Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Össur og hinir bloggararnir

Í DV í vikunni var því haldið fram að nokkrir bloggarar á Eyjunni héldu uppi vörnum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þessir sömu einstaklingar færu fremstir í flokki til að þræta fyrir það að ágreiningur væri innan þess flokks.

Þetta er ekki óþekkt einkenni á ákveðnum hóp bloggara. Ég tilheyrði einum slíkum hóp um langt skeið. Þessir hópar lifa góðu lífi í bloggheimum þ.m.t.  á moggablogginu og á vísi.  

Þegar þú tilheyrir slíkum hóp er það dagskipunin að verja sína menn. Alveg sama á hverju gengur. Jafnvel þótt þú hafir ekki einu sinni sannfæringu fyrir því sem þú ert að verja.

Þannig tilheyrir þó hópnum. Færð klapp á kollinn ef þú stendur þig vel í bardaganum og er hunsaður þegar þú ekki ert tilbúin að verja þína menn.

Slík pólitísk skrif er nokkuð fyrirsjáanleg.

Össur er annarskonar bloggari. Hann ver jú oftast sína menn í Samfylkingunni en við það lætur hann ekki staðar numið. Hann á sér sína sérstöku vini í öðrum flokkum sem hann ekki hikar við að hampa. Jafnvel verja fyrir árásum ef þannig stendur á honum.

Hann hefur  fyrir löngu stillt upp sínum mönnum á pólitíska skákborðinu og reynir að lyfta þeim upp við hvert tækifæri. Þetta eru einstaklingar sem Össur dáist að og telur að hann geti starfað með í stjórnumálunum seinna meir.

En hann tekur líka menn af lífi ef hann er þannig stemmdur og þá er sama hvar í flokki menn standa, nema helst í hans eigin flokki.

Skrif Össurar eru miklu meira spennandi en þeirra sem alltaf verja sína menn. Þú veist alltaf hver línan er í pólitíska flokksblogginu en þú veist aldrei hver verður næstur hjá Össuri.


Eru menn einhverju nær?

Úr fundargerð íþrótta og tómstundaráðs frá 8. febrúar s.l. þar sem lagðar voru fram samtals 12 bókanir undir liðnum;Stefnumál meirihlutans í íþrótta-og tómstundarmálum.

Lögð fram stefnumál meirihlutans í íþrótta- og tómstundamálum.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Þar sem áherslumál nýs meirihluta eru lögð fram hér á fundinum og ekki kemur skýrt fram í hverju hún víkur frá starfsáætlun ÍTR áskilur minnihlutinn sér rétt til að taka umræðu um þennan lið betur síðar.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Fulltrúar F-lista og Sjálfstæðisflokks telja það eðlilegt að farið verði nánar í þau áhersluatriði sem nýr meirihluti hefur sett fram. Við samanburð á starfsáætlunum og áhersluatriðum nýs meirihluta væri eðlilegra að bera saman við áætlunina starfsáætlanir áranna 2007 og 2008. Fulltrúar F-lista og Sjálfstæðisflokks hafa lagt metnað sinn í að leggja fram skýra og markvissa stefnu í málefnum Íþrótta- og tómstundaráðs.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Stefnumál Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks koma fram í þeirri starfsáætlun sem samþykkt var fyrir ÍTR fyrir árið 2008 ásamt fjárhagsáætlun borgarstjórnar fyrir málaflokkinn. Mikilvægt er að fylgja eftir þeirri stefnu sem þar kemur fram. Þar er bæði um að ræða styrki til starfsemi og framkvæmda hjá íþróttafélögum í borginni, og framlög til tómstundastarfs af ýmsu tagi. Við minnum á að sveigjanleiki hefur verið aukinn í starfsemi frístundaheimila fyrir okkar tilverknað og við væntum þess að aukin festa verði í starfsemi þeirra með þeirri tillögu sem liggur fyrir þessum fundi um frístundaheimili á heilsársgrunni. Áframhaldandi innleiðing frístundakortsins er mikilvægt verkefni ásamt þróun samstarfs við íþróttafélög í hverfum. Þá minnum við á að í starfsáætlun ársins 2008 er lögð mikil áhersla á að hlúa vel að starfsfólki til þess að ÍTR geti veitt borgarbúum góða þjónustu.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Starfsáætlun ÍTR 2008 byggði að langstærstum hluta til á áhersluatriðum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2007. Í því sambandi má nefna frístundakortin, eflingu frístundaheimila og styrki til íþróttafélaga og framkvæmdir félaganna auk annarra mikilvægra verkefna. Nýr meirihluti F-lista og Sjálfstæðisflokks mun halda áfram með þau góðu verk og hefur auk þess sett fram sín áhersluatriði þar sem koma fram metnaðarfull markmið m.a. að efla lýðheilsu og auka möguleika allra til þátttöku í íþróttum og útivist, gera þjónustuna fjölbreyttari, hagkvæmari og sveigjanlegri.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Starfsáætlanir síðustu árin byggja að verulegu leyti á góðu starfi Reykjavíkurlistans síðasta áratug.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Mikil stefnubreyting varð á starfsáætlun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2007 en þar koma metnaðarfull áhersluatriði fram eins og Frístundakortin, efling frístundaheimila, styrkir til íþróttafélaga og framkvæmdir við þau auk fjölmargra annarra verkefna. Þeirri stefnu verður haldið áfram af nýjum meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks eins og fram hefur komið í þeim áhersluatriðum sem lögð voru fram á fundi ráðsins í dag.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Undirbúningur að innleiðingu frístundakorts var hafinn í tíð Reykjavíkurlista með samþykkt á 3 ára fjárhagsáætlun, auk þess sem hafinn var undirbúningur að framkvæmdum fyrir íþróttafélög, sem þó töfðust því miður í tíð Sjálfstæðisflokksins.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Ekkert varð af framkvæmdum R-lista á frístundakortum, framkvæmd þeirra var verk Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og tillögur þess meirihluta gengu mun lengra en tillögur R-listans. Varðandi aðrar framkvæmdir sem vitnað er til í bókuninni kom í ljós að þegar til framkvæmda kom hafði undirbúningsvinnu R-listans verið ábótavant. Þá skal ítrekað að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri undirritaði samkomulag á 100 ára afmæli ÍR við félagið. Því er ósanngjarnt að halda því fram að uppbygging ÍR hafi tafist vegna Sjálfstæðisflokksins þar sem samningur þess efnis dagsettur 11. mars 2007 staðfestir þetta. Einnig staðfestist samstarfið með skjali sem lagt var fram 24. september 2007 sem sýnir samstarf Úlfars Steindórssonar formanns ÍR og Ómars Einarssonar framkvæmdastjóra ÍTR, en þar er lagt til að skipuð verði sérstök byggingarnefnd með fulltrúum Framkvæmdasviðs, ÍR og ÍTR.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hafði allar forsendur til þess að fylgja eftir loforðum sínum um tafarlausar framkvæmdir fyrir ÍR-inga á meðan hann var borgarstjóri, en kaus þó að gera það ekki.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Við vísum þessum fullyrðingum á bug og minnum fulltrúa Samfylkingar á að þeir höfðu rúma hundrað daga til að hefjast handa en nýttu sér þá ekki.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Það vita það allir að það er ekki heppilegt að hefja framkvæmdir í svartasta skammdeginu.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Við vísum þessum fullyrðingum á bug en eitt er víst að framtíðin er björt hjá nýjum meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks í stjórn ÍTR..

Ætli almenningur í borginni sé miklu nær, eftir þennan lestur, hver sé stefna núverandi meirihluta  og á hvaða hátt hún sé frábrugðin stefnu meirihluta númer eitt eða tvö?

A.m.k. er erfitt að sjá á þessum bókunum, hver átti upphaflega góðu hugmyndirnar.

Best væri nú fyrir menn að reyna að vinna saman að þeim málum sem þarf að hrinda í framkvæmd, í stað þess að eyða kröftum sínum í þessa veru.  


mbl.is Segir íþróttaframkvæmdir í Reykjavík í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er borgarstjórn óstarfhæfur hópur?

Í gær voru hópar og hópferli til umræðu í einum áfanga MPA námsins. Þar var rætt um hvað þyrfti til að hópar gætu náð árangri. Hvaða ferli hópar þyrftu að fara í gegnum til að klára sín verk. Eitt af stóru málunum í fræðunum.

Þegar hópar taka að sér verkefni er ferlið í ákveðnum stigum. Stigin, samkvæmt þeirri kenningu sem farið var yfir, skiptast í  forming, storming, norming, performing og loks Adjourning stigið.

Helsti vandinn skapast þegar hópar stöðvast í storming ferlinu og ná ekki lengra. Ná ekki að leysa úr verkefnum sem fyrir liggja.

Þetta stig einkennist oft af óþægindum og pirringi. Hópurinn starfar illa saman, upplýsingastreymi er lítið, flestir í hópnum starfa eingöngu fyrir sjálfan sig, hópurinn lítur ekki á sig sem heild og meðlimir hans treysta og styðja ekki hvern annan. Margir, ef ekki allir, vilja leiða hópinn. Mun fleiri þætti voru nefndir og einhvernvegin var umræðan í kringum mig á þann veg að þessi lýsing ætti vel við borgarstjórn Reykjavíkur.

Það er alvarlegt mál ef hópurinn sem starfar í borgarstjórninni getur ekki starfað saman að því verkefni sem það er kosið til, að koma málum í verk fyrir Reykjavíkurborg. Ef tortryggnin og ágreiningurinn er orðin svo djúpstæður að mesta púðrið fer í að gera ágreining um alla hluti í nefndum og ráðum borgarinnar.

Rakst m.a.  á nýlega fundargerð eins fagráðs borgarinnar þar mestur tími fundarins virtist hafa farið í að bóka í fundargerð, hvaða meirihluti hefði komið fram með góðar hugmyndir í  málaflokknum.  Alls 12 bókanir um eitt mál. Engin niðurstaða fengin og kannski aðeins spurning um hver á síðasta orðið.

Eftir slíkan lestur hallast maður að því að tillaga Stefáns Jóns í Silfrinu s.l. sunnudag, um starfsstjórn Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og VG í borginni það sem eftir er kjörtímabilsins, sé skynsamleg.

Þá ætti að vera mögulegt að vinna að sameiginlegum verkefnum sem liggja fyrir í borginni án eilífra átaka meiri-og minnihluta.


Ég á barn með litningagalla

Umræðan um snemmómskoðun , litningagalla og fóstureyðingar fer alltaf fyrir brjóstið á mér. Ástæða þess er einföld, ég á barn með litningagalla. Barn sem er m.a. greint með væga þroskahömlun.

Í DV um helgina er fjallað um að nú sé afar fá börn eftir á Íslandi með heilkennið Downs síðan fósturskimun hófst hér á landi árið 1999. Fréttin sem birtist í fréttablaðinu um helgina var í þá veru að aðeins tveimur fóstrum af 27 sem greindust með Downs-heilkenni frá 2002–2006 var ekki eytt.

Barnið mitt er ekki með Downs heilkenni heldur Velio-cardio-facial- heilkenni. Ég er orðin sérfræðingur í þessu heilkenni á þeim tíu árum sem liðin eru frá fæðingu sonar míns. Það er ólíkt eftir einstaklingum og margslungið. Líkt og flestir aðrir litningagallar.

Þegar sonur okkar var rúmlega tveggja ára fengum við foreldrar hans endanlega greiningu á litningagallanum hjá erfðafræðingi. Við fengum líka upplýsingar um það að ef við myndum ákveða að eiga fleiri börn þá væri hægt að greina það í móðukviði, hvort þessi galli á 22 litning væri til staðar.

Það var líka sárt. Okkur foreldrunum þykir óendanlega vænt um son okkar. Eins og líklega öllum foreldrum þykir um börn sín. Sonur okkar er frábær einstaklingur og við hefðum ekki viljað vera án þess að fá að njóta samskipta við hann. Hann hefur gert líf okkar innihaldsríkara og allra þeirra sem hann hafa umgengist.

Valið er ekki hvort hægt sé að sjá slíka galla á meðgöngu. Valið er hinsvegar það að standa frammi fyrir því að eyða slíku lífi. Ég er fegin að hafa ekki þurft að standa frammi fyrir slíkri ákvörðun.

Það er vandmeðfarið fyrir verðandi  foreldra að taka ákvörðun í framhaldi af slíkri niðurstöðu og nauðsynlegt að ráðgjöf vegna þessa sé veitt án fordóma. Valið er á endanum alltaf foreldrana.  

Það að búa yfir tækni til að greina slíka galla í móðurkviði er ekki einfalt. Spurningin er í mínum huga líka hvort það sé samfélaginu æskilegt að allar konur séu settar í slíka greiningu. Er á þann hátt verið skipulega að útrýma fólki  m.a. út frá greindarvísitölu?

Það er ekki  samfélaginu til góðs að allir séu eins. Margbreytileikinn er kostur samfélagsins og þessir einstaklingar eiga ekki síður ánægjulegt og innihaldsríkt líf heldur en við hin.

Án þessara einstaklinga verður lífið aldrei eins innihaldsríkt. 


Að gefa mönnum umhugsunartíma

Frá þeim tíma þegar Vilhjálmur bað um tíma til að hugsa sinn gang um framtíð sína í borgarstjórn, hefur sá dagur ekki liðið að málið hafi ekki verið rætt í fjölmiðlum.

 

Um helgina varð engin breyting á.

 

Bjarni Benediktsson sagði í gær í vikulokunum, að það væri næstum vantraust við Vilhjálm að borgstjórnarflokkur hefði ekki líst yfir stuðningi við hann.

Í hádegisfréttum í dag stígur Gísli Marteinn fram og lýsir yfir stuðningi við Vilhjálm. Hann segir líka að rangt sé að gefa það í skyn að hann og aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi þagað um það hvort þeir treysti Vilhjálmi. Allir borgarfulltrúar flokksins hafi lýst því yfir að þeir treysti honum til að gegna oddvitastöðunni. Ég er ekki viss um að allir túlki það þannig.

Geir segir í Silfrinu að hann vilji fá svar sem fyrst frá Vilhjálmi um hvað hann ætli að gera, helst í þessar viku. Í mínum huga var hann loðin í svörum sínum við stuðning við Vilhjálm í viðtalinu. .

 

Umræðan heldur stöðugt áfram og verður flóknari og jafnframt furðulegri með hverjum deginum sem líður.

Hver styður hvern og hver treystir hverjum? Ætli umhugsunartími Vilhjálms sé ekki farin að styttast eftir öll þau ummæli sem fallið hafa síðustu daga?


Sakna ég Davíðs?

Var beðin að ræða um fréttir vikunar í síðdegisútvarpi rásar tvö í gær. Var þar ásamt Sigurði Má Jónssyni aðstoðarritstjóra Viðskiptablaðsins.

Þátturinn var léttur og skemmtilegur ekki síst þar sem byrjað var á ævintýralegum flótta fanga úr lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Atburðarásin var öll heldur farsakennd og að lokum fannst fanginn  inni í skáp í Mosfellsbænum.

Þótt þetta sé auðvitað alvarlegur atburður, held ég að þessi stutti tími sem leið frá því að fanginn slapp og þar til hann náðist, hafi fengið fólk til að brosa út í annað að flóttanum mikla. Ekki síst þegar í ljós kom að ástæða flóttans var það eitt að fá tækifæri til að halda afmælisfagnað.

Í þættinum var m.a. rætt um stöðu efnahagsmála og aðkomu forystumanna ríkistjórnarinnar að þeim málum. Þegar rætt var um fund  sem forsætisráðherra hafði boðað til í vikunni, með forystumönnum bankanna, sagðist ég hafa saknað niðurstöðu eftir þann fund.

Ég einfaldlega hélt að forsætisráðherra hefði átt, líkt og forverri hans í formannsstól gerði oft, að lægja óróleikann í samfélaginu með að segja fólki að halda ró sinni.

Þáttastjórnandinn sagði við mig" viðurkenndu það bara að þú saknir Davíðs".

Ég velti því fyrir mér, hvort nú sé svo komið að ég sakni Davíðs úr stól forsætisráðherra.

Hvernig ætli Sjálfstæðismönnum líði þá?

Hér er slóð á upptöku af þættinum http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4372614


Skipulagið í miðborginni

Var boðið í kvöldverð í gær í Höfða. Fékk þetta fína boðskort frá Ólafi borgarstjóra. Tilefnið voru úrslit í hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Vatnsmýrar.

Ákvað að þiggja ekki boðið. Hafði jú setið í stýrihóp um skipulag Vatnmýrar um nokkurt skeið á árunum 2004-2006. Fyrst og fremst vegna þess að á þeim tíma var ég kjörin fulltrúi í Borgarstjórn. En rúmlega tuttugu mánuðir eru liðnir síðan ég heyrði eitthvað af málinu svo ég taldi ekki að ég ætti erindi þarna. Mitt umboð er löngu liðið.

Ætla hinsvegar að skoða þessa ágætu sýningu um Vatnsmýrarskipulagið og fagna því að málið sé komið þetta langt. Nú er bara að taka ákvörðun um málið endalausa, staðsetningu flugvallar.

Ég fagna líka nýrri tillögu um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar. Þessar hugmyndir voru upp á borð skipulagsins þegar ég hætti í ráðinu vorið 2006. Mál taka oft langan tíma í kerfinu og því er gaman að sjá þau loksins í endanlegri mynd. Ingólfstorgið, líkt og Lækjartorg þurfa á góðri andlitslyftingu að halda, ef þau eiga að vera alvöru torg í miðborginni.

Fagna líka hugmyndum um að Geirsgata verði sett í stokk. Mun gera gangandi umferð hærra undir höfði og mannlífið fær annan blæ.  

 


mbl.is Sögulegar byggingar við Ingólfstorg njóti sín betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir því sem þörf krefur

Eftirfarandi var samþykkt á fundi borgarráðs í dag:

Lögð fram að nýju lokaskýrsla stýrihóps borgarráðs um málefni Reykjavík Energy Invest og Orkuveitu Reykjavíkur, dags. í febrúar 2008.
Borgarráð samþykkir að fela borgarstjóra að fylgja eftir niðurstöðum í skýrslu stýrihópsins og leggja nánari útfærslu fyrir borgarráð til afgreiðslu eftir því sem þörf krefur.

Hvað skildi þetta annars þýða?  Að fylgja niðurstöðum....leggja nánari útfærslu fyrir borgarráð....eftir því sem þörf krefur

Hér þyrfti ég góðan túlk til að skýra út fyrir mér hvað þetta eiginlega þýðir.


Hvað ætlar þú að kjósa?

Þessi skoðanakönnun sýnir að tveggja turna umræðan á fullann rétt á sér. Sú staða virðist vera að koma upp í stjórnmálaunum að tvær stjórnmálaflokkar tróna langt yfir aðra flokka í fylgi. Hinir þrír flokkarnir sem eru á pólitíska sviðinu mælast nú um 10% og virðast nokkuð mátlausir í minnihluta. Enn eru þó um 20% sem ekki hafa gert upp hug sinn.

Fékk símtal frá Capacent í vikunni. Aðallega voru lagðar fyrir mig spurningar um banka og tryggingarfélög og auglýsingar tengdar þeim.

Rúsínan í pylsuendanum var síðan spurningin um hvað ég myndi kjósa ef kosið yrði nú til Alþingis. Ég hikaði augnabil, enda vön að velja framsóknarflokkinn í öllum þeim skoðanakönnunum sem ég hef tekið þátt í hingað til. En nú var svarað með öðrum hætti.

Skrítið að vera ekki lengur fulltrúi og málsvari ákveðins flokks. Getað þannig skrifað af eigin sannfæringu án þess að vera föst í klafa þess að vera sammála skoðunum annarra. Slíkt er nefnilega ekki alltaf einfalt. Að þurfa að verja alla þær ákvarðanir sem flokksforystan tekur á hverjum tíma er mér einfaldlega ekki að skapi.

Það er heldur ekki sjálfsagt að einn ákveðin stjórnmálaflokkur standi fyrir alla þá lífsýn sem einstaklingurinn hefur. Málamiðlanir koma þar alltaf að.

En í stóru málunum verður sá stjórnmálaflokkur sem ég kýs að velja að hafa meginstefnu sem samrýmist mínum lífskoðunum. Að minni hyggju skiptir ekki síður máli að hafa traust og trú á forystumanni flokksins. Að viðkomandi einstaklingur geti leitt flokkinn áfram með sterkri framtíðarsýn á það hvernig samfélagið á að vera.

Góð tilfinning það að geta fylgt sannfæringu sinni.


mbl.is Samfylkingin stærst allra flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óborganleg skemmtun

Stillti á útsendingu á sjónvarpstöðinni INN í gær. Þar sat sjónvarpsstjórinn og aðalfréttahaukur stöðvarinnar og var að fara yfir fréttatengda atburði síðustu daga. Hef aldrei séð aðra eins fréttamennsku og þarna fór fram.

Sjónvarpsstjórinn bókstaflega tókst á loft í lýsingum sínum á mönnum og málefnum, skældi sig allan í framan og æpti og hljóðaði. Á milli þess sem hann barði í borðið til að leggja áherslu á orð sín.

Ég varð frá mér numin af þessar sýningu. Ég bókstaflega réð ekkert við mig og brast í óstöðvandi hlátur. Undir grafalvarlegum fréttum síðustu daga. Mun samt seint taka orð hans nokkuð alvarlega, enda leikurinn varla til þess gerður.

Ingvi Hrafn sagði einu sinni í viðtali að 10 þúsund elskuðu hann og önnur 20 þúsund sem hötuðu hann. Það væri ástæða þess að hann hefði ákveðið að  hefja þessar útsendingar.

Ef menn vilja skemmtilega útgáfu af fréttum dagsins eiga menn ekki að hika við að horfa á þessa óborganlegu skemmtidagskrá. Jafnast á við bestu gamanþætti. En varla nokkurt mark hægt að taka á þessari lituðu "fréttamennsku".


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband