Leita í fréttum mbl.is

Hvar eigum við heima?

Nú er nokkuð um liðið frá því að ég ákvað að hætta í framsóknarflokknum. Sé ekki eftir þeirri ákvörðun. Margt hafði gerst í starfi þess ágæta flokks sem gerði mér og mörgum öðrum ókleyft að starfa innan hans raða. Ekkert var annað eftir en að fara af vettvangi.

Veit að ég er ekki ein um það að hafa tekið slíka ákvörðun og hitti reglulega góðan hóp af fólki sem stendur í sömu sporum og ég, utan flokka. Þetta fólk á það sameiginlegt að hafa áhuga á stjórnmálum og getur illa losnað við þá bakteríu.

Þetta fólk kemur úr ólíkum áttum og á það sameiginlegt að finna ekki fjölina sína í stjórnmálaflórunni.

Hef hinsvegar hugleitt, ásamt þessum sama hóp, hvar við eigum heima í stjórnmálaflórunni. Verð að viðurkenna að við finnum ekki alveg þann stjórnmálaflokk sem passar við lífskoðanir okkar.

Margir í þessum hóp töldu að Samfylkingin væri sá flokkur þar sem við ættum helst heima. Eftir að sá flokkur fór í ríkistjórn hafa þær raddir að mestu hljóðnað. Stærð hans hræðir líka. Hann er á margan hátt orðin eins og stofnun.

Engin hefur talað fyrir inngöngu í frjálslynda flokkinn og fáir fyrir vinstri hreyfingunni grænu framboði.

Sjálfstæðisflokkurinn er "stjórnarflokkurinn" og þekkt stærð sem menn hafa ólíka sýn á. Helst að sýn hans á Evrópumálin hræði.

Nú eru að öllum líkindum tvö ár til næstu kosninga. Við veltum fyrir okkur hvað verður þá.

Munum við bætast við þann hóp sem skilar auðu í næstu kosningum, eða verðum við búin að finna okkur flokk til að starfa með?

Kannski verður "flokkurinn okkar" kominn fram í sviðsljósið eða einhver þeirra flokka sem nú starfar búin að breyta stefnu sinni. Hver veit hvar við lendum?


Fyrir 45 árum þá gerðist það

Það var fyrir 45 árum síðan. Þá gerðist það.

Pabbi var á fundi á Akureyri. Þar var Framsóknarflokkurinn að funda. Það gekk fyrir. Það skipti ekki máli að von væri á barni. Eitt barnið til.

Mamma átti von á sínu níunda barni. Pabbi á sínu sjöunda.

Fyrst átti mamma fimm börn með fyrra manni sínu. Þá hafði pabbi átt eitt barn utan hjónabands. Síðan tvö í hjónabandi.

Síðan hittust þau. Bæði þrítug. Hún með sín fimm og hann með sín þrjú. Þau urðu ástfangin.  Þá var ekki aftur snúið.

Fyrir 45 árum höfðu þau eignast 3 börn saman. Von var  á því fjórða í röðinni.

Ég fæddist þennan dag á fæðingarheimilinu. Mamma var auðvitað ein þegar það gerðist. Þá var það venjan.

Ég snéri öfugt í fæðingu. Ekkert hina barnanna gerði það. Var kannski ekki alltaf auðveld. Hef þó lagast með tímanum.

Ég var alltaf glöð og kát. Það segir mamma mér. Henni á ég mikið að þakka.

Nú fagna ég 45 ára afmæli mínu með góðum konum í dag. Þakka fyrir allt það góða sem ég hef notið. Vona að ég fái að vera hér lengi enn.

Takk öll fyrir samfylgdina í gengum lífið.  


Nýtt húsnæði í stað forsetakosninga

Fjölsmiðjan er einstakt úrræði fyrir ungt fólk sem flosnar upp úr skóla og nær ekki að fóta sig á vinnumarkaði.

Þarna vinnur frábær hópur af fólki að því markmiði að kenna þessu unga fólki að starfa á almennum vinnumarkaðinn eða hefja nám að nýju. Ótrúlegur árangur hefur náðst með þessum hætti eða um 80% þeirra sem úrræðið nota ná að fóta sig á ný.

Forstöðumaðurinn Þorbjörn Jensson sagði á ágætu viðtali í fréttablaðinu í gær "Ég er búinn að sjá að unga fólkið sem ég fæ inn hefur verið taparar í gegnum lífið en þau fara héðan sem algjörir sigurvegarar brosandi út að eyrum."

Hann segir að það kosti 30-40 milljónir að laga húsnæðið en eðlilega vilji enginn leggja í þann kostnað vegna þess að húsið eigi hvort sem er að rífa. Hann hafi fundið nýtt húsnæði en kaupin strandi á fjármálaráðuneytinu.

Held að það sé við hæfi nú þegar ljóst er að við Íslendingar þurfum ekki að fara í forsetakosningar að vori  að leggja  það fjármagn sem sett var í fjárlög vegna mögulegra forsetakosninganna í kaup á húsnæði fyrir þessa frábæru starfsemi fyrir unga fólkið okkar.

Kostnaður ríkissjóðs vegna forsetakosninganna 2004 nam 37 milljónum króna á núvirði.

 


mbl.is Fjölsmiðjan fái nýtt hús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skóstærð og gáfur

Mælingar á árangri geta oft á tíðum verið sérkennilegar. Hvað skilar góðu starfi og hvað ekki og hverjir eru að vinna sína vinnu og hverjir ekki?

Í aðferðarfræði í HÍ var gjarnan talað um að skóstærð væri ekki endilega réttur mælikvarði á gáfur einstaklings. Það að flestir þeir sem nota skóstærð 40 væru gáfaðri en þeir sem nota skóstærð 30 væri ekki endilega mælikvarði á, að stærri skór þýddu meiri gáfur. Þar þyrfti að taka aðra þætti þar inn í.

Þannig virðist mér það vera með þær mælingar sem menn virðast keppast við að setja á árangur borgarfulltrúa þessa dagana.

Í síðustu viku voru það ferðalög, eða kostnaður við þau, sem áttu þannig að mæla getu manna til þess að sinna starfinu. Veit samt ekki hvort það voru þeir sem ferðuðust mest eða minnst sem voru verstir. Nú um helgina var það DV sem tók saman mætingu  og ástundun kjörinna borgarfulltrúa allra flokka á borgarstjórnarfundi. Hverjir mæta oftast og hverjir sjaldnast. Ekki er langt síðan að laun einstakra borgarfulltrúa voru birt. Hverjir fá mest og hverjir minna.

Allt má segja að þetta séu einhverskonar mælikvarðar á störf borgarfulltrúa.

Í annarri grein samþykkta um stjórn Reykjavíkurborgar kemur fram að " Borgarstjórn fer með stjórn Reykjavíkurborgar, gætir hagsmuna hennar, er í fyrirsvari fyrir hana og vinnur að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna".

Í 41.grein sömu samþykkta stendur "Borgarfulltrúa ber að gegna störfum sínum í borgarstjórn af alúð og samviskusemi og gæta hagsmuna Reykjavíkurborgar, en í störfum sínum er borgarfulltrúi einungis bundinn af lögum og sannfæringu sinni."

Hvernig þessum samþykktum er best framfylgt, eru án efa ótalmörg svör við. Það sem einum finnst góð frammistaða finnst öðrum slök.

Mælingin á árangur er því aldrei eins í augum tveggja einstaklinga. Á endanum er það síðan kjósandinn sem velur sína fulltrúa í borgarstjórn í næstu kosningum vorið 2010.

Þá fyrst eru störf einstaklinganna sett undir raunverulega mælistiku og sú mæling gildir næstu fjögur ár.  Þangað til eru slíkar mælingar á hverskonar skóstærðir og gáfur, ekki til neins.  


Stór og lítill ágreiningur

Kannski er þetta málið. Að flokkarnir fái leyfi til þess að hafa ólíka sýn á einstaka málefni. Hefur ekki reynst vel að annar flokkurinn gefi allt eftir. Virkaði a.m.k. ekki vel fyrir Framsóknarflokkinn.

Held þó varla að slíkt myndi ganga í stóru málunum t.d. við efnahagstjórnina. Hér eru menn að ræða um veiðar á 40.hrefnum sem er í stóra samhenginu er ekki ástæða til stjórnarslita. Ekki ef grunnurinn er góður.

Ef flokkarnir hefðu sömu sýn á öll mál væri munurinn á þeim enginn.  Það á ekki við um þessa tvo flokka.  

Málamiðlun eins og þessi virkar að minnsta kosti vel í mörgum hjónaböndum og ekki óalgengt að einstaklingarnir hafi alls ekki sömu sýn á litlu málunum. Menn takast á en virða þó á endanum skoðanir hvers annars. Hafa sömu sýn á stóru málin.

 


mbl.is Ágreiningur um hvalveiðar lítið mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt dagsins

Af vef Stjórnarráðs.

"Föstudaginn 23. maí er eitt ár liðið frá undirritun stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ríkisstjórn þessara flokka tók við 24. maí. Af þessu tilefni er börnum á leikskólanum Tjarnarborg boðið í ráðherrabústaðinn kl. 14:30 á morgun. Fjölmiðlum gefst jafnframt tækifæri á að taka myndir við upphaf ríkisstjórnarfundar í Ráðherrabústaðnum í fyrramálið."

Merkilegt leið til að halda upp á áfangann. Ætli menn séu hræddir við gagnrýni á sýningunni?


Íslenskt er best

Held að þarna megum við segja að við séu best. Grænmetið sem ræktað er hérlendis á alltaf að vera ferskara og ómengaðra en það sem hefur ferðast yfir hálfan heiminn.

Á heimasíðu garðyrkjubænda stendur "Garðyrkjubændur eiga sameiginlegt vörumerki sem er fánarönd Sambands garðyrkjubænda. Stefnt er að því að allar íslenskar garðyrkjuafurðir beri þetta merki."

 islenskt

Nú er bara að fylgjast betur með að grænmetið sé íslensk en ekki bara baðað við komu til landsins.

Merkið tryggir gæðin.


mbl.is Segja fánarönd sýna að grænmeti er íslenskt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biðstaða.

Ekki hægt annað en vona að þetta sé skref í rétt átt. Í júní munum við vonandi fá lækkun. Ekki alveg í þá veru sem Blomberg hafði ætlað.

Þrír hagfræðingar sem Bloomberg fréttastofan leitaði til höfðu átt von á þessari ákvörðun, tveir töldu að vextirnir yrðu hækkaðir um 0,25% en fimm að þeir yrðu hækkaðir um 0,50%.

Höfum ekki hingað til tekið mark á erlendum sérfræðingum. Evran komin í 116 og dollarinn í 73. Allt er þetta í rétta átt.

Vonandi gefur þetta ástand von um að mál séu á réttri leið.


mbl.is Stýrivextir áfram 15,50%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilskipun um skyldu manna að bjarga mönnum, sem sýnast dauðir.

Í endalausri leit minni að heimildum í ritgerðarsmíðinni rekst ég stundum á skemmtilega hluti. Þetta er einn af þeim.

Hér eru tilskipun um skyldu manna að bjarga mönnum, sem sýnast dauðir. Hún er frá 1819 og var einhverra hluta vegna feld úr gildi í janúar 1999, eða fyrir níu árum síðan.

Full ástæða að hafa svona tilskipanir nú á tímum þegar einstaklingshyggjan ætlar að yfirkeyra allt.

1.  Bæði eftir hlutarins eðli og grundvallarreglum laga Vorra verður að álíta það almenna borgaraskyldu hvers þess, er býðst færi á að bjarga manni, sem er í lífsháska, að beita til þess þeim meðulum, er hann fær til náð, og sérstaklega skal það því vera skylda hvers þess, sem sér mann vera að drukkna, að gera tafarlaust sjálfur eða með tilstyrk annarra, sem hann kallar til hjálpar, allt það, er unnt er eftir atvikum, til þess að ná manninum upp úr og fá gerðar við hann lífgunartilraunir þær, er best eiga við, og má heldur enginn, þegar svo stendur á, skorast undan að veita þá hjálp, sem hann getur í té látið.

2.Það skal einnig vera almenn skylda að annast um, að hengdir menn séu teknir niður hið bráðasta, og að allra þeirra bjargarmeðala sé neytt, sem kostur er á, og yfir höfuð að gera það, sem unnt er, til að bjarga hverjum þeim, sem á voveiflegan hátt hefur slasast eða af öðrum sökum getur enga björg sér veitt.

3. Auk þess sem það, samkvæmt 1. og 2. gr., er skylda að annast tafarlaust um, að hinum drukknaða sé komið á land, og að hinn hengdi sé niður skorinn, og að beitt sé bráðabirgðabjargráðum, skal það enn fremur vera skylda hlutaðeiganda, að leita hið fyrsta læknishjálpar, ef eigi er svo ástatt, að þeir séu fullvissir þess að geta lífgað manninn án læknishjálpar. Einnig á þegar í stað að skýra lögreglustjóranum frá atburðinum, eða til sveita sóknarpresti eða hreppstjóra, ef skemmra er til þeirra, og skal það gert sumpart til þess, að embættismenn þessir eða sýslunarmenn geti, þangað til læknir kemur, séð um rétta meðferð á hinum sjúka, og sumpart til þess að þeir geti gert ráðstafanir þær, er þörf er á, ef einhver kynni að hafa til ábyrgðar unnið.


Hvað þarf til ?

Alltaf bætist við rökin með því að hefja aðildarviðræður við ESB.  Síðustu 48 tíma hefur þetta bæst við:

Verð á matvörum er að jafnaði 64% hærra á Íslandi en að meðaltali í ESB-ríkjum. Þetta kemur fram í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um viðskiptasamninga birgja og matvöruverslana og annað samstarf fyrirtækja á matvörumarkaði.

Könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Félag íslenskra stórkaupmanna (FíS) kemur í ljós að 70% félagsmanna vilja að Íslendingar taki upp evru í stað íslensku krónunnar. Knútur Sigmarsson framkvæmdastjóri FÍS, segir greinilegt sé að skilaboðin séu skýr og telur að ástandið undanfarið hafi valdið því að menn líti á krónuna sem einskonar viðskiptahindrun. Þessi niðurstaða sé ákall til stjórnvalda.

Þetta eru tíðindi síðustu tveggja daga. Hvað þarf mikið til að stjórnvöld hefji undirbúning?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband