Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
26.2.2008 | 10:31
Besta könnun Fréttablaðs til þessa
Umræðan um veika stöðu krónunnar hefur án efa haft áhrif þarna á.
Nú vilja rúm 55% þjóðarinnar að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og hefur stuðningur við umsókn aukist um 19% frá því í janúar 2007 þegar 36% voru hlynnt því að Ísland sækti um aðild. Aldrei áður mælst svo mikill stuðningur við að sækja um aðild í skoðanakönnunum Fréttablaðsins áður.
Sá á síðu Evrópusamtakana að þessi stuðningur sé í fullu samræmi við Capacent-Gallup kannanir undanfarinna ára sem Samtök iðnaðarins hafa staðið fyrir undanfarin ár og hafa sýnt mikinn stuðning þjóðarinnar við aðild að ESB. Næsta könnun Capacent Gallup er væntanleg í tengslum við Iðnþing 2008 sem verður haldið 6. mars næstkomandi.
Það verður áhugavert að sjá niðurstöður þeirrar könnunar og jafnframt hvort þessi könnun hafi áhrif á umræðuna um aðild Íslands að Evrópusambandinu innan stjórnarflokkanna.
Stuðningur við ESB rúm 55% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.2.2008 | 11:07
Og landsliðsþjálfarinn er...
Í anda vinnubragða borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna í borginni mættum við líklega eiga von á að Þorbergur Aðalsteinsson yrði ráðin landsliðsþjálfari.
Vonum þó að hér reyni menn að beita öðrum vinnubrögðum og klári málið með öðrum hætti.
Var Þorbergur annars ekki einu sinni á lista Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar? Kannski að hann sé tilbúin að verða borgarstjóri? Þeir félagar Vilhjálmur og Þorbergur hafa báðir axlar ábyrgð á svipaðan hátt.
Nýr landsliðsþjálfari kynntur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.2.2008 | 12:36
Hver verður valin vinsælasta stúlkan?
Nú virðast sjálfstæðismenn í borginni hafa náð saman um hvernig á að leysa þá stöðu sem upp er komin í borgarstjórnarflokknum. Eftir fundarhöld og samtöl milli manna á undanförnum dögum er lausnin í sjónmáli.
Vilhjálmur verður áfram oddviti. Sem áfram verður þá talsmaður borgarstjórnarflokksins. Hann mun hinsvegar ekki verða borgarstjóri þegar Ólafur F.Magnússon hættir.
Síðan á að kjósa á milli manna í borgarstjórnarflokknum. Slíkt verður þó ekki fyrr en nær dregur borgarstjóraskiptunum. Þá eiga borgarfulltrúarnir að kjósa sín á milli um hver tekur við og Vilhjálmur verður ekki í framboði.
Þetta er skrítin staða og án efa erfið fyrir þá sem í borgarstjórnarflokknum sitja. Þetta er farið að líkjast kjöri um vinsælustu stúlkuna í fegurðarsamkeppni og nú er eins gott fyrir alla aðila máls að haga sér vel.
Hitt er, að stjórnmál eru ekki alltaf kjörin til vinsælda, og þær ákvarðanir sem taka verður oft umdeildar. Þetta á ekki síst við í meirihluta þar sem forgangsraða verður fjármagni í málaflokka eftir ákveðinni röð og þeir sem ekki fá það sem óskað er eftir geta orðið ósáttir.
Veit ekki hvers konar andrúmsloft verður í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna á næstu mánuðum. Held það verði ekki ólíkt því og tíðkast í fegurðarsamkeppnum.
Ekki spurning um málefni heldur menn. Ekki til að leysa vandann heldur til að framlengja honum. Því miður fyrir sjálfstæðismenn í borginni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2008 | 10:08
Hver getur haldið lengst í sér?
Gott framtak hjá nýjum stjórnarformanni. Held að almenningi þyki nóg komið af digrum starfslokasamningum sem engan vegin hafa verið tengdir við afkomu fyrirtækjanna. Allt í lagi að greiða þeim vel sem vel gera, en að verðlauna fólk fyrir það að skila fyrirtækjum jafnvel með tapi er erfiðara að skilja fyrir almenna launamenn.
Ekki síður ótrúlegar fjárhæðir sem greiddar hafa verið til þess að fá nýtt fólk til starfa. En nú kallar óviss staðan á mörkuðum á aðgerðir. Gæti orðið til þess að almenningur fengi á ný tiltrú á bönkunum.
