Leita í fréttum mbl.is

Tímavél póstsins

Allt er í heiminum hverfullt. Svo er það líka með póstinn.

Í morgun kom bréfberinn með tilkynningu. Ég átti sendingu á pósthúsinu. Það gerist ekki oft. Ég varð pínulítið spennt. Kannski eitthvað óvænt.

Ég dreif mig á pósthúsið. Það var auðvitað ekki þar sem það var síðast. Hafði flutt frá síðustu heimsókn minni. Kannski ekki skrítið því langt var síðan.

Afhenti tilkynninguna. Kurteis afgreiðslustúlkan sagði mér að þessi sending kæmi ekki fyrr en á mánudag. Það stæði á tilkynningunni að hún kæmi NÆSTA virka dag. Þakkaði fyrir mig og sagðist koma seinna.

Skrítið hvernig þjónustan hjá póstinum er orðin. Þeir vita að ég fæ sendingu á mánudaginn. Áður en hún kemur. Þeir hljóta að búa yfir tækni sem ég ekki þekki.

Kannski einhverskonar tímavél sem segir þeim hvað gerist næsta virka dag. Spennandi. Og láta mig svo líka vita af því.

Bíð spennt fram á mánudag. Hvað skyldi þetta vera?


Þarf að segja meira?

Í tilefni dagsins: 

The informal slogan of the Decade of Women became

"Women do two-thirds of the world's work, receive 10 percent of the world's income and own 1 percent of the means of production."

- Richard H. Robbins, Global Problems and the Culture of Capitalism, (Allyn and Bacon, 1999), p. 354


Að halda trúverðuleikanum á milli kosninga

Núverandi meirihluti á Alþingi býr við þá góðu stöðu að hafa mikinn fjölda þingmanna á bak við sig. Af 63 þingmönnum styðja 43 ríkisstjórnina.

Það eitt gerir þessa ríkisstjórn sterkari en flestar þær sem á undan fóru. A.m.k. um langt árabil. Það gerir óbreyttum þingmönnum meirihlutans jafnframt færi á því að tala gegn samstarfsflokknum í einstökum málum. Slíkt er þannig umborið, ekki síst vegna stærðar meirihlutans.

Til lengri tíma litið halda flokkarnir þannig stöðu sinni gagnvart kjósendum. A.m.k. hafa einstaka þingmenn þannig talað fyrir stefnu flokksins í ákveðnum málum þótt flokkurinn hafi ekki getað "beitt" sér vegna afstöðu samstarfsflokksins.

Slíkt er gott fyrir stjórnmálaflokka. Hitt er verra þegar talsmenn flokkanna hætta að tala fyrir sínum stefnumálum á milli kosninga vegna þátttöku  í ríkisstjórn.

Það hafa dæmin sýnt okkur og ætti að vera öðrum flokkum víti til varnaðar. Samstarfið fer þá að skipta meira máli en stefnumál flokksins.

Sýnileiki á ólíka stefnu  flokkanna í meirihluta ætti þannig að skila flokkum meira fylgi í kosningum enn að flokkarnir tveir tali alltaf einum rómi.

Það er sá raunveruleiki sem við búum við. Raunveruleiki ríkisstjórnarsamstarfs með leyfilegum ágreiningi.  

 


mbl.is Harðari tónn í garð samstarfsflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær veislur í sömu stofu

Útskriftin í gær var um margt merkileg. Hlýtur að vera í síðasta sinn sem útskrifað verður með þessum hætti frá HÍ.

Nú þegar Kennaraháskólinn og HÍ hafa verið sameinaðir hlýtur fjöldinn að verða of mikill til þess að hægt sé að útskrifa allan þennan hóp í einu lagi.

Í Laugardalshöll voru rúmlega þúsund útskrifaðir í einu. Þar af voru rúmlega 840 sem tóku á móti skírteinum sínum. Allt þetta tekur að sjálfsögðu mjög langan tíma.

Síðan tók við ræða Rektors og ég var auðvitað mjög stolt þegar nafn sonarins var nefnt ásamt nafni annars nemenda sem líka er heyrnaskertur og var að ljúka meistaraprófi.

Síðan tók veislan við. Hún skiptist í tvennt. Þeir sem töluðu talmál og þeir sem tala táknmál. Þessir tveir hópar blandast ekki saman nema að mjög takmörku leiti. Þannig er það líka í lífinu.

Ég fékk að segja nokkur orð í upphafi sem jafnhliða voru túlkuð á táknmál. Mín færni í táknmáli er því miður ekki svo mikil að ég geti flutt ræðu með því.  

Unga fólkið sat lengst eins og venjan er. Munurinn hinsvegar að engin hávaði fylgdi þessu unga fólki.

Þótt tónlist með sterkum bassa hafa verið spiluð í lokin var ekki hávaðanum fyrir að fara. Og síðan var haldið niður í bæ eftir miðnættið.

Góðum degi var lokið.


Dómurinn sem féll

Það var árið 1984. Ég tvítug með 2 ára tvíbura.

Fannst eitthvað vera að öðrum drengnum. Ákvað að láta athuga í honum heyrnina þvert á ráðleggingar fullorðna fólksins. "það er ekkert að þessum dreng, börn eru bara misjafnlega fljót að tala"var viðkvæðið sem ég fékk þegar ég velti fyrir mér af hverju annar drengjanna segði ekkert.

Ég fór samt. Lét ekki segja mér fyrir verkum. Tveggja daga rannsóknir tóku við. Síðan stóð ég inni hjá lækninum. Ein með annan drenginn.

Þá kom dómurinn. "Hann er mikið heyrnaskertur og verður að vera með heyrnartæki alla ævi. Veit ekki hvort hann mun nokkurn tímann tala".Mér fannst allt verða svart. Leið eins og mér hefði verið tilkynnt að barnið mitt gæti aldrei gengið. Dæmt til þess að vera minnimáttar.

Mér var ekki boðið sæti. Hvað þá áfallahjálp. Send fram á gang til að panta tíma fyrir tækjamátun. Þá brast ég í grát. Stúlkurnar í afgreiðslunni hugguðu mig.

Sonurinn fór fjögra ára í heyrnleysingjaskólann og var þar til grunnskóla lauk. Talaði táknmál. Eignaðist þar frábæra vini fyrir lífstíð. Flesta alveg heyrnarlausa.

Hann lærði smátt og smátt að tala. Var með"góðar leifar" eins og sagt var. Varð tvítyngdur. Lifði í tveim heimum.

Eftir heyrnleysingjaskólann fór sonurinn í MH. Það gekk illa. Hann fór úr 38 nemenda skóla þar sem kennt var á táknmáli, í 2000 manna framhaldsskóla, næstum án undirbúnings. Sjálfstraustið var ekkert. Var ekki bara best að fara að vinna. Hann myndi aldrei ná þessu.

Við sendum hann til Bandaríkjanna sem skiptinema með AFS. Þeir fundu fjölskyldu og  heimavistaskóla fyrir heyrnarlausa. Þar efldist hann og dafnaði. Hann gat þetta alveg.

Kom heim. Kláraði MH. Fór í Háskólann. Valdi Félagsráðgjöf. Veit sjálfur að það brennur margt á í samfélaginu. Ekki síst hjá minnihlutahópunum.

Á laugardaginn útskrifast hann sem félagsráðgjafi. Þar verð ég viðstödd. Drengurinn minn sem ég hélt 1984 að væri dæmdur til þess að vera minnimáttar.

Hefur sýnt og sannað að svo er ekki. Við getum allt sem við viljum.

Ég er ótrúlega stolt af honum. Eins og börnunum mínum öllum, sem sífellt koma mér á óvart.  

 

 


Rjúpan og svo fiskurinn

Þótt enn séu 196 dagar til jóla gefur þetta von. Kannski að nú verði aftur Íslensk rjúpa í jólamatinn.

30-70% aukning á austanverðu landinu bendir þó til þess að um staðbundna fjölgun sé að ræða en aldrei að vita nema slíkt gerist líka á suður og vesturlandi.

Nú er bara að krossleggja fingur og vona að það sama verði svo upp á teningum með fiskinn í sjónum við næstu talningu.

Þá geta menn farið að taka gleði sína á ný.


mbl.is Rjúpu fjölgar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjú skref til baka aðferðin.

Setning þessa mánaðar er þrjú skref til baka. Allir eiga að taka þau, þ.a.s. í neyslunni. Við lifum á viðsjárverðum tímum.

Upplifði þetta í morgun þegar ég brá mér í Hagkaup í Garðabæ sem bauð upp á 40% afslátt af öllum vörum í dag og á morgun.

Hugsaði mér gott til glóðarinnar. Á von á fjölda gesta á laugardaginn í útskriftarveislu eins sonarins. Ætlað að kaupa sitt lítið að hverju til hátíðarhaldanna.

Sá strax að þetta var óðsmanns æði þegar að bílastæðunum kom. Hvergi hægt að leggja. Öll stæði upptekin.

Þegar inn var komið var auðvitað ekki hægt að fá neitt til þess að bera vörurnar í. Menn óku á undan sér yfirfullum vögnum af ýmsu góðgæti. Báru sumir vörurnar í yfirhöfnunum.

Kælarnir voru tómir af kjötvöru, flestir dýru vöruflokkarnir voru horfnir úr hillunum. Þó var nóg til enn í búðinni.

Náði síðasta flakinu af reyktum laxi. keypti eina góða ólífuolíu. Harðfisk. Nokkrar tegundir af servéttum og tekkolíu. Þá var fangið fullt.

Beið eftir því að komast á kassann í 45 mínútur. Maðurinn sem var á undan mér var með tvær sneisafullar kerrur af öllu mögulegu.

Hann greiddi 116 þúsund krónur fyrir sínar vörur. Hann hlýtur að eiga ótrúlega stóra fjölskyldu.

Ég borgaði 5 þúsund krónur fyrir vörur sem ég hefði kannski getað verið án.

Svona er þetta með þrjú skref til baka aðferðinni.

Allir að hamstra það sem við getum líkast til verið án. Af því það er með afslætti.

 


Vorkvöld í Reykjavík

Síðustu kvöld hafa verið ótrúlega falleg hér í Reykjavík. Þetta er sá tími ársins þegar allt er í blóma og þar er borgin ekki undanskilin.

Sama hvað öðrum finnst um einstakar byggingarframkvæmdir eða hverfi í borgarmyndinni býr borgin yfir ótrúlegum sjarma og fjölda fallegra staða og ekki síst er mannlífið hér bæði skemmtilegt og fjölbreytilegt.

Hef notið þess til ýtrasta að undanförnu að vera úti í bjartri og hlýrri nóttinni og finna borgina hljóðna.

Í gærkveldi var það góður göngutúr í Fossvogsdal og Elliðaárdal. Ólýsanleg lífsgæði að hafa slík útivistasvæði í miðri borg.

Í Elliðaárdalnum var allt í blóma, vatnaliljur í lækjunum og ilmurinn af sumrinu var ólýsanlegur.

Í kvöld var svo hjólað um nágrennið. Ilmurinn af gróðrinum, kvöldsólin og Laugardalurinn angaði.

Hvergi betra að búa en hér í Reykjavík og ég gæti ekki fyrir nokkurn mun búið annarstaðar.

Reykjavík er engu lík á góðum degi. Hér er gott að búa.


Að takast á við krefjandi verkefni

Það er um margt skrítið hvað menn hafa ólíkri sýn á það, að takast á við ný og flókin verkefni .

Sumum er það áskorun að takast á við slík verkefni meðan það virðist öðrum áhætta og ávísun á vandamál.

Þannig er það með mat manna á þeim verkefnum sem liggja fyrir Hönnu Birnu sem nýjum leiðtoga Sjálfstæðismanna í borginni.

Held að flestir séu um það sammála að Hanna Birna sé kröftugur stjórnmálamaður og menn senda henni hamingjuóskir þvert á allar pólitískar línur.

Verkefni hennar eru ærin og það veit hún án efa sjálf. Hún hefur sagst vera tilbúin til þess að takast á við þetta verkefni ef eftir því verðir leitað og nú hefur það verið gert.

Pólitískir samherjar telja hana vera vel til þess fallna að leiða Sjálfstæðisflokkinn til fyrri áhrifa í borginni, meðan að andstæðingar hennar á pólitíska litrófinu telja að verkefni hennar séu áhættusöm og erfið og ekki sé ljóst hvernig hún eigi eftir að leysa þau úr hendi.

Það er auðvitað alveg ljóst að Hanna Birna á eftir að sýna og sanna hvernig henni tekst að leysa það nýja verkefni að vera leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Hitt er annað að hún veit að þetta verkefni mun hún ekki leysa ein heldur með samstarfsmönnum sínum í borgarstjórnarhópnum.   

Hún hefur verið valin til að leiða þann hóp sem nú situr fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og þessi hópur hlýtur að hafa það sameiginlega verkefni að auka traust meðal borgarbúa á störfum borgarstjórnar og á flokkinn sem stjórnmálaafls.

Ef menn eru ekki samstíga í þeim leiðangri er óvíst með árangur, en það hlýtur að vera sameiginlegt markmið allra þeirra sem í þessum hópi sitja að taka höndum saman og skapa sátt á ný við stjórn borgarinnar.

Það er öllum til góða ekki síst okkur borgarbúum.


Má Reykjavíkurborg ekki halda kvennahlaup?

Kvennahlaupið fer fram í dag í 19.sinn. Hef oft tekið þátt en geri það ekki að þessu sinni.  Ekki síst vegna þess hve erfitt er að komast að vegna þrengsla í Garðabænum.

Hversvegna fer ekki fram kvennahlaup í Reykjavík eins og á öðrum stöðum í landinu? Laugardalurinn væri kjörin vettvangur til þess að taka á móti þeim fjölda Reykvískra kvenna sem vill taka þátt í hlaupinu.

Auk þess myndi dalurinn án efa geta líka boðið körlunum og börnum að njóta þess að dvelja í fjölskyldu og húsdýragarðinum eða í Laugadalslauginni á meðan á hlaupinu stæði. Þannig gæti fjölskyldan öll verið þátttakendur.

Nú verður hlaupið á 90 stöðum hérlendis og 20 stöðum erlendis en einhverra hluta vegna fær Reykjavíkurborg ekki leyfi til þess að standa fyrir slíkum viðburði þótt öll aðstaða sé fyrir hendi.

15 þúsund konur taka þátt nú  kvennahlaupinu en án efa myndi þeim fjölga til muna ef Reykjavíkurborg fengi leyfi til að halda úti slíku kvennahlaupi.

Hvet ÍSÍ til að halda slíkt kvennahlaup að ári í Reykjavíkurborg. Myndi án efa auka enn frekar hróður kvennahlaupsins og fá alla fjölskylduna til að taka þátt í heilsusamlegri útiveru.


mbl.is Kvennahlaup ÍSÍ hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband