Leita í fréttum mbl.is

Spennandi verkefni

Aðgerðarleysi er ekki ástæða þess að lítið er bloggað. Nú er það verkefni sem ég hef unnið að síðustu mánuði að ná hámarki. Alþjóðaleikar ungmenna hefjast formlega eftir aðeins sjö daga.

Allt sem þig langar að vita um leikana er hægt að finna á þessi slóð http://icgreykjavik.is/

Þetta er eitt af því skemmtilegasta verkefni sem ég hef komið að lengi. Endalausir þræðir sem sem unnið hefur verið að á liðnum mánuðum, og nú er komið að því að hnýta þá alla saman.

Mitt hlutverk í þessu verkefni er að sjá um opnunarhátíð leikana sem haldnir verða á Laugardalsvelli fimmtudaginn 21. júní. Gistingu ungmennanna sem munu keppa á leikunum í skólum í grennd við Laugardalinn, alls 1200 manns, . Afþreyingu fyrir ungmennin á meðan á leikunum stendur og lokahátíð sunnudaginn 24.júní Síðast en ekki síst sérstaka dagskrá fyrir fulltrúa þeirra borga, borgarstjóra og borgarfulltrúa, sem taka þátt í leikunum.

Öll þessi verkefni kalla á samvinnu margra ólíkra aðila og því er í mörg horn að líta þessa dagana. Sannarlega spennandi verkefni og því minni tími til skrifa á meðan.


Sjálfskoðun-fyrsta verk framsóknarmanna

Miðstjórnarfundur okkar framsóknarmanna í dag var um margt sérstakur. Tveir formenn flokksins, fyrrverandi og núverandi fluttu ávörp sem mér fannst bæði einkennast af sjálfskoðun en ekki gagnrýni á aðra. Hvorki einstaklinga eða aðra flokka.

 

Mín skoðun er sú að styrkur okkar framsóknarmanna um árabil hafi falist í samstöðu og feikimiklum styrk okkar í kosningum. Í kosningum kom öll grasrót flokksins til starfa til að vinna að sameiginlegu markmiði okkar allra, að ná sem bestri útkomu í kosningum.

 

Í síðustu tveim kosningum, borgarstjórnarkosningunum 2006 og í alþingiskosningunum 2007 brast sú samstaða og árangurinn varð í samræmi við það.

 

Jón Sigurðsson sagði í ræðu sinni í dag að  taka yrði til skoðunar alla á þætti sem lægju að baki slakri stöðu flokksins.  Hann lagði til á fundinum að framkvæmdastjórn flokksins skipi umræðuhóp til að móta skýringar og skilgreiningar á þessu. Hann taldi  mikilvægt að þetta verkefni yrði unnið sem liður í undirbúningi fyrir nýja eflingu Framsóknarflokksins en hún yrði að hefjast sem allra fyrst.

 

Ég er full vonar um nýja byrjun fyrir flokkinn eftir þennan fund okkar framsóknarmanna. Ég bíð fram krafta mína í þessa vinnu og bind miklar vonir við nýja forystu í nýrri framsókn.


Ný forysta valin

Samkvæmt lögum flokksins hefur nú Guðni Ágústson, sem kosin var í embætti varaformanns á síðasta flokkþingi , tekið við formennsku í flokknum. Það er eðlilegur framgangur þegar formaður hverfur af vettvangi og hefði kannski átt að gerast líka þegar Halldór Ásgrímsson hvarf af vettvangi fyrir ári síðan.

Við þetta verður nú a kjósa nýjan varaformann í embætti á Miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem fram fer á morgun, sunnudag.  Valgerður Sverrisdóttir hefur boðið fram krafta sína sem varaformaður. Ég tel að Valgerður hafi unnið vel sem þingmaður og ráðherra á liðnum árum. Ekki síst var ég ánægð með marga ágæta hluti sem hún vann að í starfi sínu sem utanríkisráðherra.

Bæði Valgerður og Guðni hafa starfað lengi innan flokksins. Þau hafa bæði setið á þingi frá árinu 1987 eða í 20 ár. Guðni er fæddur árið 1949 og er því 58 ára. Valgerður er fædd árið 1950 og er því árinu yngri. Þetta eru án efa bæði reynslumiklir stjórnmálamenn.

Hitt er annað að í stjórnmálum er nauðsynlegt að endurnýjun eigi sér stað og slíkt á ekki síst við þegar breytingar verða á stöðu flokksins. Slíkt verður ekki aðeins að vera með ungu fólki heldur líka nýju fólki sem tilbúið er til verka.

Í liðnum kosningum hlaut framsóknarflokkurinn þá verstu kosningu sem hann hefur fengið frá upphafi. Flokkurinn er auk þess komin í stjórnarandstöðu í fyrsta sinn í 12 ár. Ég tel reyndar að flokkurinn hafi ekki átt erindi í ríkisstjórnarsamstarf með sjálfstæðisflokki með slík úrslit úr kosningum. Það starf sem nauðsynlega þarf að vinna að innri málum flokksins hefur í mínum huga aldrei verið meira aðkallandi.

Þessir tveir forystumenn sem nú eru valdir til að bera kyndilinn fram að næsta flokksþingi verða ásamt Sæunni Stefánsdóttur ritara að nota tímann vel. Byggja þarf flokkinn upp til nýrrar sóknar og áhrifa.

Til þess þarf að efla mjög allt innra starf flokksins, virkja menn og konur til starfa og undirbúa jarðveg þeirra kyndilbera sem taka munu við, hverjir svo sem það verða.

Ég segi þetta með þessum hætti því það hefur ekki reynst okkur framsóknarmönnum vel að forystumenn okkar velji sjálfir eftirmenn sína. Það er verkefni almennra flokksmanna um land allt, ekki fámennrar klíku.


Reykjavíkurflugvöllur enn á ný

Og innan hvað flokks skyldi ríkja samstaða um staðsetningu vallarins? Ekki innan Framsóknarflokksins a.m.k.

Þetta er eitt af þeim málum sem snýr að svo miklu fleiri þáttum en flokkspólitískum línum. Trúi því ekki  að sátt náist um málið fyrr en tæknin kemur okkur til hjálpar með nýrri flugtækni og styttri brautum til aðflugs.

Held að menn hljóti að vera farnir að sjá að sama er hvaða flokkur er við stjórnvölin, í borg eða á þingi, niðurstaða fæst ekki um málið.

 


mbl.is Ekki eining innan Samfylkingar um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður fundur framsóknarmanna í kvöld

Var á sérstaklega skemmtilegum fundi í kvöld. Kallaður var saman valinkunnur hópur góðra framsóknarmanna til að ræða stöðu mála nú að afloknum kosningum .

Við vorum á þriðja tuginn sem voru boðuð og úr flestum kjördæmum landsins. Farið var yfir stöðu flokksins og hvað sé framundan nú þegar flokkurinn er komin í stjórnarandstöðu. Næsta sunnudag mun miðstjórnarfundur flokksins verða haldinn og töldu menn að rétt væri að ráða ráðum sínum fyrir þann fund.

Margar góðar tillögur komu fram á fundinum og fundarmenn voru sammála um að hittast reglulega á næstu mánuðum til þess að vinna áfram að þeim góðu málum sem fram komu á fundinum.

Gott að finna að enn eru til þeir framsóknarmenn, sem vilja leggja á sig vinnu til þess eins að vinna flokknum framgang.  


Vald og meðferð þess

Kjörnir fulltrúar líkt og aðrir þurfa á aðhaldi að halda. Þekkt er það að vald spilli og mikið vald gjörspilli.

Mér finnst mér þetta hið besta mál og hlakka til að sjá hvernig menn útfæra þetta á haustmánuðum. Síðan bíðum við eftir svipuð tillögum á þinginu.  


mbl.is Samþykkt að stefna að staðfestingu siðareglna borgarstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirbúningur fyrir forsætisráðherra

Hef að undanförnu verið að lesa áhugaverða bók sem gefin var út í Danmörku í fyrra.

Hún er eftir 2 danska blaðamenn, Susanne Hagelund og Peter Mose og heitir Håndbog for statsministre.Í bókinni sem skiptist í 29 kafla er farið yfir flesta þá þætti sem menn verða að hafa í huga ef þeir ætla sér að verða forsætisráðherrar í Danmörku. 

Dæmi um slíkt eru leiðbeiningar um hvað slíkur einstaklingur verður að búa yfir, umfram það að vera leiðtogi, að það eitt sé ekki nægjanlegt að hafa hlotið pólitísk uppeldi í stjórnmálalokki, að slíkt embætti snúist um miklu meira en pólitík og síðast en ekki síst að fjöldi spunameistara geri ekki útslagið. Þeir leiði menn  oft á brautir sem þeir ekki sjálfir vildu fara.

Það sem kom mér mest á óvart er hvað margt í þessari bók er hægt að staðsetja á íslenskt stjórnmál og jafnvel stjórnmálamenn.

Allir áhugamenn um stjórnmál ættu að lesa þessa bók. Hún er sannarlega þess virði, jafnvel þótt menn stefni ekki á stól forsætisráðherra.


Loksins..loksins

Þetta er hið besta mál. Aldrei áttað mig almennilega á því af hverju var ekki búið að breyta þessu mun fyrir. hagstofa Íslands er ekkert annað en ríkisstofnun og á því að vera slík.

Held að þessar breytingar allar séu af hinu góða og geri stjórnsýsluna skilvirkari.


mbl.is Hagstofu Íslands breytt úr ráðuneyti í sjálfstæða stofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ást og hatur í stjórnmálum

Að taka þátt í stjórnmálum getur oft á tíðum verið sérkennilegt. Þannig geta andstæðingar í pólitík orðið  samherjar á einni svipstundu.

Við höfum öll fylgst með því í hvernig svörnustu andstæðingar samfylkingarinnar í liði sjálfstæðismanna hafa á liðnum dögum snúist heilan hring og orðið auðmjúkir aðdáendur stefnu flokksins. Eru jafnvel  farnir að tala vel um foringjann Ingibjörgu Sólrúnu.

Þetta er allt gott og blessað og sýnir okkur hvað raunverulega skoðanir manna rista grunnt í pólitík.

Verð þó að viðurkenna að ég á svolítið erfitt með að sjá fyrir mér sameiginlega fundi þingflokksformanna nýrrar stjórnarandstöðu á þingi.

Þar sitja þau og ræða strategíu komandi þings þau Siv Friðleifsdóttir, Ögmundur Jónason og Kristinn H. Gunnarsson.  Ætli allar gamlar erjur þeirra félaga séu nú gleymdar og grafnar?


Í New York

Brá mér af landi brott í nokkra daga. Er stödd í New York fram yfir helgi í góðra manna hópi og mun gefa blogginu frí á meðan.

Á næstu vikum fer undirbúningur vegna Alþjóðaleika að ná hámarki. Þeir hefjast eftir 25 daga og margt er ógert enn. Það er því gott að safna orku fyrir þá vertíð

Fróðleikur um leikanna: http://www.icgreykjavik.is/


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband