Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Áramótakveðja frá Nelson

Gamlársdagur runninn upp og hér á Nýja sjálandi aðeins sex tímar eftir af árinu. Erum stödd í Nelson sem er vinsæll sumardvalarstaður hér á suðureyjunni.

Á leið okkar frá Pikton fórum við eftir ótrúlega fallegum fjallvegum í gegnum fjallendi þar sem Rei-skógurinn teygir sig frá fjöru til fjallstoppa. Mikið að fallegum víkum þar sem við stoppuðum til þess að njóta útsýnis og góðra veitinga. Fjallasýnin var ótrúleg og engu öðru lík. Landið er ótrúlega fallegt og margbreytileiki þess ótrúlegur.

Hér í Nelson búa um 45 þúsund manns og bærinn þekktur fyrir það að vera höfuðstaður lista og menningar á eyjunni. Meðal annars er gullsmiður sá sem gerði hringinn fræga úr Hringadróttinssögu með verslun hér í miðbænum og hringurinn þar til sýnis.

Einnig er ótrúlegur fjöldi safna og annarra skemmtilegra staða til að skoða. Bæði í bænum sjálfum og í næsta nágrenni.

Góðir golfvellir er hér líka sem hluti hópsins hefur nýtt sér og hefur að eigin sögn náð ótrúlegri leikni í golfinu. Mikið um fugla á vellinum en þó aðeins í óeiginlegri merkingu golfsins.

Í kvöld höfum við pantað okkur borð á góðum veitingastað. Ekki vitað af neinum ætluðum flugeldasýningum eða bálköstum. Vitum að þessi áramót verða með öðrum hætti en þau fyrri en slíkt fylgir er hátíðarhaldið er fjarri heimslóðum.

Í fyrramálið munum við síðan horfa á áramótaskaupið í gegnum tölvuna og hver veit nema við hlutum líka á ávarp forsætisráðherra.

Gleðilegt ár 


Á boxing day

Í dag er annar í jólum eða boxing day eins og hann heitir hér á slóðum.

Lögðum snemma af stað frá Christchurts og erum komin á stað við ströndina sem heitir Kaikoura. Vorum sérstaklega spurð úti það hvort við vildum ekki fá hvalaskoðun þegar við pöntuðum gistingu. Höfðum ekki sérstakan áhuga. Okkar hvalaskoðun hefur oftast verið á dauðum hvölum við verkun þeirra í hvalfirðinum á árum áður.

Viðkvæmt að ræða hér um hvalveiði og flesti sem við höfum rætt við telja það okkur Íslendingum ekki til tekna að hafa veitt hvali. Það eitt að hafa borða hvalkjöt er afar slæmt. Hér vilja menn gjarnan að allt verði með sama hætti og var fyrir 100 -200 árum í tengslum við nýtingu sjávarafangs. Menn eigi ekki að veiða nema sér til matar. Að mínu mati frekar útopísk hugmyndafræði sem mun ekki nást. Maður fer því varlega í allar slík umræðu hér þar sem félagar í Green peace eru fjölmargir og málefnið heitt.

Fórum í ferðalag í þrjá daga fyrir jólahátíðina til Hamner sem er 600 manna bær sem liggur inni í landi. Þar eru heitir hverir sem hafa verið nýtir til heilsubaða í yfir 100 ár. Fyrir nokkrum árum keyptu japanskir fjárfestir þessar heilsulindir og nú eru reknar þarna laugar með 12 ólíkum böðum. Gufuböð og einkapottar og rennibrautir eru líka í boði en fyrir það er greitt sérstaklega. Allt er þetta undir beru lofti og ekki ólíkt því að koma í íslenskrar laugar. Hitastigið í laugunum er frá 18-42 gráðum. Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir þennan stað ár hvert allan ársins hring.

Leigðum okkur hús og vorum þarna í tvær nætur í góðu yfirlæti. Náðum meira að segja að fara á jólatónleika í lauginni á þann 21.desember sem náðu nokkru hámarki fyrir okkur í jólastemmingunni.

Þorláksmessa með pizzu veislu og smá smakki af skötu var öðruvísi. Jóladagurinn fór í verslunarferð og síðan hófst jólamáltíðin kl. 6.00 eins og hefðbundið er. Hitinn var hinsvegar mikill og næstum ólíft var innandyra. Möndlugrauturinn ekki að okkar skapi, allt með öðrum blæ. Hænurnar á heimilinu fengu mest af grautnum. Farið snemma í háttinn eftir langan dag.

Jóladagur er líka með öðrum hætti. Byrjað með fersku ávaxtasalati og kampavíni kl. 9.00 um morguninn og síðan var boðið upp á 12 mismunandi rétti fram eftir degi. Máltíðinni lauk síðan um 20.00 og mitt fólk var farið í rúmið um 21.00 Mikið fjör söngur og gleði. Þó er víst að þetta eru óvenjulegustu jól sem ég hef haldið og þau sem hafa minnsta stemminguna haft. Stemmningin var einfaldlega eftir einhverstaðar á milli Amsterdam og Singapore. Finn hana örugglega næstu jól.

Nú eru við lögð af stað í ferðalag upp að nyrsta hluta suðureyjunnar. Óvíst hvar við endum. Verðum hér í Kaikoura eina nótt síðan í Blenham og síðan bera ævintýrin okkur lengra.

Meira síðar.

 

 


Stutt aðfangadagsblogg

Aðfangadagur runinn upp. Erum hálfum sólarhring á undan ykkur hinum og aðfangadagskvöld væntanlegt eftir þrjá tíma.

Því miður hefur jólastemminingin ekki fundist þrátt fyrir mikla leit. Verðum víst að sætta okkur við öðruvísi jól að þessu sinni, Hér er glampandi sól og hiti um 25 gráður.

Hef ekki haft mikin tíma til að setja inn færslur, ferðalög á landsbyggðina og veisluhöld hafa tekið allan tímann. Set meiri fréttir héðan á næstu dögum.

Bestur óskir til allra um gleðilega jólahátíð


Fyrstu fréttir

Verið góður dagur hjá ferðahópnum á Nýja Sjálandi. Skoðuðum okkur um í Christchurch og nágrenni og heimsóttum söfn sem hentuðu öllum aldurshópum. Setið á pallinum í sól og sumri.

Nokkur orð um ferðalagið hingað niður eftir.

Við eyddum einum degi í miðborg Amsterdam þar sem hitastigið var við frostmark. Þar sem okkur þótti heldur svalt fórum við inn í nokkra minjagripaverslanir á göngu okkar. Allar áttu þessar verslanir það sammerkt að yngstu ferðalangarnir gripu andann á lofti yfir vörum sem þar voru á boðstólnum. Slíkar vörurtegundir eru t.d. ekki til sölu í rammagerðinni eða öðrum minjagripaverslunum á Íslandi. Frekar í sérstökum verslunum tengdum kynlífi. Fjölskyldugangan í miðborg Amsterdam varð því styttri í annan endann en gert var ráð fyrir vegna kulda. Gistum síðan á hóteli á flugvellinum þaðan sem haldið var til Singapore snemma næsta dag.

Flugið með Singapore Airlines var með besta móti og jólasveininn heimsótti yngstu fjölskyldumeðlimina. Höfðum haft áhyggjur af afþreyingu í löngu flugi en slíkt var óþarfi þar sem hver farþegi gat valið um fjölda mynda, sjónvarpsþátta eða leikja til að stytta sér stundir. Tímarnir 12 liðu því fljótt þó lítið væri sofið.

Á flugvellinum í Singapore tók við 10 tíma bið. Við höfðum keypt hótelherbergi á flugvallarhóteli þar sem hægt var að fara í sund og slaka á. Fórum síðan í heimsókn á sædýrasafn sem vakti mikla ánægju. Í Singapore var hinsvegar 30 stigi hiti sem var full mikið fyrir okkur.

Flugið var með sama hætti frá Singapore til Christchurch og tók rúma 10 tíma. Þó var sofið mest alla leiðina.

Á flugvellinum í Christchurch tók fjölskyldan hérna megin á móti okkur og urðu miklir fagnaðarfundir.

Framundan er síðan jólahald, skötuveisla á Þorlák og jólahald á íslenskan og nýsjálenskan máta.

Meira síðar.


Komin til Nýja Sjálands

Erum komin á leiðarenda eftir langt og strangt ferðalag. Tók rúma þrjátíu tíma í flugi auk allra stoppa.

Í góðum félagskap er alltaf gott að njóta leiðarinnar enda skiptir leiðin ekki minna máli en áfangastaðurinn. Verð þó að viðurkenna að á leiðinni týndum við allri jólastemmingu.

Erum komin á Blake street og allir vel á sig komnir.

Meira síðar eftir góðan nætursvefn


Koma jólasveinar í flugvél?

Sonur minn 10 ára er einstakur um margt, en þessa dagana er hann heltekinn af jólasveinunum. Hann hefur talið niður í komu þeirra og nú eru þeir farnir að koma einn af öðrum sveinarnir.

Hann sendir þeim bréf sem lesin eru af áfergju af sveinunum um óskir sínar og vonir um það sem verði í skónum. Á liðnum árum hefur hann stundum verið svolítið stúrin yfir því að óskirnar rætast ekki samstundis.

En nú fara mál að verða snúin fyrir jólasveininn og gjafir þær sem birtast í skónum. Pilturinn er á leið í ferðalag til eyjaálfu með foreldrum sínum og tvær nætur verður hann á flugi yfir lönd og haf.

Hann hefur margar spurningar vegna þessa sem ég reyni að svara eins og mér er frekast unnt en þarf ég að beita mínu ýtrasta ímyndunarafli til að svara þeim.

Hann vil gjarnan fá að vita hvar hann eigi að setja skóinn um borð í flugvélinni. Hann vil líka vita hvernig sveinarnir geti komið gjöfum til skila ef ekki megi opna gluggann í vélinni. Hann spyr mig hvort þeir skilji bréf á íslensku og hvernig þeir viti af ferðum sínum.

Nú er bara að vona að jólasveinarnir komi sínu til skila, sama hvað líður tíma og rúmi.

 

 


Að trúa á sjálfan sig

Ánægð með þetta val. Freyja er frábær einstaklingur sem hefur sýnt okkur öllum að það eru ekki einstaklingarnir sem eru fatlaðir heldur eru það viðhorfin sem eru röng í samfélaginu.

Mér finnst líka sem foreldri að Freyja hafi verið alin upp á einstakan máta. Hún vissi einfaldlega ekki að fötlun sinni meðan að hún var yngri. Hún gat allt, var ekki hlíft og þess vegna er hún eins einstök eins og raun ber vitni.

Foreldrar hennar hljóta að vera einstakt fólk að ala hana upp með þessum hætti. Enda segir hún sjálf frá því að hennar viðhorf hafi mótast af því umhverfi sem hún kemur úr.

Ég hef oft velt vöngum yfir ýmsu í  uppeldi og verndun sonar míns  eftir að ég hef hlustað á Freyju flytja fyrirlestra og erindi. Hún hefur fengið mig til að endurskoða margt sem ég taldi að ég gerði rétt. Svo tekst henni að vera passlega hæðin og ótrúlega skemmtileg í leiðinni. 

Hún er einstök og án efa þess megnug að ryðja brautina. Það hefur hún sýnt með þrautseigju og dugnaði. Öðrum fötluðum til hvatningar

Til hamingju Freyja


mbl.is Freyja er kona ársins hjá Nýju lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundlaugar í öll hverfi borgarinnar

Frábært framtak hjá öflugum íbúum Bústaðahverfis. Fór á kynningarfund vegna framkominna hugmynd í s.l. mánuði. Það er langt síðan ég hef sótt svo fjölmennan fund íbúa hverfisins og ljóst að mikill áhugi er á að fá sundlaug í Fossvogsdalinn. Hugmyndir um græna laug er líka áhugaverð þó útfærslan liggi ekki alveg fyrir.

Fór í að safna undirskriftum í nágrenni við heimili mitt. Hitti engan íbúa þar sem ekki vildi styðja þetta góða verkefni.

Sundlaugar eru sjö í borginni og eru þær ótrúlega vel sóttar. Um 1.800.000 gestir sóttu þær á s.l. ári  og þær eru staðsettar flestum hverfum borgarinnar. Þær eru staðsettar í vesturbæ, miðbæ, laugardal, breiðholti, árbæ, grafarvogi og kjalarnesi.

Ný laug í Fossvogsdal, sem jafnframt myndi nýtast  íbúum báðum megin dalsins, yrði góð viðbót.


mbl.is Vilja sundlaug í Fossvogsdal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haustönn lokið

Síðasta verkefni haustannar klárað í gær. Er búin að vera á kafi í mannauð meðfram stjórnsýslunni undanfarið. Hef lítið annað gert en að skoða skýrslur, greinar og bækur um efni þessarar annar.

Finnst stundum að ég geti ekki skrifað fleiri skynsamleg orð um það efni sem fyrir er lagt. Nú sé ekki meiri speki að finna. Þá er ekkert annað að gera en að leggja verkefnið frá sér í nokkra klukkutíma og byrja svo aftur. Þá er alltaf eins og eitthvað bætist við. Að lokum hefst þetta allt. En ekki er þetta allt jafn skemmtilegt og ég gleðst við hvern þann áfanga sem ég næ. Stefni að útskrift á vori komandi.

Í slíkum törnum er eins og maður sé ekki hluti af samfélaginu, fylgist ekki með fréttum nema á netinu og horfi ekki á sjónvarp. Fer helst ekki úr húsi og dagarnir renna saman í eitt. Bloggið verður líka afskipt. Lítið af frjórri hugsun eftir að törninni lýkur.

Hefur reyndar verið ágætt að tjá sig hvorki um femínisma eða kristilegt innræti á blogginu. Ekki það að ég hafi ekki skoðun á þeim málum. Hef reyndar þá lífspeki að allt sé gott í hófi og það á ekki síður við í þessum málum.

Hlakka ótrúlega til að getað notað næstu vikur í að lesa góðar bækur og njóta návista við fjölskylduna hinum megin á hnettinum.

 

 


Styttist í brottför til Nýja Sjálands

Helgin var annasöm. Leit við á 40 afmæli Kjartans Magnússonar á föstudagsköld áður en farið var í jólahlaðborð. Hitti þar mikið að góðu fólki en ekki sáust þarna margir framsóknarmenn.

Síðasta próf annarinnar var í gær. Heimapróf sem stóð allan daginn. Var um sveitarstjórnarmál svo þar var ég á heimavelli. Sé alltaf betur og betur hversu mikilvægt það er að vera vel að sér í lagaumhverfinu á stjórnsýslustiginu.

Nú er síðasta vikan áður en haldið er í ferðalagið til Nýja Sjálands. Mikil tilhlökkun hjá öllum sjö ferðafélögunum og ekki síður hjá þeim hluta fjölskyldunnar sem bíður okkar þar.

Við leggjum af stað snemma á laugardagsmorgun og gistum eina nótt í Amsterdam. Síðan er 12,5 tíma flug til Singapore og beðið þar í 10 tíma. Þá eru flogið í aðra 10 tíma til Christchurch.Þangað komum við á hádegi á þriðjudag.

Á Nýja Sjálandi verðum við í þrjár vikur en á leiðinni heim verður stoppað nokkra daga í Malasíu. Heim verður komið aftur 13. janúar

Nú er talið niður í brottför


Næsta síða »

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband