Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Vorkvöld í Reykjavík

Síðustu kvöld hafa verið ótrúlega falleg hér í Reykjavík. Þetta er sá tími ársins þegar allt er í blóma og þar er borgin ekki undanskilin.

Sama hvað öðrum finnst um einstakar byggingarframkvæmdir eða hverfi í borgarmyndinni býr borgin yfir ótrúlegum sjarma og fjölda fallegra staða og ekki síst er mannlífið hér bæði skemmtilegt og fjölbreytilegt.

Hef notið þess til ýtrasta að undanförnu að vera úti í bjartri og hlýrri nóttinni og finna borgina hljóðna.

Í gærkveldi var það góður göngutúr í Fossvogsdal og Elliðaárdal. Ólýsanleg lífsgæði að hafa slík útivistasvæði í miðri borg.

Í Elliðaárdalnum var allt í blóma, vatnaliljur í lækjunum og ilmurinn af sumrinu var ólýsanlegur.

Í kvöld var svo hjólað um nágrennið. Ilmurinn af gróðrinum, kvöldsólin og Laugardalurinn angaði.

Hvergi betra að búa en hér í Reykjavík og ég gæti ekki fyrir nokkurn mun búið annarstaðar.

Reykjavík er engu lík á góðum degi. Hér er gott að búa.


Að takast á við krefjandi verkefni

Það er um margt skrítið hvað menn hafa ólíkri sýn á það, að takast á við ný og flókin verkefni .

Sumum er það áskorun að takast á við slík verkefni meðan það virðist öðrum áhætta og ávísun á vandamál.

Þannig er það með mat manna á þeim verkefnum sem liggja fyrir Hönnu Birnu sem nýjum leiðtoga Sjálfstæðismanna í borginni.

Held að flestir séu um það sammála að Hanna Birna sé kröftugur stjórnmálamaður og menn senda henni hamingjuóskir þvert á allar pólitískar línur.

Verkefni hennar eru ærin og það veit hún án efa sjálf. Hún hefur sagst vera tilbúin til þess að takast á við þetta verkefni ef eftir því verðir leitað og nú hefur það verið gert.

Pólitískir samherjar telja hana vera vel til þess fallna að leiða Sjálfstæðisflokkinn til fyrri áhrifa í borginni, meðan að andstæðingar hennar á pólitíska litrófinu telja að verkefni hennar séu áhættusöm og erfið og ekki sé ljóst hvernig hún eigi eftir að leysa þau úr hendi.

Það er auðvitað alveg ljóst að Hanna Birna á eftir að sýna og sanna hvernig henni tekst að leysa það nýja verkefni að vera leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Hitt er annað að hún veit að þetta verkefni mun hún ekki leysa ein heldur með samstarfsmönnum sínum í borgarstjórnarhópnum.   

Hún hefur verið valin til að leiða þann hóp sem nú situr fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og þessi hópur hlýtur að hafa það sameiginlega verkefni að auka traust meðal borgarbúa á störfum borgarstjórnar og á flokkinn sem stjórnmálaafls.

Ef menn eru ekki samstíga í þeim leiðangri er óvíst með árangur, en það hlýtur að vera sameiginlegt markmið allra þeirra sem í þessum hópi sitja að taka höndum saman og skapa sátt á ný við stjórn borgarinnar.

Það er öllum til góða ekki síst okkur borgarbúum.


Má Reykjavíkurborg ekki halda kvennahlaup?

Kvennahlaupið fer fram í dag í 19.sinn. Hef oft tekið þátt en geri það ekki að þessu sinni.  Ekki síst vegna þess hve erfitt er að komast að vegna þrengsla í Garðabænum.

Hversvegna fer ekki fram kvennahlaup í Reykjavík eins og á öðrum stöðum í landinu? Laugardalurinn væri kjörin vettvangur til þess að taka á móti þeim fjölda Reykvískra kvenna sem vill taka þátt í hlaupinu.

Auk þess myndi dalurinn án efa geta líka boðið körlunum og börnum að njóta þess að dvelja í fjölskyldu og húsdýragarðinum eða í Laugadalslauginni á meðan á hlaupinu stæði. Þannig gæti fjölskyldan öll verið þátttakendur.

Nú verður hlaupið á 90 stöðum hérlendis og 20 stöðum erlendis en einhverra hluta vegna fær Reykjavíkurborg ekki leyfi til þess að standa fyrir slíkum viðburði þótt öll aðstaða sé fyrir hendi.

15 þúsund konur taka þátt nú  kvennahlaupinu en án efa myndi þeim fjölga til muna ef Reykjavíkurborg fengi leyfi til að halda úti slíku kvennahlaupi.

Hvet ÍSÍ til að halda slíkt kvennahlaup að ári í Reykjavíkurborg. Myndi án efa auka enn frekar hróður kvennahlaupsins og fá alla fjölskylduna til að taka þátt í heilsusamlegri útiveru.


mbl.is Kvennahlaup ÍSÍ hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

40 punda laxar

Flestir bræður mínir og mágar og  eru illa haldnir af veiðibakteríu. Veiðisögurnar sem sagðar eru í návist þeirra eru oft á tíðum ótrúlegar og sjaldnast eru til myndir af afrekunum.

Yngsti bróðirinn fór með félögum sínum í Norska veiðiá um síðustu helgi. Þar var ein 40 punda fiskur tekin meðan á dvölinni stóð. Sá aflasæli veiðimaður var þó norskur en ekki íslenskur.

Þeir íslensku hinsvegar náðu einum 30 punda og voru ekki lítið hreyknir af afrekinu.

Þeir náðu jafnframt því að komast í norsku fréttirnar og læt ég fylgja með tengil á fréttina og þar náðist á mynd fiskur af stærri gerðinni.

http://www.namdalsavisa.no/Nyhet/article3582517.ece>


Frábært frítt forrit fyrir börn

Var bent á þetta frábæra forrit fyrir einhverf/fötluð börn á vefslóðinni http://www.zacbrowser.com/ 

Hef ekki í langan tíma fundið neitt eins áhugavekjandi fyrir son minn sem um leið kennir honum og fræðir. Fyrst og fremst frítt forrit sem er einstaklega fallegt og hægt að nota fyrir öll börn.

Textinn hér á eftir er tekin af vefslóðinni sfjalar.net.

John LeSieur er maður sem lætur verkin tala. Árið 2002 eignaðist dóttir hans dreng sem greindur var einhverfur við þriggja ára aldur. Nú hagar þannig til að LeSieur er einn af höfundum KidzCD netvafrans barnvæna og þegar hann komst að því að Zackary, en svon nefnist drengurinn, naut þess að vafra um netið með aðstoð KidzCD ákvað hann að skapa sérhæfðan vafra fyrir dótturson sinn. Vafrann nefndi hannZAC Browser og hefur nú gert aðgengilegan öllum sem á þurfa að halda endurgjaldslaust.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég ræsti ZAC vafrann í fyrsta skipti og við mér blöstu fiskar syndandi í rólegheitum um skjáinn átti ég erfitt að átta mig á að um vefskoðara væri að ræða. Músabendilinn hafði og breyst í kafbát sem nú sigldi um á meðal fiskanna. Ég reyndi auðvitað að smella á fiskana, án árangurs, en tók þá eftir fimm táknmyndum neðst á skjánum sem eru í raun hnappar og veita aðgang að fjórum flokkum vefsíðna. Flokkarnir eru kvikmyndir, leikir, tónlist og sögur. Fimmti hnappurinn (sá fyrsti í röðinni) færir notandann aftur í fiskabúrið.

Notendaviðmót ZAC er fyrst og fremst myndrænt og á rætur sínar að rekja til KidzCDog hnappastikan neðst á skjánum minnir töluvert á forritaslánna í nýrri útgáfum Macintosh stýrikerfisins sem ég fjallaði um ekki fyrir svo löngu. Ég er greinilega ekki sá eini sem er hrifinn af þessari tækni til að nálgast hugbúnað og skjöl í tölvu. Þegar rennt er með músinni yfir hnappana stækkar sá hnappur sem músin hvílir á í hvert skiptið og gefur þannig greinilega til kynna að hann hafi verið valinn og einfaldar þannig notandanum að smella á hann. Þegar smellt er á hnapp tekur bakgrunnur vefskoðarans og músarbendillinn á sig nýja mynd.

ZAC vefskoðarinn skiptist í þrjá hluta. Forsíðu, vefsíður og kvikmyndir. Forsíðan þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að vera inngangur að öðrum hlutum vafrans. Kvikmyndahlutinn birtir einfalt viðmót þar sem hægt er að spila nokkur vel valin myndskeið. Þegar þetta er skrifað er ekki hægt að eiga við sjálf myndskeiðin, þ.e. setja saman sinn eiginn lista. Að mínu mati er sú virkni nauðsynlegt til að aðlaga vefskoðarann að þörfum einstakra nemenda og vonandi að LeSieur sjái sér fært að opna fyrir þann möguleika þegar fram líða stundir

Hinir hlutarnir þrír veita aðgang að fjöldanum öllum af vefjum sem búið er að flokka eftir viðfangsefni, nefnilega íþróttir, tónlist og sögur. Hugsanlega endurspeglar sú flokkun áhugasvið Zackary, en ég veit s.s. ekkert um það. Vefur er opnaður með því að smella á viðkomandi táknmynd og engin þörf er á því að slá inn vefslóð. Í þeirri útgáfu sem ég skrifa um núna er ekki hægt að vinna með vefsafn skoðarans, þ.e. bæta við eigin vefjum. Líkt og með myndskeiðin þá tel ég það mjög mikilvægan kost geta sniðið vefsafnið að þörfum einstakra notenda og sendi reyndar fyrirspurn varðandi það á umræðuvef sem tengist forritinu. LeSieur tjáði mér þar, að innan skamms mætti vænta spennandi tíðinda og bíð ég spenntur eftir þeim.

Þegar vefur opnast í ZAC vefskoðaranum birtist tækjastika efst á skjánum með tveimur hnöppum. Annar færir notandann aftur á upphafssíðu vefsins sem verið er að skoða. Hinn færir notandan aftur á upphafssíðu vefskoðarans. Þessi tækjastika einfaldar notendum að skoða vefinn þar sem þeir hafa fyrir augum samræmt viðmót, óháð því hvaða vef er verið að skoða.

ZAC vefskoðarinn er einfalt, mjög aðgengilegt og verndað umhverfi sem ég get hiklaust mælt með fyrir einstaklinga sem á því þurfa að halda. Ég efast ekki um að einhverfir geti nýtt sér ZAC og örugglega fleiri börn með fötlun. Ég hvet líka leikskólakennara til að kynna sér þennan vefskoðara og þeir mættu sjálfsagt líka skoða KidzCD vefskoðarana sem eru sérstaklega hannaðir fyrir börn og unglinga.


Murtu velt upp úr hveiti og sykri

Ég fæ einhverskonar fiðring í fingurna þegar stangveiðin hefst. Ekki það að ég fari oft í laxveiði heldur hitt að það jafnast ekkert við Þá tilfinningu það að ná fiski á öngulinn.

Ég var ekki há í loftinu þegar ég byrjaði að veiða. Sú veiði fór fram í Grafningnum í þingvallasveitinni. Þar byggðu mamma og pabbi bústað og þar vorum við löngum stundum öll sumur. Ég var varla þriggja ára þegar mér var sleppti fyrst í veiðina með bræðrum mínum og systrum. 

Þá var stundum veitt upp á hvern dag. Haldið var með stangirnar niður í fjöru með bala í för. Við voru fjögur og stundum fimm systkinin við þessa iðju.

Engum makríl var beitt heldur í besta falli maðki, spún eða  flugu og floti. Svo hófst biðin langa. Þarna lærði ég að beita maðki og hnýta veiðihnúta. Sú list gleymist aldrei þótt nú þyki ekki fínt að nota maðk sem beitu.

Stundum var veiðin ótrúleg og við bókstaflega mokuðum murtunni upp í balann. Stundum beit ekkert á hvað sem við reyndum.

Bestu minningarnar eru þegar balinn var fullur og haldið var heim þar sem mamma gerði að murtunni og velti henni upp úr hveiti og sykri. Þetta var steikt á pönnu og ég man varla eftir meira lostæti.

Síðan þá fæ ég alltaf vatn í muninn þegar ég sé nýveiddan vatnafisk.


mbl.is Fyrsti laxinn úr Norðurá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt sem fer upp fer niður

Ekkert í þessum tölum kemur á óvart. 0,9% munum við draga  saman á þessu ári og 4% á því næsta samkvæmt þessari spá.

Fyrirsagnir eins og " verulegur samdráttur í íbúðarlánum bankanna", 40% samdráttur í sölu nýrra bíla" benda til að almenningur sé farinn að halda að sér höndum.

Annað væri líka skrítið eftir krepputal undanfarna mánaða hjá ráðamönnum þjóðarinnar og væntanlegt atvinnuleysi  mun skella á af auknum þunga næsta haust.

Uppsagnir virðast óhjákvæmilegar í slíku árferði og blasa nú þegar við í byggingaiðnaði og á fleiri stöðum.

Í sumar og haust munu að öllum líkindum kaupmenn fara að bera sig illa. Ferðaskrifstofur og flugfélög munu skera niður í framboði sínu og almenningur mun herða sultarólina en frekar.

Allt sem fer upp fer niður. Þannig er það víst lífsins saga. Góðærið á enda.


mbl.is Samdrætti spáð í einkaneyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nauðsynlegt að skjóta hann?

Friðaður er Björninn á hafís og sjó. Á landi er hann það ekki.

Hélt reyndar að mig væri farið að dreyma þar sem ég sit hér á pallinum í sól og blíðu og heyrði fréttir RÚV. Svona kemur lífið sífellt á óvart.

Það má víst aflífa dýrið, þar að segja ef af honum stafar hætta, fyrir fólk eða búfé.

Vonandi að menn þurfi ekki að skjóta dýrið en auðvitað verður að vega slíkt og meta. Þetta er villt dýr og á ekki heima nema í náttúrulegum heimkynnum sínum.

Að minnsta kosti er það mín skoðun að hann ekki eigi heima í búri okkur hinum til sýnis.

 


mbl.is Lögregla á slóðum ísbjarnarins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mælingar á niðurrifsseggi

Nú styttist í það að ferðamenn fari að streyma til Peking vegna Ólimpíuleikana. Það er ljóst að menn verða að fara vel yfir sín mál áður en lagt er af stað því stjórnvöld hafa gefið út ítarlegar leiðbeiningar um það hvernig þeir ferðamenn sem sækja staðinn heim verða að vera innréttaðir.

Stjórnvöld í Kína hafa gefið það út að engum útlendingi með alnæmissmit sé heimilt að koma til Peking og fylgjast með leikunum, engum geðsjúklingi, engri vændiskonu og engum niðurrifssegg.

Einnig hefur það verið gefið út hvað ferðamennirnir mega ekki hafa í farangri sínum til Peking 

Ekki er heimilt að hafa með sér bækur, blöð eða tölvugögn með efni sem skaðað gæti stjórnskipan Kínverja, menningu þeirra, efnahagslíf eða siðferði.

Ef menn brjóta síðan lög t.d. með því að  efna til stjórnmálafunda eða mótmæla, munu sæta refsingu, stundum án þess að mál þeirra fari fyrir dómstól. 

Heimilt er að úrskurða niðurrifsseggi í allt að fjögurra ára betrunarvist í vinnubúðum.

Hvernig svo þetta allt saman er metið er ekki alveg ljóst að betra að hafa vaðið fyrir neðan sig í þeim efnum. Mælistikurnar liggja ekki alveg fyrir hvernig niðurrifsseggir t.d. haga sér.

Hvað þá hvaða tölvugögn gætu skaðað menningu eða siðferði Kínverja.

Gott að hafa þetta allt í huga áður en lagt er af stað og best er líklega að fara án nokkurs farangurs. Það er aldrei að vita hvað getur skapað hættu í slíkum tilfellum.


Sumarfrí-tilhlökkun eða kvíði?

Í þessari viku hefst formlega sumarið. Í þeirri merkingu að nú verður skóla sonarins slitið n.k. miðvikudag. Þá hefst 11.vikna sumarleyfi hans.

Þá breytist allt. Þá get ég ekki lengur setið hér við skriftir frá morgni til kvölds. Nú verð ég að sinna drengnum mínum á milli þess sem ég  skrifa lokaverkefnið.

Auðvitað er það ekkert nema eðlilegt að ég hugsi um mitt eigið barn en það hellist yfir mig samviskubit þegar þessi tími ársins nálgast.

Hvað á ég að gera til að hafa ofan af fyrir honum þennan tíma? Hvernig get ég tryggt það að honum leiðist ekki með mér einni hér heima? Hvernig get ég reynt að fá einhverja jafnaldra til að heimsækja hann?

Ég hef reyndar ekki þá tilfinningu að honum leiðist að vera heima. Þvert á móti líður honum hvergi betur en þar. Svo framarlega sem hann fær að gera það sem honum finnst skemmtilegt. Ég hef hinsvegar innbyggt samviskubit yfir því að það sem hann vill gera sé honum ekki hollt.

Hann vill byrja daginn á að horfa á barnaefni í einn til tvo tíma. Fara síðan á netið á YouTube í næstu tvo, síðan í leikjatölvuna næstu tvo og síðan byrjar hann hringinn aftur.  Hann reyndar teiknar inn á milli nokkrar teikningar.

Það að fara út á trampólínið getur gengið í stutta stund en öll önnur útivera er allt annað enn að vera skemmtileg að hans mati. Sérstaklega þegar skordýrin fara á kreik. Ein fluga getur eyðilagt allt.

Þetta er tíminn sem flest börn á hans aldri njóta lífsins og leika sér áhyggjulaus úti við en það á ekki við um drenginn minn. Þetta er tíminn sem hann yfirleitt er hvað einangraðastur félagslega og það þykir mér erfitt.

Þetta er því oftar tími kvíða en ekki tilhlökkunar. Það þykir mér vont.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband