Leita í fréttum mbl.is

Stjórnmál snúast um traust

Eftir lestur viðtals við Margréti Sverrisdóttur  í morgunblaðinu í dag, verð ég að taka ofan fyrir henni. Ég þekki hana af góðu einu og tel að hún sé ein fárra sem setur sannfæringu sína ofar völdum í borgarstjórn. Víst hefði hún getið fengið feitan bita hjá Ólafi í nýjum meirihluta. Ef allir þeir sem skipa núverandi meirihluta, minnihluta á morgun, sýndu sömu heilindi væri orðspor borgarmála með öðrum hætti.

Þetta snýst auðvitað allt um traust á milli manna.

Hvort sem menn eru í meirihluta eða minnihluta. Ekki síður snýst þetta um traust almennings til borgarstjórnar. Almennings sem kýs fulltrúa sína á  fjögurra ára fresti. Borgarfulltrúarnir fimmtán eru í raun ekkert nema fulltrúar þeirra kjósenda sem kjósa þá til valda. Vald þeirra og áhrif eru ekki endilega komin til vegna þeirra eigin verðleika heldur oft á tíðum vegna pólitískra áhrif þeirra flokka sem þeir starfa fyrir. Það er þó alls ekki einhlít.

Í flestum lýðræðisríkjum hafa menn glímt við þann vanda að kosningaþátttaka fer minnkandi. Slíkt hefur ekki verið raunin hér á landi og hefur fámennið hér á landi og nálægð okkar hvort við annað verið ein ástæða þessa.

Traust almennings til stjórnvalda og stofnana samfélagsins skiptir máli í þeim efnum. Minna traust almennings kallar þannig oftar en ekki á minni kosningaþátttöku og slíkt er ekki af hinu góða.

Kosningaþátttaka hér á landi hefur verið meiri í sveitarstjórnarkosningum en í þingkosningum og þar kemur nálægðin að.  Í síðustu sveitarstjórnarkosningum  kusu 66.040 í Reykjavík, eða 77,1% sem er nokkru minni kjörsókn en fyrir fjórum árum þegar hún var 84,0%. Það eru því ýmis teikn á lofti um að kosningaþátttaka sé að minnka.

Held að hægt sé að segja með vissu að traust almennings til stjórnmálamanna hafi ekki aukist við atburði síðustu mánaða í borgarstjórn.

Dagur segir Ólaf hafa verið blekktan. Svandís segir að sér hafi ekki verið boðið neitt. Björn segir að sér hafi verið boðið allt. Hvað sem satt er og farið hefur fram í tveggja manna tali er það almenningur sem hristir hausinn yfir öllu saman.

Traust almennings gagnvart flestum þeim sem í borgarstjórn sitja, hefur án efa minnkað.

Það á örugglega ýmislegt eftir að ganga á í borgarstjórn á þeim rúmu tveim árum sem eftir eru af kjörtímabilinu. Vonandi verður það ekki til þess að minnka traustið en frekar.

Það verða nefnilega aðrar kosningar árið 2010.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

Hún Margrét er að fá sér stóran bita hún er bara ekki en búin að segja okkur hvað hún er með uppí sér. Vittu bara til.

Stjórnmál  snúast ekki um traust. Sá sem trúir því er einhver sem skynjar ekki veruleikann og lifir í einhverju fallegu ljóði.

En hafðu góðar stundir og eins og þú þá man ég að það eru kosningar 2010.

Halla Rut , 23.1.2008 kl. 23:17

2 identicon

Sæl Anna.

Mjög sammála pistlinum þínum. En því miður þá er búið að sýna sig að það er síður en svo algilt að stjórnmál snúist um traust. Því miður. Hvernig getur almenningur treyst stjórnmálmönnum ef þeir OPINBERLEGA treysta ekki hver öðrum? Jafnvel ekki sínum eigin flokkssytkinum?Það er ekki von að vel fari.

En nú er lag, friðarrofinn er flúinn og farinn úr pólitík. Gangi þér vel með allar ákvarðanir sem þú tekur um endurkomu þína í pólitík eður ei. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 08:54

3 Smámynd: Anna Kristinsdóttir

Almenningur kýs þá sem hann treystir. A.m.k. er það mín skoðun að fólk kjósi þann stjórnmálaflokk sem hann treystir til að koma sínum málum í framkvæmd.

Minnkandi traust til stofnanna samfélagsins og þ.m.t. stjórnmálanna virðist draga úr stjórnmálaþátttöku og jafnframt kosningaþátttöku sem veikir lýðræðið.

Þannig tel ég að stjórnmálin snúist um traust.

Ég hef reyndar líka gaman af góðum ljóðum.

Anna Kristinsdóttir, 24.1.2008 kl. 09:25

4 Smámynd: Halla Rut

Auðvitað eiga stjórnmálamenn að vera traustsins verðir. En þeir eru í erfiðri aðstöðu. Ef þeir krafsa og klóra ekki til að koma sér áfram þá komast þeir ekki í áhrifastöður og þar af leiðandi komast þeir ekki til að vinna að þeim málum sem eru þeim mikilvæg.

Halla Rut , 26.1.2008 kl. 15:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband