stefnu.

Það er mörg mál sem taka verður á í nýjum meirihluta. Fyrst og fremst verða flokkarnir fjórir að skoða öll mál sem tengjast REI og samruna þess við Geysir green ofan í kjölinn. Almenningur þarf að fá fullvissu fyrir því að sá gjörningur þoli dagsljósið. Ef svo reynist ekki vera verða menn að draga slíkar ákvarðanir til baka og byrja með hreint borð. Svandís Svavarsdóttir hefur sýnt það að undanförnu að hún er manneskja til slíkra verka.

Þeir flokkar sem nú skipa nýjan meirihluta mega ekki verða uppvísir að vinna á sömu formerkjum og síðasti meirihluti og verða því að taka upp ný og gegnsærri vinnubrögð.

Ég óska nýjum meirihluta í borgarstjórn góðs gengis í verkum sínum.


Söguleg tíðindi

Söguleg tíðindi að borgarstjórnarmeirihluti springi.

Hlýt að fagna þessu. Þessi nýji meirihluti mun án efa vinna á öðrum forsendum en sá sem hverfur af vettvangi.

Mínar bestu óskir, mun færa ásýnd flokksins í borginni aftur á miðjuna.


mbl.is Nýr meirihluti myndaður í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband