Leita í fréttum mbl.is

Undirskriftarlistar-til hvers?

Fór á áhugavert málþing á föstudaginn sem haldið var á vegum  Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Yfirskrift málþingsins var "Hvernig virkar lýðræðið í sveitarfélögunum? Fulltrúalýðræði – stjórnmálaflokkar – hagsmunaaðilar – íbúar".

Þetta var hið ágætasta málþing þar sem valinkunnur hópur ræddi ólíka fleti þessa máls.

Einn fyrirlesara ræddi um áhrif-völd og hagsmuni.  Þar var sérstaklega rætt um hvaða áhrif hagsmunasamtök hafa  á störf sveitarfélaga. Þar kom meðal annar upp sú samræðan sem nauðsynleg er að fram fari, þegar reynt er að ná ásættanlegri niðurstöðu í einstökum málum innan sveitarfélaga.

Í máli fyrirlesara kom fram að það sé einfaldlega ekki þannig að undirskriftalistar séu samráð við sveitarstjórnir. Það þurfi að fara aðrar leiðir. 

Að safna undirskriftum er ekki alltaf leiðin til að fá sveitarfélög til samráðs. Það getur dugað þegar reynt er að vekja athygli á málum sem kjörnir fulltrúar hafa ekki sinnt. Einstökum framkvæmdum eða óskum íbúa.

Málið snýr allt öðruvísi við, þegar reyna á að þvinga sveitarstjórnir til þess að draga til baka einstakar ákvarðanir sem búið er að samþykkja.

Það er ágætt að hafa slíkt í huga áður en menn leggja af stað í þann leiðangur að safna undirskriftum gegn einstökum ákvörðunum sveitarfélaga. Það verður að skoða hverju menn ætla að ná fram með slíkum undirskriftum.

Það eitt að safna undirskriftum til þess að láta í ljós óánægju með niðurstöðu í máli er ekki til neins. Það verður að vinna málin fyrirfram en ekki eftirá.

Ekki vanþörf á því að hafa slíkt í huga nú, þegar undirskriftarlistar virðast eiga að leysa hvers manns vanda.


Að vera eða ekki vera leiðtogi

Hann er vandrataður hinn gulni meðalvegur. Það sem einum er leyft er öðrum bannað. Það sem einum er talið til tekna er öðrum talið til hnjóðs.

Þannig líta menn misjöfnum augum á framgöngu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í Mannamáli hjá Sigmundi Erni í gær. Það sem mér fannst bera vott um vasklega framgöngu telja aðrir vera afneitun af hennar hálfu.

Mér persónulega fannst hún sýna það og sanna að hún væri leiðtogi með framgöngu sinni í gær. þáttastjórnandinn virtist skynja það sama og hafði það sérstaklega á orði í þættinum. Hvaða skoðun menn hafa síðan á hennar pólitík en annað mál. Það að vera leiðtogi er ekki öllum gefið.

Stjórnmálin snúast ekki síður um það að verjast fimlega og það gerði hún að mínu mati líka í gær. Ég var ekki alltaf viss um að hún hefði sannfæringu fyrir því sem hún sagði, en hún varðist með kjafti og klóm.  Hún viðurkenndi jafnframt að staða Sjálfstæðisflokksins í borginni væri ekki ásættanleg. Hún viðurkenndi að vandinn væri til staðar.

Hún vildi hinsvegar ekki viðurkenna annað en allt væri í góðu lagi í meirihlutanum. En hvað eiga menn að gera í slíkri stöðu? Varla fara menn að viðurkenna að allt sé í kalda koli innanbúðar. Veit ekki til þess að slíkt sé vænlegt til árangurs fyrir meirihluta.

Man eftir mörgum stjórnmálamönnum  sem hafa beitt þessari sömu taktík. Þeir hafa yfirleitt verið dásamaðir fyrir þor og þrek og það að láta ekki andstæðingana slá sig út af laginu. Þá er slík framganga talin kostur.

Hanna Birna sem hinsvegar varðist fimlega án þess að horfa fram hjá þeim vanda sem virðist vera uppi, virðist ekki vera mæld eftir sömu mælistiku þegar frammistaða hennar er metin.

Sama hvað má segja um þessa ágætu konu þá kom þar bersýnilega fram í þættinum að þarna er leiðtogi á ferð. Ekki skrítið þótt andstæðingarnir óttist það.


Allt fyrir málefnið.

Gott sunnudagsveður er ástæða bloggleysis.

Gæti þó haft skoðun á silfrinu og málflutningi varaformanns Frjálslyndra. Ætla ekki í þann leðjuslag. Þykir málflutningurinn þess manns ekki þess virði. Vorkenndi Kristni H. Gunnarssyni sem gat varla borið blak af sérkennilegum málflutningi varaformannsins.

Gæti líka haft skoðun á ummælum varaformanns Sjálfstæðisflokksins um Evrópumálefni. Fagna þeim ummælum og vona að sá flokkur sjá framsýni sinnar konu.

Ef vandi hennar er að hafa ekki nægjanlega marga fylgismenn innan flokksins verða Evrópusinnar eins og ég, að velta upp þeim möguleika að ganga til liðs við sjálfstæðisflokkinn. Allt fyrir málefnið.

 


mbl.is Gott sunnudagsveður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listsköpun sonarins

Sonur minn býr yfir margskonar hæfileikum. Einn þeirra er sérstök sýn hans á heiminn og þörfin til að yfirfæra IMG_1699 hana á pappír.

Í lok dags liggur pappír yfir öll borð og hálfkláraðar myndir á víð og dreif um húsið.

Hann hefur sérstakan hæfileika til að teikna eftir myndasögum en mér hefur reynst erfiðara að fá hann til að skapa sínar eiginpersónur eða myndir úr sínum eigin hugarheimi.

Hann hefur verið s.l. vikur á myndlistanámskeiði hjá ÍTR í sínu hverfi. Fitore frá Kosavó kennir honum og hún hefur einstakan hæfileika til að fá hann til að skapa.

Í gær kom svo afraksturinn í ljós. Tvær dásamlegar myndir úr hans eigin hugarheimi.

Þær fóru strax af heimilinu. Það er biðlisti eftir verkum hans og hann  hefur ekki undan eftirspurn.

Hann hélt sýningu á pallinum vorið 2007 og seldi allar sínar myndir.

Hann ætlar að sýna næst á list án landamæra vorið 2009.

Má til að setja aðra mynda gærdagsins hér.

 

 


Lokið að detta af pottinum

Sjálfstæðisflokkurinn er stór flokkur. Mælist stærsti flokkur á Íslandi í kosningum. Þar innan dyra eru margar ólíkar skoðanir. Það er ekkert nema eðlilegt við það.

Sjálfstæðisflokkurinn er einn fárra flokka sem enn hefur flokksaga. Þar liggur munurinn á honum og flestum öðrum flokkum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið samstíga í sínum skoðunum út á við og menn hafa borið gæfu til þess að leysa ágreining innan flokks en ekki utan. Hefur skapað flokknum traust meðal almennings.

Meðan Davíð stjórnaði flokknum voru menn lítið að tjá sig þvert á stefnu flokksins a.m.k. opinberlega. Hann hafði stjórn á sínum mönnum. Leyfði þó einum eða tveim þingmönnum að tala á annan hátt en heildinni.

En allt er í heiminum hverfullt. Nú virðist aginn vera á hraðri niðurleið. Það sýnir sig í málum tengdum borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna, þar virðist ekki vera tekið á málum. Vantar á vissan hátt höfuð á hópinn. Eftir höfðinu dansa síðan limirnir.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins þann 4. maí s.l. var skrifað "Það versta sem fyrir Sjálfstæðisflokkinn getur komið er alvarlegur og djúpstæður ágreiningur um ESB".

Nú virðist slíkt vera að gerast. Í fyrradag sagði Þorgerður Katrín á fundi með sjálfstæðismönnum að  að Íslendingar eigi að breyta stjórnarskránni á þessu kjörtímabili til þess að greiða fyrir hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Í gær er það Björn Bjarnason sem segir hinsvegar að hann sé ekki hrifinn af hugmyndum um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar sem gera myndu kleift að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ólíkar skoðanir innan ráðherraliðs Sjálfstæðismanna og nú hljóta menn að takast á innbyrðis um það hvaða leið verði fyrir valinu þegar stefna flokksins er mótuð í Evrópumálum. 

Það er líkt og lokið hafi verið tekið af pottinum og undir kraumi ágreiningurinn. Það getur orðið erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn og vonandi bera menn gæfu til að taka mið af því sem fólkið í landinu vill.


mbl.is Á móti þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"elskan mín"

Þótt ljúfan sé hið fallegasta orð verður að nota það í réttu samhengi og við rétt tækifæri. Veitt fátt verra en að vera kölluð "elskan" eða "góða" af ókunnugum.

Vann um árabil á vinnustað þar sem ég var eini kvenkyns starfsmaðurinn. Oftar en ekki gerðist það að karlmenn komu á vinnustaðinn þegar ég var ein að störfum og spurðu eftirfarandi spurningar "er engin við?". Ég vissi aldrei hvernig ég ætti að svara þessu, sitjandi beint fyrir framan þá.  

Verra þótti mér þó þegar starfsemi skrifstofunnar var tekin fyrir í skýrslu á ársfundi var eftirfarandi sagt. " Á skrifstofunni starfar framkvæmdastjóri, tveir starfsmenn og stúlka".

Er enn að velta því fyrir mér hvað starfsheitið "stúlka" innfelur í sér.


mbl.is Obama bað „ljúfuna“ afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hrekja menn til aðildar

Staksteinar eru enn við sama heygarðshornið þegar kemur að Evrópumálum. Í dag  argast þeir yfir afstöðu Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi formanns framsóknarflokksins, til Evrópumála.

Það að afstaða Jóns, þann tíma sem hann sat sem formaður Framsóknarflokksins, hafi markast af hógværari afstöðu, en hann setur fram nú í greinskrifum sínum, er ekki nema eðlilegt.

Staksteinar spyrja hvort skoðanir Jóns fari eftir því hvar hann situr við þjóðarborðið.

Að sjálfsögðu er það þannig. Þegar Jón talaði sem formaður framsóknarflokksins talaði hann fyrir þeirri stefnu sem flokkurinn hafði samþykkt á flokksþingi.  Annað hefði verið sérkennilegt. Ef hann hefði talað gegn samþykkti stefnu flokksins til Evrópumála hefði það verið gagnrýnisvert.

Hann notað ekki flokkinn til að koma sinni persónulegu sýn á framfæri. Það gerir hann nú sem einstaklingurinn Jón Sigurðsson.

Þeir sem þekkja til Jóns  vita að skoðanir hans til Evrópumála hafa ekki breyst á liðnum misserum. Hann hefur ekki verið hrakin til aðildar eins og mætti halda á fyrirsögn Stakksteina í dag.

Innan Sjálfstæðisflokks eru líka einstaklingar í forystusveit sem eru talsmenn aðildar. Þeir hinsvegar halda sig til hlés meðan flokkur hefur þá stefnu að aðhafast ekkert í málaflokknum.

Það er kannski verið að hrekja þá aðila frá skoðun sinni um mögulega aðild?


Embættismaður eða stjórnmálamaður?

Í fréttum ríkisútvarpsins í morgun var enn og aftur rætt um nýráðin framkvæmdastjóra miðborgarmála.  

Nú telur minnihluti borgarstjórnar ummæli  hans í fjölmiðlum, benda til þess að hann tjái sig sem pólitískur ráðgjafi borgarstjóra en ekki sem hlutlaus embættismaður.

Ummælin voru í þá veru að hann kallað Dag B. Eggertsson borgarfulltrúa bitran lækni sem ekki uni öðrum lækni borgarstjórastólinn. Nú vill minnihlutinn  fá úr því skorið hvort ummæli Jakobs séu á skjön við hefðir og lög sem skilgreini réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Það er vandrötuð leiðin frá því að vera stjórnmálamaður til þess að gegna starfi embættismanns. Að vita hvað má og hvað má ekki  í starfi embættismannsins.  Slíkt hefur orðið mörgum stjórnmálamanninum erfitt,  að sleppa taki af pólitískum skoðunum sínum.

Slíkt virðist vera í tilfelli nýráðins framkvæmdastjóra miðborgar hann talar þar ekki sem embættismaður heldur kýs að tjá sig um menn og málefni í borgarstjórn á pólitískum nótum.

Slíkt er ekki af hinu góða að mínu mati. Þótt hann sé ráðin í embættið af meirihlutanum væri heilavænlegast að hann bæri til þess gæfu að starfa bæði fyrir og með meiri-og minnihluta í borginni.

Það gera flest allir þeir embættismenn sem  starfa fyrir Reykjavíkurborg. Það er þeim nauðsynlegt til þess að halda trúverðugleika sínum í starfi.

Annað gæti verið erfitt og ætla má að ef slíkt tíðkaðist ekki væri búið að skipta út öllum æðstu embættismönnum borgarinnar að minnsta kosti þrisvar sinnum á þessu kjörtímabili.

Slíkt myndi minnka samfellu í störfum borgarinnar enn meira og telja margir að ástandið geti varla orðið verra.

Listin að byggja upp heilbrigt stjórnsýslukerfi felst í því að finna gott jafnvægi á milli faglegs vettvang embættismanna og þess veruleika sem einkennir heim stjórnmálamannsins.

Framkvæmdastjóri miðborgarmála verður að velja á hvorum vettvanginum hann kýs að starfa.


Tíðindalítil helgi

Það sem situr eftir í lok langrar helgar.

Öllum áföngum námsins lokið. Nú verður haldið áfram með meistararitgerðina. Útskrift í haust.

Fréttir um  skoðanakönnun capacent  á fylgi flokkanna í borginni. Var aldrei birt. Var þó sagt frá henni á orðinu á götunni. Hún  átti að mæla eftirfarandi,  F-listi Ólafs F. Magnússonar, rúmt 1%. VG 19%, Sjálfstæðisflokkur 30%, Framsóknarflokkur 2%, Samfylking 47%. En þetta er bara skoðanakönnum og enn eru 24 mánuðir til kosninga. Þangað til verður ekki kosið sama hvað gengur á.

Og ekki má gleyma símtalinu frá manninum sem fór í Nóatún á Selfossi til að kaupa sér tómata. Keypti eitt box af kirsuberjatómötum. Á kassanum var hann rukkaður um 570 krónur fyrir herlegheitin. Þetta var víst lífrænt ræktað. Er þetta ekki of mikið af hinu góða. Eru tómatar orðnir munaðarvara? Ræktaðir hér á landi, allt árið um kring.  

Lítið annað var fréttnæmt af borgarvígstöðunum.


Spennandi tímar framundan

Síðasta verkefni vegna MPA námsins að komast í höfn. Nú er unnið að verkefni sem m.a. felur í sér áhættustjórnun vegna Reykjavíkurborgar. Áhugavert og krefjandi verkefni.

Á morgun 12.maí eru skil á þessu verkefni. Þá er öllum áföngum lokið og skrif á meistararitgerð hafin. Samhlið skrifum mun ég kanna atvinnumarkaðinn.

Spennandi tímar framundan.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband