Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
23.11.2007 | 16:44
Að segja minna en meira
Þakka góðar kveðjur til mín síðustu daga. Flest þeirra samtala og tölvupósta sem ég hef fengið hafa verið með jákvæðum hætti. Þó ekki án undantekninga. Sumir eru mér reiðir.
Skil vel að einhverjir séu ósáttir við ákvörðun mína að kveðja flokkinn og jafnvel undrist hana. Á þessa ákvörðun við mína eigin samvisku. Orðin þreytt á fylkingum og eilífum átökum. Veit sem er að ástandið í þeim málum er verst í mínum hrepp, Reykjavík.
Það sem kemur mér hinsvegar á óvart er að þeir sem kvarta mest yfir því að ég hafi ekki verið opinskárri um stöðu einstakra mála innan flokksins skuli vera þeir sem enn starfa þar. Það eru þeir sem vilja láta opna lokið af pottinum þannig að út úr flæði. Ljóst af þessum samtölum að menn vilja umræðu um vinnubrögðin upp á yfirborðið en vilja sjálfir ekki vera til þess að gagnrýna. Vita víst hvað slíkt þýðir.
Vel að gera það ekki nú. Tel að þeir sem eftir eru væri frekar að opna umræðu um slík mál innan flokksins. Þá kannski verður það til þess að vinnubrögðum verður breytt.
Ég hef valið að hverfa af vettvangi.
21.11.2007 | 11:22
Úrsögn mín úr Framsóknarflokknum
Ég hef starfað með framsóknarflokknum frá árinu 1980. Ég starfaði til að byrja með í ungliðahreyfingu flokksins og þegar ég hafði aldur til gekk ég til liðs við félögin í Reykjavík.
Um langt árabil hef ég verið í forystusveit félaganna í Reykjavík. Var m.a. fyrsta konan sem gegndi starfi formanns Framsóknarfélags Reykjavíkur. Ég hef setið í miðstjórn flokksins samfellt í 16 ár og var borgarfulltrúi flokksins á árunum 2002-2006.
Ég hef alla tíð talið mig starfa að heilindum með Framsóknarflokknum. Ég hef gert allt mitt til þess að vinna stefnumálum hans brautargengi utan sem innan flokks. Af þessu starfi mínu hef ég oftast haft ánægju og ekki síður hef ég fengið til þess tækifæri að kynnast fjöldanum öllum af góðu fólki.
En allt er breytingum undirorpið. Á síðustu misserum hefur mér fundist sú taug sem tengt hefur mig við flokkinn hafa rofnað. Ég hef átt erfiðara með að samsama mig við þá stefnu sem flokkurinn hefur unnið að og gagnrýnt margt í verkum hans. Ekki síður hefur gagnrýni mín beinst að þeim vinnubrögðum sem mér hefur þótt vera beitt innan flokksins.
Ég hef reynt að leggja mig fram við að vinna að betri vinnubrögðum innan flokksins, talið sjálfum mér og öðrum trú um það um langt skeið, að brátt séu bjartari tímar framundan. Að fari menn að vinna með öðrum takti og með nýju fólki munum við öll finna fjölina okkar aftur.
Því miður sýnist mér að sú von mín ætli ekki að rætast. Margt af því góða fólki sem ég hef starfað með á löngum ferli er horfið á braut. Sumir hafa kvatt flokkinn með formlegum hætti og aðrir vilja ekki lengur taka þátt í starfi hans. Þeir hafa misst trú á flokknum.
Ég hef alltaf reynt að tala hreint út. Það á jafnt við um vinnubrögð og stefnumál innan flokksins. Slíkt er þó ekki fallið til vinsælda. Ekki síst þegar sífellt er klifað á nauðsyn þess að tala einum rómi utan flokksins og leysa deilur innanflokks. Á sama tíma er horft fram hjá vinnubrögðum innan flokksins sem ekki eiga heima í starfi stjórnmálaflokks sem á að vera í forystu í framgangi lýðræðis og jafnræðis innan samfélagsins.
Mér finnst á margan hátt að á flokkurinn minn sé horfinn og ég geti ekki lengur fundið hvar og hvernig hjarta hans slær. Að flokkurinn hafi færst of mikið frá stefnu sinni og það þróttmikla starf sem áður einkenndi hann sé nú fyrir bí.
Mér er það ekki létt að segja skilið við margt af því góða fólki sem enn fylgir flokknum, en í núverandi stöðu tel ég mig knúna til þess að segja mig úr Framsóknarflokknum.
Ég hef jafnframt tilkynnt úrsögn mína til skrifstofu Framsóknarflokksins í dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
20.11.2007 | 12:05
Stofnfundur íbúasamtaka Bústaðarhverfis í kvöld
Stofnfundur íbúasamtaka Betra líf í bústaðarhverfi verður haldinn þriðjudaginn 20.nóvember kl. 20.00 í safnaðarheimili Bústaðarkirkju
Tilgangur íbúasamtakanna er að vera samstarfsvettvangur íbúa og félagasamtaka á félagssvæðinu, að vinna að framfara- og hagsmunamálum í Bústaðarhverfi, að stuðla að samhug innan svæðisins, að byggja upp samstarf við opinberar stofnanir sem hafa með málefni hverfisins að gera, að byggja upp samstarf við önnur íbúasamtök og að hvetja íbúa til hugmynda og athafna fyrir hverfið.
Félagssvæði samtakanna er Bústaðahverfi og afmarkast af Miklabraut í norðri, Reykjanesbraut í austri, Fossvogsdal í suðri, sunnan Bústaðavegar að Kringlumýrarbraut og Grensásvegi í vestri
Íbúar hverfisins eru hvattir til að mæta og sýna samtöðu um málefni hverfisins.
19.11.2007 | 22:27
Fundur hjá Akri
Góður fundur hjá Akri í kvöld og ágætis mæting. Flestir fundarmenn voru núverandi eða fyrrverandi félagar í Framsóknarflokknum. Því einkenndist umræðan af stöðu mála þar á bæ.
Menn hafa sterkar skoðanir á málum innan flokksins. Margt bendir til að átök muni harðna á næstu misserum á þeim vettvangi. Boðar ekki gott ef rétt reynist.
Menn voru sammála um að hafa fastan fundartíma hjá Akri einu sinni í mánuði á nýju ári. Næsti fundur verður seinnipart janúar og mun góður gestur koma á fundinn.
Sýnist á öllu að þetta verði meginvettvangur minn á næstu misserum fyrir þátttöku í stjórnmálastarfi. Skýrist þó betur á næstunni.
19.11.2007 | 13:56
Að lifa af
Las þetta á heimasíðu Péturs Gunnarssonar á Eyjunni:
Vettvangur fyrir hugmyndafræðilega umræðu er einni stjórnmálahreyfingu lífsnauðsyn, eigi hún ekki að dragast upp í átökum og skiptast upp í fylkingar sem myndast í kringum framagjarna einstaklinga. Hreyfing, sem ræðir málefni, getur blómstrað. Hreyfingar, sem ekki eiga annað hugmyndafræðilegt nesti en súrsaðar afurðir 19. aldarinnar og hafa ekki annað að sýsla en að skipta sér upp í lið með og á móti einstaklingum, bera dauðann í sjálfum sér.
Ætli þetta eigi sér stað í þeim flokki sem hann er félagi í?
18.11.2007 | 22:50
Langt frí framundan
Lauk verkefni síðustu viku nú rétt í þessu. Fjallar um verkefni framkvæmdastjóra sveitarfélaga út frá lögum. Ekki flókið í rauninni en spuninn í kringum lögin varð að vera trúverðugur. Má ekki fara of langt út fyrir lagaramman þegar skrifað er fyrir lögfræðinga. Það er oft vandinn þegar maður er úr annarri fræðigrein.
Síðustu tvær vikurnar framundan í náminu og síðan tekur við gott frí. Ætla að dvelja á Nýja Sjálandi yfir jól og áramót með hluta af stórfjölskyldunni. Verður í fyrsta sinn sem ég verð ekki heima yfir jólahátíðina.
Mikill undirbúningur liggur að baki þessu ferðalagi sem tekur um 30 tíma hvora leið. Á heimleiðinni er síðan gert ráð fyrir stoppi í Malasíu og komið heim um miðjan janúar.
Tæpar fjórar vikur í brottför og spennan magnast
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2007 | 14:32
Góðar hugmyndir óskast
Verið að undirbúa fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar þessa dagana. Sá við lestur á samþykktum Reykjavíkurborgar, sem hægt er að finna á vef félagsmálaráðuneytisins, að þar kemur eftirfarandi fram í 51.grein samþykktanna:
Við undirbúning að fjárhagsáætlun ár hvert skal borgarstjóri auglýsa eftir ábendingum og tillögum borgarbúa um mál er varða gerð fjárhagsáætlunar og skal borgarráð hafa þær til hliðsjónar við tillögugerð sína.
Hef fullt af góðum ábendingum en kannast ekki við að hafa séð þessa auglýsingu. Kannast einhver við að hafa séð hana?
16.11.2007 | 11:17
Akurinn lifir
Fékk fundarboð á félagsfund í þjóðmálafélaginu Akri í dag. Akur var stofnaður í mars árið 2006 og hefur haldið marga fundi á liðnum misserum þótt hljótt fari. þar koma að aðilar bæði utan og innan
framsóknarflokksins og fara yfir stöðu mála.
Félagið hefur það að meginmarkmiði að vera vettvangur þjóðmálaumræðu, skoðanaskipta og stefnumörkunar um þjóðfélagsskipan. Einnig að gefa hverjum félagsmanni tækifæri til að taka þátt í umræðum og að starfa að stjórn- og félagsmálum.
Nú vilja menn ræða stöðu mála eftir miðstjórnarfundinn og hvað hafi þar komið fram. Ennfremur hvert flokkurinn stefni.
Hlakka til að hitta gott fólk á fundinum sem haldin verður n.k.mánudagskvöld. Ef einhver félaga hefur ekki fengið fundarboð í hendur þá vinsamlega hafið samband við formanninn.
15.11.2007 | 12:43
Eitt skref í rétta átt
Verð að fagna þessu framtaki. Hvert einasta skref sem tekið er til þess að bæta stöðu þessa hóps er fagnaðarefni.
Í nágrannalöndum okkar er kerfið með þeim hætti að ef foreldrar geta ekki verið á vinnumarkaði vegna veikinda eða fötlunar barns er þeim bætt tekjutapið að einhverju marki.
Þannig koma til grunnbætur til allra barna og síðan einhverskonar uppbót vegna tekjutaps foreldra. Vonandi verður kerfið hér á landi með þeim hætti.
Félagsmálaráðherra boðar úrbætur fyrir langveik börn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2007 | 11:14
Fundur um sundlaug í Fossvogsdalinn
Langar að vekja athygli á þessum fundi í kvöld kl. 20.00
Íbúafundur vegna sundlaugar í Fossvogsdalinn
Fundur verður fyrir íbúa Fossvogs og Smáíbúðahverfis 13. nóvember kl. 20, í safnaðarheimili Bústaðakirkju, vegna framkominnar tillögu borgarstjóra um byggingu sundlaugar í Fossvogi. Á fundinum er ætlunin að lýsa yfir stuðningi við tillöguna.
Eins og í mörgum góðum málum eru það íbúar hverfisins sem standa að þessum fundi og hafa unnið hugmyndinni brautargengi. Frábært mál fyrir okkur öll sem í hverfinu búum.
Mitt val
Blogg Gáttin
Bloggvinir
- vestfirdingurinn
- golli
- bjarnihardar
- amman
- jp
- bjorkv
- bryndisisfold
- olimikka
- salvor
- agnesasta
- eyglohardar
- orri
- gudfinnur
- gesturgudjonsson
- korntop
- sveitaorar
- stebbifr
- helgasigrun
- kex
- garibald
- strandir
- hlini
- gullistef
- bleikaeldingin
- kristinhelga
- sigurdurarna
- perlaheim
- saethorhelgi
- tidarandinn
- gisliivars
- arndisthor
- kristbjorg
- ibb
- inaval
- fararstjorinn
- laugardalur
- lks
- hildurhelgas
- ingithor
- nonniblogg
- faereyja
Af mbl.is
Erlent
- Lagt til að fátækari þjóðum verði hjálpað
- Á sjötta tug látnir eftir loftárásir Ísraela
- Bert veldur miklu raski á Bretlandseyjum
- Einn handtekinn eftir að kona fannst látin
- Erdogan fagnar handtökuskipuninni
- Finnair aflýsir 300 flugferðum vegna verkfalla
- Pútín reynir allt til að forðast aðra herkvaðningu
- Fimm flugfélög sektuð fyrir óboðlega framkomu
- Útnefnir vogunarsjóðsstjóra í fjármálaráðuneytið
- Munu hefja fjöldaframleiðslu á eldflaugunum
Viðskipti
- Fréttaskýring: Kanada verði land tækifæranna
- Þarf fólk að kaupa sér hraðbanka?
- Ellert nýr fjármálastjóri Merkjaklappar
- Adani ákærður fyrir mútur og svik
- Félagsbústaðir tapa án matsbreytinga
- Dana tekur yfir markaðsmál Lauf Cycles
- Kerecis-hjón fjárfesta í leiguflugi
- Vextir lækki um 175-200 punkta
- Dr. Bjarni Pálsson til Vinds og jarðvarma
- Icelandair færir eldsneytið til Vitol