Gætum líka átt von á að nú fylgi í kjölfarið slíkar yfirlýsingar frá öðrum fyrirtækju á markaði. Síðan yrði þetta spurning um hversu lengi menn halda þetta út, ekki síst ef ástand markaða fer að lagast á ný.
Þá snýst þetta á endanum um hver getur haldið lengst í sér.
Ekki fleiri starfslokasamninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.2.2008 | 14:00
Klára frumvarpið og greiða bætur strax
Eitt af þessum málum sem mér finnst vera svartur blettur á íslensku samfélagi.
Þótt skaðinn sé skeður og ekki verði hægt að bæta það tjón sem einstaklingarnir sem þarna dvöldu hafa orðið fyrir, eru einhverskonar bætur til þeirra sárabót. Jafnvel þótt skaðabótakrafa þeirra sem þarna dvöldu á hendur íslenska ríkinu sé fyrnd.
Nú hefur verið kynnt að ríkisstjórnin hafi ákveðið að láta semja frumvarp um hugsanlegar bætur til þeirra sem vistaðir voru í Breiðavík. Frumvarpið verður í samræmi við skýrslu Breiðavíkurnefndarinnar sem kynnt var í dag. Forsætisréðherra hefur enn ekki gefið út hversu háar bæturnar gætu orðið eða hvort frumvarpið verði lagt fyrir á yfirstandandi þingi.
Held að bæturnar geti ekki orðið miklar en verða þó án efa til þess að formleg viðurkenning fæst um að þarna hafi samfélagið ekki staðið rétt að málum.
Þessu máli verður að hraða og það hlýtur að vera krafa samfélagsins að frumvarpið verði samið og afgreitt sem fyrst. Þessi menn hafa þolað nóg.
Áframhald Breiðavíkurmálsins í höndum yfirvalda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.2.2008 | 11:30
Össur og hinir bloggararnir
Í DV í vikunni var því haldið fram að nokkrir bloggarar á Eyjunni héldu uppi vörnum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þessir sömu einstaklingar færu fremstir í flokki til að þræta fyrir það að ágreiningur væri innan þess flokks.
Þetta er ekki óþekkt einkenni á ákveðnum hóp bloggara. Ég tilheyrði einum slíkum hóp um langt skeið. Þessir hópar lifa góðu lífi í bloggheimum þ.m.t. á moggablogginu og á vísi.
Þegar þú tilheyrir slíkum hóp er það dagskipunin að verja sína menn. Alveg sama á hverju gengur. Jafnvel þótt þú hafir ekki einu sinni sannfæringu fyrir því sem þú ert að verja.
Þannig tilheyrir þó hópnum. Færð klapp á kollinn ef þú stendur þig vel í bardaganum og er hunsaður þegar þú ekki ert tilbúin að verja þína menn.
Slík pólitísk skrif er nokkuð fyrirsjáanleg.
Össur er annarskonar bloggari. Hann ver jú oftast sína menn í Samfylkingunni en við það lætur hann ekki staðar numið. Hann á sér sína sérstöku vini í öðrum flokkum sem hann ekki hikar við að hampa. Jafnvel verja fyrir árásum ef þannig stendur á honum.
Hann hefur fyrir löngu stillt upp sínum mönnum á pólitíska skákborðinu og reynir að lyfta þeim upp við hvert tækifæri. Þetta eru einstaklingar sem Össur dáist að og telur að hann geti starfað með í stjórnumálunum seinna meir.
En hann tekur líka menn af lífi ef hann er þannig stemmdur og þá er sama hvar í flokki menn standa, nema helst í hans eigin flokki.
Skrif Össurar eru miklu meira spennandi en þeirra sem alltaf verja sína menn. Þú veist alltaf hver línan er í pólitíska flokksblogginu en þú veist aldrei hver verður næstur hjá Össuri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.2.2008 | 17:43
Eru menn einhverju nær?
Úr fundargerð íþrótta og tómstundaráðs frá 8. febrúar s.l. þar sem lagðar voru fram samtals 12 bókanir undir liðnum;Stefnumál meirihlutans í íþrótta-og tómstundarmálum.
Lögð fram stefnumál meirihlutans í íþrótta- og tómstundamálum.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Þar sem áherslumál nýs meirihluta eru lögð fram hér á fundinum og ekki kemur skýrt fram í hverju hún víkur frá starfsáætlun ÍTR áskilur minnihlutinn sér rétt til að taka umræðu um þennan lið betur síðar.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Fulltrúar F-lista og Sjálfstæðisflokks telja það eðlilegt að farið verði nánar í þau áhersluatriði sem nýr meirihluti hefur sett fram. Við samanburð á starfsáætlunum og áhersluatriðum nýs meirihluta væri eðlilegra að bera saman við áætlunina starfsáætlanir áranna 2007 og 2008. Fulltrúar F-lista og Sjálfstæðisflokks hafa lagt metnað sinn í að leggja fram skýra og markvissa stefnu í málefnum Íþrótta- og tómstundaráðs.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Stefnumál Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks koma fram í þeirri starfsáætlun sem samþykkt var fyrir ÍTR fyrir árið 2008 ásamt fjárhagsáætlun borgarstjórnar fyrir málaflokkinn. Mikilvægt er að fylgja eftir þeirri stefnu sem þar kemur fram. Þar er bæði um að ræða styrki til starfsemi og framkvæmda hjá íþróttafélögum í borginni, og framlög til tómstundastarfs af ýmsu tagi. Við minnum á að sveigjanleiki hefur verið aukinn í starfsemi frístundaheimila fyrir okkar tilverknað og við væntum þess að aukin festa verði í starfsemi þeirra með þeirri tillögu sem liggur fyrir þessum fundi um frístundaheimili á heilsársgrunni. Áframhaldandi innleiðing frístundakortsins er mikilvægt verkefni ásamt þróun samstarfs við íþróttafélög í hverfum. Þá minnum við á að í starfsáætlun ársins 2008 er lögð mikil áhersla á að hlúa vel að starfsfólki til þess að ÍTR geti veitt borgarbúum góða þjónustu.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Starfsáætlun ÍTR 2008 byggði að langstærstum hluta til á áhersluatriðum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2007. Í því sambandi má nefna frístundakortin, eflingu frístundaheimila og styrki til íþróttafélaga og framkvæmdir félaganna auk annarra mikilvægra verkefna. Nýr meirihluti F-lista og Sjálfstæðisflokks mun halda áfram með þau góðu verk og hefur auk þess sett fram sín áhersluatriði þar sem koma fram metnaðarfull markmið m.a. að efla lýðheilsu og auka möguleika allra til þátttöku í íþróttum og útivist, gera þjónustuna fjölbreyttari, hagkvæmari og sveigjanlegri.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Starfsáætlanir síðustu árin byggja að verulegu leyti á góðu starfi Reykjavíkurlistans síðasta áratug.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Mikil stefnubreyting varð á starfsáætlun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2007 en þar koma metnaðarfull áhersluatriði fram eins og Frístundakortin, efling frístundaheimila, styrkir til íþróttafélaga og framkvæmdir við þau auk fjölmargra annarra verkefna. Þeirri stefnu verður haldið áfram af nýjum meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks eins og fram hefur komið í þeim áhersluatriðum sem lögð voru fram á fundi ráðsins í dag.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Undirbúningur að innleiðingu frístundakorts var hafinn í tíð Reykjavíkurlista með samþykkt á 3 ára fjárhagsáætlun, auk þess sem hafinn var undirbúningur að framkvæmdum fyrir íþróttafélög, sem þó töfðust því miður í tíð Sjálfstæðisflokksins.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Ekkert varð af framkvæmdum R-lista á frístundakortum, framkvæmd þeirra var verk Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og tillögur þess meirihluta gengu mun lengra en tillögur R-listans. Varðandi aðrar framkvæmdir sem vitnað er til í bókuninni kom í ljós að þegar til framkvæmda kom hafði undirbúningsvinnu R-listans verið ábótavant. Þá skal ítrekað að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri undirritaði samkomulag á 100 ára afmæli ÍR við félagið. Því er ósanngjarnt að halda því fram að uppbygging ÍR hafi tafist vegna Sjálfstæðisflokksins þar sem samningur þess efnis dagsettur 11. mars 2007 staðfestir þetta. Einnig staðfestist samstarfið með skjali sem lagt var fram 24. september 2007 sem sýnir samstarf Úlfars Steindórssonar formanns ÍR og Ómars Einarssonar framkvæmdastjóra ÍTR, en þar er lagt til að skipuð verði sérstök byggingarnefnd með fulltrúum Framkvæmdasviðs, ÍR og ÍTR.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hafði allar forsendur til þess að fylgja eftir loforðum sínum um tafarlausar framkvæmdir fyrir ÍR-inga á meðan hann var borgarstjóri, en kaus þó að gera það ekki.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Við vísum þessum fullyrðingum á bug og minnum fulltrúa Samfylkingar á að þeir höfðu rúma hundrað daga til að hefjast handa en nýttu sér þá ekki.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Það vita það allir að það er ekki heppilegt að hefja framkvæmdir í svartasta skammdeginu.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Við vísum þessum fullyrðingum á bug en eitt er víst að framtíðin er björt hjá nýjum meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks í stjórn ÍTR..
Ætli almenningur í borginni sé miklu nær, eftir þennan lestur, hver sé stefna núverandi meirihluta og á hvaða hátt hún sé frábrugðin stefnu meirihluta númer eitt eða tvö?
A.m.k. er erfitt að sjá á þessum bókunum, hver átti upphaflega góðu hugmyndirnar.
Best væri nú fyrir menn að reyna að vinna saman að þeim málum sem þarf að hrinda í framkvæmd, í stað þess að eyða kröftum sínum í þessa veru.
Segir íþróttaframkvæmdir í Reykjavík í uppnámi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.2.2008 | 09:17
Er borgarstjórn óstarfhæfur hópur?
Í gær voru hópar og hópferli til umræðu í einum áfanga MPA námsins. Þar var rætt um hvað þyrfti til að hópar gætu náð árangri. Hvaða ferli hópar þyrftu að fara í gegnum til að klára sín verk. Eitt af stóru málunum í fræðunum.
Þegar hópar taka að sér verkefni er ferlið í ákveðnum stigum. Stigin, samkvæmt þeirri kenningu sem farið var yfir, skiptast í forming, storming, norming, performing og loks Adjourning stigið.
Helsti vandinn skapast þegar hópar stöðvast í storming ferlinu og ná ekki lengra. Ná ekki að leysa úr verkefnum sem fyrir liggja.
Þetta stig einkennist oft af óþægindum og pirringi. Hópurinn starfar illa saman, upplýsingastreymi er lítið, flestir í hópnum starfa eingöngu fyrir sjálfan sig, hópurinn lítur ekki á sig sem heild og meðlimir hans treysta og styðja ekki hvern annan. Margir, ef ekki allir, vilja leiða hópinn. Mun fleiri þætti voru nefndir og einhvernvegin var umræðan í kringum mig á þann veg að þessi lýsing ætti vel við borgarstjórn Reykjavíkur.
Það er alvarlegt mál ef hópurinn sem starfar í borgarstjórninni getur ekki starfað saman að því verkefni sem það er kosið til, að koma málum í verk fyrir Reykjavíkurborg. Ef tortryggnin og ágreiningurinn er orðin svo djúpstæður að mesta púðrið fer í að gera ágreining um alla hluti í nefndum og ráðum borgarinnar.
Rakst m.a. á nýlega fundargerð eins fagráðs borgarinnar þar mestur tími fundarins virtist hafa farið í að bóka í fundargerð, hvaða meirihluti hefði komið fram með góðar hugmyndir í málaflokknum. Alls 12 bókanir um eitt mál. Engin niðurstaða fengin og kannski aðeins spurning um hver á síðasta orðið.
Eftir slíkan lestur hallast maður að því að tillaga Stefáns Jóns í Silfrinu s.l. sunnudag, um starfsstjórn Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og VG í borginni það sem eftir er kjörtímabilsins, sé skynsamleg.
Þá ætti að vera mögulegt að vinna að sameiginlegum verkefnum sem liggja fyrir í borginni án eilífra átaka meiri-og minnihluta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2008 | 11:47
Ég á barn með litningagalla
Umræðan um snemmómskoðun , litningagalla og fóstureyðingar fer alltaf fyrir brjóstið á mér. Ástæða þess er einföld, ég á barn með litningagalla. Barn sem er m.a. greint með væga þroskahömlun.
Í DV um helgina er fjallað um að nú sé afar fá börn eftir á Íslandi með heilkennið Downs síðan fósturskimun hófst hér á landi árið 1999. Fréttin sem birtist í fréttablaðinu um helgina var í þá veru að aðeins tveimur fóstrum af 27 sem greindust með Downs-heilkenni frá 20022006 var ekki eytt.
Barnið mitt er ekki með Downs heilkenni heldur Velio-cardio-facial- heilkenni. Ég er orðin sérfræðingur í þessu heilkenni á þeim tíu árum sem liðin eru frá fæðingu sonar míns. Það er ólíkt eftir einstaklingum og margslungið. Líkt og flestir aðrir litningagallar.
Þegar sonur okkar var rúmlega tveggja ára fengum við foreldrar hans endanlega greiningu á litningagallanum hjá erfðafræðingi. Við fengum líka upplýsingar um það að ef við myndum ákveða að eiga fleiri börn þá væri hægt að greina það í móðukviði, hvort þessi galli á 22 litning væri til staðar.
Það var líka sárt. Okkur foreldrunum þykir óendanlega vænt um son okkar. Eins og líklega öllum foreldrum þykir um börn sín. Sonur okkar er frábær einstaklingur og við hefðum ekki viljað vera án þess að fá að njóta samskipta við hann. Hann hefur gert líf okkar innihaldsríkara og allra þeirra sem hann hafa umgengist.
Valið er ekki hvort hægt sé að sjá slíka galla á meðgöngu. Valið er hinsvegar það að standa frammi fyrir því að eyða slíku lífi. Ég er fegin að hafa ekki þurft að standa frammi fyrir slíkri ákvörðun.
Það er vandmeðfarið fyrir verðandi foreldra að taka ákvörðun í framhaldi af slíkri niðurstöðu og nauðsynlegt að ráðgjöf vegna þessa sé veitt án fordóma. Valið er á endanum alltaf foreldrana.
Það að búa yfir tækni til að greina slíka galla í móðurkviði er ekki einfalt. Spurningin er í mínum huga líka hvort það sé samfélaginu æskilegt að allar konur séu settar í slíka greiningu. Er á þann hátt verið skipulega að útrýma fólki m.a. út frá greindarvísitölu?
Það er ekki samfélaginu til góðs að allir séu eins. Margbreytileikinn er kostur samfélagsins og þessir einstaklingar eiga ekki síður ánægjulegt og innihaldsríkt líf heldur en við hin.
Án þessara einstaklinga verður lífið aldrei eins innihaldsríkt.
17.2.2008 | 13:36
Að gefa mönnum umhugsunartíma
Frá þeim tíma þegar Vilhjálmur bað um tíma til að hugsa sinn gang um framtíð sína í borgarstjórn, hefur sá dagur ekki liðið að málið hafi ekki verið rætt í fjölmiðlum.
Um helgina varð engin breyting á.
Bjarni Benediktsson sagði í gær í vikulokunum, að það væri næstum vantraust við Vilhjálm að borgstjórnarflokkur hefði ekki líst yfir stuðningi við hann.
Í hádegisfréttum í dag stígur Gísli Marteinn fram og lýsir yfir stuðningi við Vilhjálm. Hann segir líka að rangt sé að gefa það í skyn að hann og aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi þagað um það hvort þeir treysti Vilhjálmi. Allir borgarfulltrúar flokksins hafi lýst því yfir að þeir treysti honum til að gegna oddvitastöðunni. Ég er ekki viss um að allir túlki það þannig.
Geir segir í Silfrinu að hann vilji fá svar sem fyrst frá Vilhjálmi um hvað hann ætli að gera, helst í þessar viku. Í mínum huga var hann loðin í svörum sínum við stuðning við Vilhjálm í viðtalinu. .
Umræðan heldur stöðugt áfram og verður flóknari og jafnframt furðulegri með hverjum deginum sem líður.
Hver styður hvern og hver treystir hverjum? Ætli umhugsunartími Vilhjálms sé ekki farin að styttast eftir öll þau ummæli sem fallið hafa síðustu daga?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mitt val
Blogg Gáttin
Bloggvinir
- vestfirdingurinn
- golli
- bjarnihardar
- amman
- jp
- bjorkv
- bryndisisfold
- olimikka
- salvor
- agnesasta
- eyglohardar
- orri
- gudfinnur
- gesturgudjonsson
- korntop
- sveitaorar
- stebbifr
- helgasigrun
- kex
- garibald
- strandir
- hlini
- gullistef
- bleikaeldingin
- kristinhelga
- sigurdurarna
- perlaheim
- saethorhelgi
- tidarandinn
- gisliivars
- arndisthor
- kristbjorg
- ibb
- inaval
- fararstjorinn
- laugardalur
- lks
- hildurhelgas
- ingithor
- nonniblogg
- faereyja