Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Að lifa af

Las þetta á heimasíðu Péturs Gunnarssonar á Eyjunni:

Vettvangur fyrir hugmyndafræðilega umræðu er einni stjórnmálahreyfingu lífsnauðsyn, eigi hún ekki að dragast upp í átökum og skiptast upp í fylkingar sem myndast í kringum framagjarna einstaklinga. Hreyfing, sem ræðir málefni, getur blómstrað. Hreyfingar, sem ekki eiga annað hugmyndafræðilegt nesti en súrsaðar afurðir 19. aldarinnar og hafa ekki annað að sýsla en að skipta sér upp í lið með og á móti einstaklingum, bera dauðann í sjálfum sér.

Ætli þetta eigi sér stað í þeim flokki sem hann er félagi í?


Langt frí framundan

Lauk verkefni síðustu viku nú rétt í þessu. Fjallar um verkefni framkvæmdastjóra sveitarfélaga út frá lögum. Ekki flókið í rauninni en spuninn í kringum lögin varð að vera trúverðugur. Má ekki fara of langt út fyrir lagaramman þegar skrifað er fyrir lögfræðinga. Það er oft vandinn þegar maður er úr annarri fræðigrein.

Síðustu tvær vikurnar framundan í náminu og síðan tekur við gott frí. Ætla að dvelja á Nýja Sjálandi yfir jól og áramót með hluta af stórfjölskyldunni. Verður í fyrsta sinn sem ég verð ekki heima yfir jólahátíðina.

Mikill undirbúningur liggur að baki þessu ferðalagi sem tekur um 30 tíma hvora leið. Á heimleiðinni er síðan gert ráð fyrir stoppi í Malasíu og komið heim um miðjan janúar.

Tæpar fjórar vikur í brottför og spennan magnast


Góðar hugmyndir óskast

Verið að undirbúa fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar þessa dagana. Sá við lestur á samþykktum Reykjavíkurborgar, sem hægt er að finna á vef félagsmálaráðuneytisins, að þar kemur eftirfarandi fram í 51.grein samþykktanna:

Við undirbúning að fjárhagsáætlun ár hvert skal borgarstjóri auglýsa eftir ábendingum og tillögum borgarbúa um mál er varða gerð fjárhagsáætlunar og skal borgarráð hafa þær til   hliðsjónar við tillögugerð sína.

Hef fullt af góðum ábendingum en kannast ekki við að hafa séð þessa auglýsingu. Kannast einhver við að hafa séð hana?


Akurinn lifir

Fékk fundarboð á félagsfund í þjóðmálafélaginu Akri í dag. Akur var stofnaður í mars árið 2006  og hefur haldið marga fundi á liðnum misserum þótt hljótt fari. þar koma að aðilar bæði utan og innan
framsóknarflokksins og fara yfir stöðu mála.

Félagið hefur það að meginmarkmiði að vera vettvangur þjóðmálaumræðu, skoðanaskipta og stefnumörkunar um þjóðfélagsskipan. Einnig að gefa hverjum félagsmanni tækifæri til að taka þátt í umræðum og að starfa að stjórn- og félagsmálum.

Nú vilja menn ræða stöðu mála eftir miðstjórnarfundinn og hvað hafi þar komið fram. Ennfremur hvert flokkurinn stefni.


Hlakka til að hitta gott fólk á fundinum sem haldin verður n.k.mánudagskvöld. Ef einhver félaga hefur ekki fengið fundarboð í hendur þá vinsamlega hafið samband við formanninn.


Eitt skref í rétta átt

Verð að fagna þessu framtaki. Hvert einasta skref sem tekið er til þess að bæta stöðu þessa hóps er fagnaðarefni.

Í nágrannalöndum okkar er kerfið með þeim hætti að ef foreldrar geta ekki verið á vinnumarkaði vegna veikinda eða fötlunar barns er þeim bætt tekjutapið að einhverju marki.

Þannig koma til grunnbætur til allra barna og síðan einhverskonar uppbót vegna tekjutaps foreldra. Vonandi verður kerfið hér á landi með þeim hætti.

 


mbl.is Félagsmálaráðherra boðar úrbætur fyrir langveik börn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundur um sundlaug í Fossvogsdalinn

 Langar að vekja athygli á þessum fundi í kvöld kl. 20.00

Íbúafundur vegna sundlaugar í Fossvogsdalinn  

Fundur verður fyrir íbúa Fossvogs og Smáíbúðahverfis 13. nóvember kl. 20, í safnaðarheimili Bústaðakirkju, vegna framkominnar tillögu borgarstjóra um byggingu sundlaugar í Fossvogi. Á fundinum er ætlunin að lýsa yfir stuðningi við tillöguna.

Eins og í mörgum góðum málum eru það íbúar hverfisins sem standa að þessum fundi og hafa unnið hugmyndinni brautargengi. Frábært mál fyrir okkur öll sem í hverfinu búum.


Fréttir af miðstjórnarfundi

Flaug norður á Akureyri á miðstjórnarfund a föstudagskvöld. Þótt fundurinn hæfist ekki fyrr en á laugardag er það nú einu sinni þannig að raunverulegu stöðuna finnur maður á fólkinu fyrir fund. Þegar menn ræða málin maður á mann og allt er látið flakka. Var margs vísari eftir þá umræðu.

Á laugardag var síðan fundur miðstjórnar. Verð að viðurkenna að mér líkaði ekki allt það sem þar var sagt. Veit stundum ekki hvort leiktjöldin fá meiri umfjöllun í fjölmiðlum en raunveruleg staða þeirra mála sem rædd eru á slíkum fundum.

Að minnsta kosti er ég verulega hugsi eftir fundinn. Hver við stefnum og hvað sé í spilunum. Ekki síst hverjir það séu sem móti stefnu flokksins.

Æðsta stofnun flokksins, flokksþingið, mótaði grunnstefnu flokksins í sérstöku plaggi árið 2001. Síðan mótaði síðasta flokksþing á liðnu vori , líkt og öll flokksþing gera, stefnu sína í helstu málaflokkum.

Ég hef alltaf talið að í stefnumótun flokks, líkt og í stefnumótun fyrirtækja, að það best sé að margir komi að slíkri vinnu en ekki að einstakir aðilar leggi hver fram sína stefnu. Slíkt boðar aldrei sátt um sameiginlega sýn og hvað þá síður sýnir það fram á lýðræðisleg vinnubrögð.

Það yrði nokkuð torsótt ef allir forystumenn flokksins leggðu hver fyrir sig fram slíka framtíðarsýn. Myndi aðeins sýna fram á ólíka skoðanir flokksmanna og ýta undir átök.


Fundir

Þrír fundir hjá mér um ólík efni í gær.

Fyrst var fundur í félagsmálaráðuneyti þar sem fjallað er um lengdra viðveru fatlaðra ungmenna í framhaldsskólum. Gott mál sem þarf var að ræða. Veit af reynslu að foreldrar fatlaðra barna standa frammi fyrir öðrum veruleika en flestir aðrir foreldrar. Börnin þeirra verða ekki sjálfbjarga í daglegu lífi fyrr en mun seinna en önnur börn og sum ná þeirri færni aldrei í lífinu. Það er því mikilvægt að foreldrum þessara barna verði gert það kleyft að vera úti á vinnumarkaði. Það er því miður ekki alltaf raunin.

Síðan tók við fundur í Áfengis-og vímuvarnaráði. Hef setið í ráðinu í nokkur ár og geri ráð fyrir að nú verði nýtt ráð skipað í byrjun árs. Hitti þar Sigrúnu Aðalbjarnardóttur sem situr með mér í ráðinu. Hún er að gefa út áhugaverða bók sem ber nafnið "virðing og umhyggja-ákall 21 aldar" og er þörf ábending til aldrei þeirra sem koma að uppeldi barna og ungmenna. Bókin byggir á rannsóknum Sigrúnar á félags-og tilfinningaþroska nemenda og því byggð á fræðilegum grunni. Hún er mjög aðgengileg til lestrar og ætti að vera til á sem flestum heimilum.

Síðan var kjördæmisþing framsóknarmanna í Reykjavík haldið. Ég er félagi í Reykjavík suður og á sama tíma funduðu framsóknarmenn í Reykjavík norður. Í framhaldi voru síðan kjördæmissamböndin sameinuð í eitt og er það af hinu góða. Hef hins vegar verulegar áhyggjur af mætingu á fundinum. Eitthvað mikið að sem þarf að skoða.

Ég er síðan á leið á miðstjórnarfund Framsóknarflokksins síðar í dag. Hann er haldinn á Akureyri í þetta sinn. Ég hef setið í miðstjórn flokksins frá árinu 1991 eða í 16 ár og á þeim tíma hefur miðstjórnarfundur alltaf verið haldinn í Reykjavík. Kannski þetta boði breytingar á stefnu flokksins. Ég a.m.k. með opnum huga á þennan fund.


Að skrifa fyrir sjálfan sig eða aðra?

Fór í morgun á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldinn er á Hilton Hóteli.

Hafði fengið leyfi til þess að sitja þar fyrirlestur um þjónustutilskipun Evrópusambandsins sem snýr að almannaþjónustu.  Góðir fyrirlesarar sem þar voru en verð að viðurkenna að þetta málefni er frekar tormelt. Kannski þess vegna sem ekki kom nema ein fyrirspurn úr sal, og hún var frá lögfræðingi innan stjórnsýslunnar.

Hef verið að velta fyrir mér að skrifa um þetta efni í lokaverkefni mínu í meistaranáminu. Vekur ekki sérstakan áhuga þeirra sem ég segi frá þessari hugmynd minni. Sérhæft og erfitt fyrir fólk að setja sig inn í þetta verkefni nema það sé mitt í hringiðu stjórnsýslu sveitarstjórnamála.

Langar hálft í hvoru að skrifa um eitthvað krassandi og áhugavert. Laun og launakjör kjörinna fulltrúa og tengsl þeirra við kjósendur er síðasta hugmyndin. Án efa mun meira spennandi og fengi meiri athygli.

En stundum verður maður að láta skynsemina ná yfirhöndinni.

Á endanum verður maður að fara með þessa reynslu út á vinnumarkaðinn og leita sér að starfi. Þá er það einfaldlega svo að stjórnmálaáhuginn og lýðræðisumræða skilar ekki mörgum atvinnutilboðum. Því miður.


Rétt ákvörðun

Tel að þetta sé það eina sem borgarráð gat gert til þess að reyna að koma málinu aftur á byrjunarreit. Nýr meirihluti þarf á því að halda að öðlast trúverðugleika meðal borgarbúa og því verða kjörnir fulltrúar að viðurkenna að þarna hafi mál ekki verið unnin með réttum hætti.

Það virðist líka liggja fyrir að minni hluthafar í Orkuveitu Reykjavíkur eru ekki sáttir við hvernig mál hafa verið unnin og því verður að skapa sátt innan stjórnar OR á ný þannig að menn geti haldið áfram sínum störfum þar.

Það er hinsvegar spurning hvaða áhrif þetta getur haft á REI og verkefni þess fyrirtækis. Held að það muni taka langan tíma að vinna upp orðstír þess fyrirtækis. Slíkt mun ekki gerast nema á löngum tíma.


mbl.is Borgarráð samþykkir að hafna samruna REI og Geysis Green
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband