Leita í fréttum mbl.is

Ástandið í borgarstjórn

Ingibjörg Sólrún segir ástandið í stjórnsýslu Reykjavíkur vera hörmulegt. Það er kannski full mikið sagt, en eitthvað sérkennilegt er að gerast í málefnum Reykjavíkurborgar.

Það á ekki bara við í stjórnsýslunni eða meðal embættismanna borgarinnar. Það á sér líka stað meðal borgafulltrúana 15 í borgarstjórn.

Eitthvað sem ég held að hafa ekki gerst áður. Að minnsta kosti ekki um langt árabil. Margt af því ágæta fólki sem situr í borgarstjórn er ekki ánægt í vinnunni sinni. Talar jafnvel um að hverfa af vettvangi. Bæði fulltrúar í meiri-og minnihluta.

Nú er ég ekki að segja að þetta fólk hafi ekki hug á að sinna starfi sínum sem kjörnir fulltrúar. Heldur hitt að starfsandinn í borgarstjórn er ekki ásættanlegur fyrir það vinnuumhverfi sem fólk þarf að búa við til að geta sinnt sínu starfi.

Það verður eitthvað að gerast. Rúm tvö ár eru eftir af kjörtímabili borgarstjórnar. Ekki má kjósa aftur fyrr en þá og ástandið virðist ekki lagast.

Hvað það er sem er að, veit ég ekki. Skortur á trausti á milli manna, reiði, valdabarátta eða hvað annað sem kallar á óþægilegan starfsanda. Við borgarbúar þurfum á því að halda að þessir 15 einstaklingar taki höndum saman og komi málum í framkvæmd.

Engin tapar meiri á þessu ástandi er borgstjórn sjálf. Almenningur missir trú á henni og traust hennar má ekki minna vera.

Kannski er lausn að kalla á vinnustaðasálfræðing í borgarstjórn. Það gera fyrirtæki ef leysa þarf deilur eða annan vanda. Það er kannski eina leiðin til bjargar?


Vorið er komið í Róm

Sé að það er blíðskapaveður á hálendi Íslands í dag. Það sama á við hér í Róm.

Sat og upplifði mannfjöldann á spænsku tröppunum fyrr í dag. Þar var að venju mikið mannhaf og yfir 20 stiga hiti. Vorið er komið hér í Róm. Styttist í það gerist líka á Íslandi.

Eitthvað er þó öðruvísi hér í Róm en síðast þegar ég kom hér við. A.m.k. finnst mér meira um betlara hér á götunum en áður. Eða að lögregan er ekki eins áköf í að reka þá í burtu.

Upplifði líka á akstri mínum út úr borginni í gærkveldi mikinn fjölda gleðikvenna sem ég mann ekki eftir að hafa séð fyrr á svo áberandi hátt. Kannski var ég bara á ferð um hverfi sem ég hafði ekki farið áður.

En Róm er falleg og jafnvel þótt evran sé komin í rúmar 123 krónur er hægt að njóta hennar.

Það gerði ég í dag og mun gera næstu daga.

 

 


Í landi þar sem pólítísk spilling blómstrar

Er komin til þess lands sem mér líkar best. Ítalíu. Þar sem allt er fljótandi í menningu, list og góðum mat. Auk pólitískrar spillingar.

Lagði af stað snemma í morgun til Stansted og þaðan til Róm. Gat mér til upplýsingar lesið ítarlegt svar Árna Mathiesen til umboðsmanns Alþingis í báðum flugferðunum. Veitti ekki góðum tíma til að lesa öll þessi ítarlegu rök ráðherrans, og til þess að reyna  að skilja  þankagang hans bak við ráðninguna. Er þó ekki sannfærð enn.  

Man ekki eftir því að Morgunblaðið hafi áður lagt heila opnu undir svör ráðherra vegna athugasemda eða spurninga umborðsmanns Alþingis.

Það virðist ljóst að hér á að slá á óánægjuna og sefa almenning. Fannst þetta þó fullmikið af hinu góða.

Ráðamenn verða að sætta sig við að tímar pólitískra ráðninga eiga að vera liðnir.

Ekki síst eru það dómstólarnir og ráðningar þar á bæ, sem þurfa að vera hafnar yfir umræðu um mögulega pólitíska bitlinga. Almenningur verður að geta treyst úrskurðum dómstóla og þeir að vera hafnir yfir allan pólitískan vafa.

Hér á Ítalíu hinsvegar lifir spilling innan stjórnmálanna góðu lífi og hér ætla ég mér að dvelja í góðu yfirlæti fram í næstu viku.

Lifa og njóta.


mbl.is Spurningar ítarlegar svo ráðherrra fái tækifæri til skýringa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er von að menn undrist?

Um nokkur skeið hefur það verið venja, þegar ég hef sótt önnur lönd heim, að ég hef verið spurð um efnahagsundrið Ísland.

Verið spurð út í það hvernig stæði á þeirri miklu velsæld sem hér ríkti? Hvaða efnahagslegu undur hefðu átt sér stað frá lokum seinni heimstyrjaldar sem hefðu gert okkur íslendinga svo efnaða á stuttum tíma.

Ekki síst hvað hafi átt sér stað í íslensku efnahagslífi á liðnum áratug. Hvort við íslendingar hefðum fundið olíu á hafsvæðinu í kringum Ísland? Nei það voru víst norðmenn sem gerðu slíkt. Hvort það séu fiskveiðar sem geri okkur svo ríka eða hver sé ástæðan?

Ég hef reynt að svara þessum spurningum eftir bestu getu, en verð að viðurkenna að stundum hef ég ekki getað svarað öllum þeim spurningum sem komið hafa upp í umræðunni. Ég hef einfaldlega ekki alltaf skilið það almennilega á hverju menn hafa verið að hagnast.

Og nú er skollin á kreppa. Hlutabréfin lækka, krónan lækkar og verslanir verðmerkja í gríð og erg. Við megum búast við miklum verhækkunum á öllum vörum og nú er um að gera að draga saman á öllum sviðum.

Og þá kemur fram á sviðið prófessor við London School of Economics og ver okkur Íslendinga. Hann segir að við rekum landið okkar vel og okkur eigi eftir að vegna vel.  Bankarnir væru vel reknir og traustir.

Er þá nokkur ástæða til að hafa áhyggjur?

Eru það bankarnir og staða þeirra sem við eigum að hafa áhyggjur af eða staða almennings í landinu? 

Verð að viðurkenna að bankarnir eru ekki þeir sem ég hef helst áhyggjur af í slíku árferði heldur láglaunafólkið og ungu fjölskyldurnar.

Það eru þeir hópar sem í mestri hættu eru, í því óvissuástandi sem nú ríkir.


mbl.is Segir Ísland afar vel rekið land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðir strax

Úr skýrslu til forsætisráðuneytisins sem gerð var í apríl 2004 af hagfræðistofnun Háskóla Íslands um samanburð á matvælaverði á Íslandi, Norðurlöndunum og ríkjum Evrópusambandsins.

Vorið 2003 fóru um 15% af neysluútgjöldum Íslendinga til matar og drykkjar (áfengi er hér ekki talið með). Matvæli eru hærra hlutfall neyslu hjá lágtekjufólki en þeim efnameiri. Hjá sambýlisfólki með börn, þar sem tekjur voru innan við 2 milljónir króna árið 1995, voru útgjöld til matar og drykkjar fimmtungur neysluútgjalda. Þá munar meira um matarútgjöld hjá barnafjölskyldum en öðrum. Matarverð varðar því lágtekjufólk og barnafólk meira en aðra. Þrír vöruflokkar vógu þyngst í matarkröfu Íslendinga árið 2003: mjólk, ostar og egg; kjöt; og brauð og kornvörur. Mjólkurvörur og egg voru 19% af neyslu meðalheimilisins, kjöt 18% og brauð og kornmatur 17%.

 Samtals fór því meira en helmingur af matarútgjöldum heimilisins í neyslu á þessum vörum. Hlutur matvæla í neyslu meðalfjölskyldu hefur minnkað undanfarin ár og er nú kominn niður í 13½%, en þar við bætast drykkjarvörur (án áfengis) sem eru tæp 2%.

Þetta hlutfall er mun lægra víða í Evrópu.  

Stjórnvöld hljóta að grípa til aðgerða til að lágmarka afleiðingar þessarar hækkunar á fjölskyldunnar í landinu. Lækkun skatta og tolla á matvælum  kæmi til greina og jafnframt að gefa innflutning á  ákveðnum tegundum landbúnaðarvara frjálsan.  

Þessar hækkanir hafa mest áhrif á ungu barnafjölskyldurnar og lágtekjufólkið. Þá hópa sem minnst mega við slíkum hækkunum.


mbl.is Verulegar verðhækkanir á matvælum framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr íslenskur raunveruleiki

Las yfir fréttir frá lögreglunni í borginni fyrir tíu árum síðan. Um páska árið 1997 leit þetta svona út: 

"PÁSKARNIR voru nokkuð annasamir hjá lögreglunni. Í dagbókinni um páskana eru 602 færslur. Af þeim eru 12 líkamsmeiðingar, 41 innbrot, 21 þjófnaður og 27 eignaspjöll. Afskipti þurfti að hafa af 42 vegna ölvunar á almannafæri og vista þurfti 60 manns í fangageymslunum"

Um þessa páska liggja ekki fyrir dagbókarfréttir en þetta er helst í fréttum frá lögreglu nú um páskahátíðina:

Þrjú rán í Breiðholti þar sem sprautunálar voru notaðar við verknaðinn voru framin á föstudaginn langa.Mjög gróf líkamsárás í Breiðholti á laugardag þar sem sex aðilar voru í kjölfarið fluttir á slysadeild.Eldur í þremur bílum, í vesturbæ Reykjavíkur og í Hafnarfirði, grunur um íkveikju.Fjölmennt lið lögreglu og sérsveitarmann var sent að heimili við  Leifsgötu í Reykjavík skömmu fyrir klukkan ellefu á páskadagsmorgun þar sem tilkynnt hafði verið um að maður ógnaði öðrum með hnífi. Mennirnir voru báðir handteknir án mótspyrnu og eru þeir nú í haldi lögreglu.Alls sátu 13 manns í fangageymslum lögreglunnar í Reykjavík áður en mennirnir tveir voru handteknir í morgun. Að sögn lögreglu voru allir þeir, sem gistu fangageymslurnar í morgun af erlendu bergi brotnir.

Óljóst enn hvort dagbókarfærslum hafi fækkað um þessa páska frá árinu 1997. Á þó erfitt með að trúa því.

Annar konar raunveruleiki sem við búum við nú en var fyrir áratug síðan. Raunveruleikinn sem við búum við í dag er aukin og harðari eiturlyfjaneysla með öllum þeim hliðarverkunum sem slíkt hefur og harðara og meira ofbeldi en áður.

Erfiðir vaxtaverkir sem fylgja því að breytast úr fámennu einangruðu þjóðfélagi í það að vera þátttakandi í alþjóðlegu samfélagi með öllum þeim kostum og göllum sem slíkt fylgir.

 


Vinsælustu sálmarnir við útfarir

Við hæfi á páskadag að benda á áhugaverðan þátt sem ég hlustaði á með andakt á föstudaginn langa.

Við þekkjum öll þætti eins og lög unga fólksins, óskalög sjúklinga og vinsælu sjómannalögin en þessi þáttur var með öðru sniði.

Þátturinn bar það virðulega heiti " Ekki með sínu lagi-vinsælustu útfararsálmarnir" og var yfirlit yfir  vinsælustu sálmana sem sungnir eru við útfarir. Þættinum stýrðu Ásgeir Sigurgestsson, Hallgrímur  Magnússon og Trausti Jónsson.

Fróðlegt að vita að sögu sálmana og ekki síður að einhverir þeirra sálma sem við heyrum við útfarir hér á landi voru upprunalega drykkjuvísur samdar á meginlandinu.

Njótið þessa ágætu dagskrár hér  http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4401522

Gleðilega páska


Klappað og stappað í kirkju, á föstudaginn langa

Föstudagurinn langi hefur aldrei haft neina sérstaka þýðingu fyrir mig. Ég veit líkt og aðrir merkingu þessa dags, en hef ekki valið að nota hann sérstaklega til að hugleiða trúna og merkingu hennar. Slíkt get ég gert alla daga ársins.

Dagurinn var því notaður til verkefnavinnu og annarra hversdaglegrar iðju. Síðan var farið í ræktin í lok dags.

Annað og óvenjulegra gerði ég þó. Ég fór á "skemmtun" í Fríkirkjuna í kvöld. Má líklega ekki segja að þetta hafi verið "skemmtun", því slíka iðju megi víst ekki iðka á þessum degi.Deitra Farr og Andrea Gylfsdóttir

En "skemmtun" var það og ekki af lakara taginu. Síðustu tónleikar Blúshátíðar Reykjavíkur þetta árið með fjölda frábærra listamanna.

Allt voru þetta góðir listamenn sem komu fram í kvöld en toppurinn var þegar hin bandaríska Deitra Farr fékk gesti í kirkjunni til að klappa og stappa undir með söng sínum í frábærum gospel söngvum. Kirkjan bókstaflega nötraði og stemmingin var ólýsanleg.

Frábær skemmtun og án efa í fyrst skipti sem ég bæði klappa og stappa í kirkju á föstudaginn langa, en vonandi ekki það síðasta.


Að fá krassandi fréttir og svitna um leið

Fór góðan hring í Laugum í morgun. Það er ekkert betra en að taka vel á fyrir mikla veislur í mat og drykk, eins og stefnir í þessa páska. Fer á morgun og aftur á laugardag.

Mér líkar vel að vera í Laugum. Hef verið þar allt frá opnun og hef alltaf kunnað vel við mig þar. Heyri stundum að þar falli maður ekki inn, nema vera af þessari eða hinni tegundinni. Ég held að þarna inni finni maður allar stærðir og gerðir af fólki og geti líka falið sig í fjöldanum ef maður kýs svo.

Þetta er fjölmennasti klúbburinn sem ég sæki reglulega og því er það svo að maður fer smátt og smátt að spjalla við gesti og gangandi. Ekki bara þá sem maður þekkti fyrir, heldur hef ég eignast fjölda góðra kunningja í ræktinni.

Ég gef mér líka tíma til að staldra við og skiptast á nokkrum orðum við þá sem ég hitti þar. Þetta hefur orðið til þess að líkamsræktarstöðin er ekki bara staður til að taka á, heldur líka til þess að fá fréttir af mönnum og málefnum. Hvort sem er á hlaupabrettinu, í tækjunum eða í gufunni.

Ég hef fengið upplýsingar um í hvaða félagi ég ætti að kaupa í (þegar markaðurinn var á uppleið) og ekki kaupa, fengið atvinnutilboð, heyrt æsilegar sögur af fólki í fréttunum, og síðast en ekki síst heyrt ótrúlegar samsæriskenningar og fléttur af pólitíska sviðinu.

Þótt allir heimildarmennirnir sé kannski ekki traustsins verðir, verð ég að viðurkenna að mest krassandi fréttirnar fæ ég alltaf í ræktinni. 


Aðild eða ekki?

Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka eiga að vera róttækar og tilbúnar að ganga skrefinu lengra en forystusveitir flokkanna.  Ég fagna þessari ályktun og vona að SUF nái að sannfæra sitt eigið fólk um þessa skoðun. Held þó að þessi ályktun gangi ekki gegn skoðunum forystu flokksins

Þannig er ekkert öruggt um afstöðu SUF í málinu þótt farið yrði í slíkar aðildarviðræður.  

Á 33. þingi Sambands ungra framsóknarmanna sem haldið var í Reykjavík 16-17. september 2006 kom fram í ályktun um Evrópumál að rétt væri að hefja vinnu við samningsmarkmið með aðild að ESB í huga. Þetta er því ekki ný skoðun hjá SUF.

Hinsvegar  kom einnig fram í ályktunni að’”huga þarf sérstaklega að hagsmunum Íslendinga í landbúnaðar-og sjávarútvegsmálum. Án viðunandi niðurstöðu úr samningarviðræðum leggst SUF gegn inngöngu í ESB. Bera skal samninginn undir þjóðaratkvæði.” 

Líklega verður erfitt að meta viðunandi niðurstöðu, þannig að öllum líki innan ungliðahreyfingar Framsóknarlokksins. Þar skiptast menn í fylkingar , líkt og í öðrum flokkum.


mbl.is SUF vill kosningar um hvort hefja eigi ESB viðræður í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband