Leita í fréttum mbl.is

Játningar embættismanns

Að vandlega íhuguðu máli hef ég ákveðið að taka mér frí frá bloggheimum um óákveðinn tíma.

 


Gleðigangan framundan

Fyrsta vikan í nýja starfinu lofar góðu. Verkefnin mörg og tækifærin á sama hátt endalaus. Sýnist að næstu vikur muni fara í að kafa djúpt og taka inn óhemju mikið af upplýsingunum. Koma mér vel inn í öll mál. Ekkert nema spennandi tímar framundan.

Í dag verður síðan farið í gleðigönguna með yngsta syninum. Hann hefur haft gaman af því að taka þátt og finnst þetta hluti af sumrinu í borginni. Veit að þetta er hátíðisdagur homma og lesbía.

Hann er um margt sérstakur og hefur mikinn áhuga á trúmálum. Hvaða trú menn aðhyllist og þekkir kristnifræðina og barnabiblíuna vel.  Hvaðan sá áhugi kemur vitum við foreldrar hans ekki.

Í ágúst í fyrra spurði hann mig hvað Gay pride væri. Auglýsingar um gönguna voru í öllum fjölmiðlum og hann heyrði auglýsingarnar glymja í útvarpi. 

Ég útskýrði fyrir honum að sumir menn elskuðu menn og sumar konur elskuðu konur. Þetta fólk væri að halda upp á sinn gleðidag.

Hans fyrstu viðbrögð voru að spyrja mig"hvað segir guð um það". Mér fannst þetta skrítin spurning en sagði honum að sjálfsögðu elskaði guð alla, sama hvort menn elskuðu konur eða menn. Fleira þurfti ekki að segja við hann. Málið var skýrt í hans huga.

Af þessu gefnu er rétt að setja fram þá kröfu á gleðideginum að stjórnvöld komi á einni og sömu hjónabandslöggjöf í landinu. Sama hverjum menn velja að giftast.  Körlum eða konum.

 


Ein vika eftir

Hef notið þess að eiga góða daga með yngsta syninum í heila viku. Farið í bíó, heimsóknir og gert allt það sem honum líkar best. Næsta vika verður með sama sniði.

Hann kom endurnærður heim eftir 14 daga sumarbúðadvöl í Reykjadal s.l. föstudag. Hafði varla saknað okkar. Dásamlegt fyrir alla og gerir áhyggjuleysið enn meira.

Nú er síðasta vika í fríi framundan hjá mér. Ég byrja að vinna 1.ágúst og þá taka við ný verkefni hjá öllum heimilismönnum.

Nú er verið að raða niður dögunum og undirbúa veturinn framundan. Búin að fá góðan einstakling sem ætlar að hjálpa okkur í vetur við að gera þetta allt mögulegt. Sækja og senda og taka við þegar foreldrarnir hafa ekki tíma.

Svo eru það allir hinir, afi og ömmur, bræður og frændur sem hjálpa til. Búa til netið í kringum þetta allt.  Nauðsynlegt að gera slíkar ráðstafanir þegar hlutirnir eru flóknari en gerist og gengur.

Snýr að því að skipuleggja hlutina aðeins betur og gera ráð fyrir að allt geti gerst.

Um að gera að njóta þess að vera í fríi í viku til viðbótar. Það ætlum við gera.


Þar sem góðærið ríkir?

Átti góða ferð á vestfirði í síðustu viku. Aðra ferðina á þessu sumri vestur á firði og nú voru suðurfirðirnir heimsóttir. Síðan var Flatey heimsótt á leið heim.

Höfðum aðsetur í veiðikofa við Flókalund og áttum þar góðan tíma. Þrír laxar og ein bleikja var það sem veiddist í þessari ferð þótt við héldum að við værum að á leið í bleikjuveiði. Eitthvað skrítið að gerast í ánum þessi  misserin. Menn segja að ætið í sjónum sé svo mikið og það sé ástæða fjölda laxa í ánum.

Litli vestfjarðarhringurinn var farinn. Heimsóttum Bíldudal. Þar var heimsótt safn Jóns Kr. Ólafssonar, Melódíur minninganna. Vorum leyst þar út með gjöfum í formi vínilplatna með Hauki Morteins. Ekki amalegt að fá slíkar gjafir.

Á Tálknafirði var farið í laugina. Hittum þar heimamann sem sagði að menn biðu spenntir eftir niðurstöðu um olíuhreinsunarstöð. Hann hefði sjálfur verið á móti í fyrstu en hefði snúist í afstöðu sinni.

Menn væri einfaldlega búnir að pakka niður í töskur og væru tilbúnir að fara í haust ef ekkert gerðist. Atvinnuástandið væri með þeim hætti.

Þó er atvinnuleysið minnst á Vestfjörðum. Meðalfjöldi atvinnulausra á Vestfjörðum var 18 í maí eða 0,5% af áætluðum mannafla á Vestfjörðum en var 0,6% í apríl. Á heimasíðu Verkalýðsfélags Vestfirðinga kemur fram að "Milli mánaða er breyting á atvinnuleysi lítil sem engin. Þetta er ólíkt því sem gjarnan gerist á vorin þegar árstíðabundin sveifla í efnahagslífinu veldur því að atvinnuástand batnar á þessum tíma. Á hitt ber að líta að atvinnuástandið hefur verið gott síðustu misseri og vart við því að búast að það batni í sumar og líklegt að það versni er kemur fram á haust. Dregið hefur úr fjölgun starfa og víða hefur verið tilkynnt um uppsagnir."

Nokkuð ljóst að annaðhvort er kreppan umtalaða að láta á sér kræla á landsbyggðinni líka eða að góðærið kom aldrei þangað. Eða kannski er þetta bara staðan á suðurfjörðunum.

Patreksfjörður var líka heimsóttur og byggðasafnið að Hnjóti. Byggðasafnið var ótrúlega fróðlegt og fengum við leiðsögn frá safnstjóranum á staðnum yfir hluta safnsins.

Á heimleiðinni var farið með Baldri í Flatey og gist þar í tvær nætur. Aldrei komið í Flatey áður. Kom skemmtilega á óvart. Hótelið yndislegt og maturinn allur matreiddur til frá grunni. Fiskur úr Breiðafirðinum stórkostlegur og súpurnar voru ótrúlega gómsætar.

Ekki í síðasta sinn sem þessi góði staður verður heimsóttur. Heyrðist varla nokkur krepputal þar.

Nú er bara að sjá hvert framhaldið verður í haust. Halda menn áfram um að tala um staðbundna kreppu á höfuðborgarsvæðinu eða færist hún víðar um landið.

Kannski er raunin bara sú að góðærið kom aldrei til sumra.


Á tímamótum

Í gær urðu tímamót í mínu lífi. Mér var boðið starf mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar, sem ég að sjálfsögðu þáði.

Það ætti ekki að koma þeim á óvart sem mig þekkja að mannréttindi allra hópa samfélagsins hafi lengi verið mér hugleikin. Því ákvað ég að sækja um þetta starf.

Ég sótti um starfið ásamt á þriðja tug annarra umsækjanda og hafði verið boðuð tvisvar í viðtal vegna umsóknar minnar. Það kom mér samt þægilega á óvart að vera boðið starfið. Veit að margir hæfir sóttu um. Svona kemur lífið sjálft manni stundum á óvart.

Nú stend ég á tímamótum. Verð embættismaður frá og með næstu mánuðum, ef allt gengur eftir. Það hefur breytingar í för með sér. Sumu verður að sleppa og taka á móti öðru.

Ég þarf nú að skoða vel þau nefndar -og stjórnarstörf sem ég hef verið að sinna og hvort þau geti rekist á starf mitt sem mannréttindastjóri borgarinnar. Þar er nauðsynlegt að öllu sé velt upp þannig að líkur á hagsmunaárekstrum minnki eins og kostur er.

Eins er það með bloggið mitt sem ég hef  haft ánægju af að halda úti á liðnum árum. Þar hef ég getað skrifað hugleiðingar mínar án þess að vera neinum háð. Nú breytast þær forsendur líka. Ég þarf að fara vandlega yfir það hvort það geti samrýmst nýju starfssviði að blogga með þeim hætti sem ég hef gert. Kannski mun ég hætta þessum skrifum mínum nú á þessum vettvangi.

Næstu dagar munu því fara í að skoða þetta ásamt þess að njóta sumarsins. Brátt tekur síðan alvaran við.


14. daga frí

Nú er 14 daga sumarbúðadvöl framundan. Ekki þó hjá mér heldur hjá yngsta syninum. Hann er á leið í Reykjadal í dag, föstudag. Verður þar í heilar tvær vikur.

Þetta er sá tími ársins sem ég er næstum áhyggjulaus. Þegar hann er í Reykjadal. Veit að hann er í góðum höndum og skemmtir sér vel með góðum vinum.

Reyni því að nota þennan tíma í að njóta samvista við eiginmanninn og gera það sem okkur finnst  gaman. Að njóta landsins.

Þótt hann auðvitað sakni okkar foreldrana er það ekki alvarlegt. Sundferðir a.m.k. tvisvar á dag og trampólínhopp með góðum félögum yfirvinnur þann söknuð.

Næstu tvær vikur verða því að mestu blogglausar. Silungsveiði og ferðir um landið liggur fyrir á næstu dögum í annars afslöppuðu fríi.

 


300 þúsund af 20 milljónum

Í gær voru stimpilgjöld vegna lána til fasteignakaupa á fyrstu eign afnumin. Veit ekki hvort áhrif á fasteignamarkaðinn verða mikil við þessa breytingu.

Þessi aðgerð var gerð til þess að auðvelda ungu fólk að kaupa sína fyrstu fasteign. Ekki síst vegna ástandsins á fasteignamarkaði. Þótt þetta sé jákvæð breyting mun hún varla gera útslagið fyrir ungt fólk í leit að fasteign til kaupa.

Reikna má með að þetta lækki kostnað við fasteignakaup um 250-300 þúsund ef keypt er eign í verðflokknum 15-25 milljónir.

Við kaup á fyrstu eign er hægt að fá að hámarki 80% lánað frá íbúðarlánasjóði. Samkvæmt bráðabirgðamati er gert ráð fyrir að með 3.5 milljónir í eigið fé og með 200 þúsund króna greiðslugetu á mánuði geti viðkomandi fengið lánað 14 milljónir og keypt eign að hámarki 17,5 milljónir.

Áfram verða öll önnur skuldabréfaviðskipti með stimpilgjöldum hvort sem um veðskuldir og aðrir tegundir skuldabréfa.

Ungt fólk, jafnvel nýkomið úr námi og með námslán á bakinu, á ekki auðvelt verk fyrir höndum. Lágmark er að eiga rúmleg þrjár milljónir í eigið fé ef mögulegt er að kaupa slíka eign. Nema að góðviljaðir ættingjar láni veð fyrir aukinni lántöku.

Leigumarkaðurinn er ekki fýsilegur heldur. 100-150 þúsund er leiguverð fyrir 2 herbergja íbúðir nema menn sé þess heppnari.

Staðan virðist einfaldlega vera sú að ungt fólk kemst ekki yfir eigið húsnæði nema eiga sterka bakhjarla eða fara út á leigumarkaðinn með litla sem enga von um að komast þaðan aftur.

Leita verður annarra leiða til að hjálpa ungu fólki til að kaup sitt fyrst húsnæði. Lágmarkið er að fella öll stimpilgjöld niður við slík kaup, sama  hvaða skuldabréfaviðskipti eiga í hlut.

Það verður að gera ungu fólki kleyft að koma þaki yfir höfuðið. Það þarf einfaldlega meira til.

p.s. Hvað varð annars um skyldusparnaðarkerfið sem öllum var gert að greiða í. Gæti slíkt kerfi ekki verið leið til að gera ungu fólki auðveldara fyrir að eignast eigið húsnæði?

 


Vestur og aftur suður

Komin aftur í borgina fyrr en ætlað var. Þurfti á fund sem ekki var hægt að fresta og því var keyrt suður í morgun. Svona er þetta stundum. Ekki hægt að láta bíða eftir sér.

Ferðin vestur var bara yndisleg og mér tókst næstum að gera allt sem ætlað var. Þó ekki alveg allt.  Sumt bíður betri tíma.

Ég fór í afmælið í Súðavík. Tvisvar sinnum með hóp af "boðflennum". Þar var öllum tekið opnum örmum og allir skemmtu sér vel.  Afmælið sjálft var engu líkt og afmælisbarninu til mikils sóma. Bæði jólasveinninn og Eiríkur Fjalar voru mættir auk annarra minni spámanna. Einlægnin í fyrirrúmi og borð svignuðu af veitingum. Dansað fram yfir miðnætti.

Farið tvisvar í Bolungarvík. Ósvör og Finnbogi heimsótt. Mjölnir og bræðurnir þar líka. Hlaðborð í garðinum á Hóli og síðan kjötsúpa í seinni heimsókninni. Farið í sundlaugina og nýja rennibrautin prófuð.

Sjóstangaveiðin varð ekki í þetta skiptið, því miður. Veðrið hamlaði. Heimsóknir í Dýrafjörðin í staðinn og kaffi á Hótelinu á Þingeyri. Ættingjar heimsótti á sunnudag. Hrefnukjötið klikkaði ekki frekar en fyrri daginn. Bestu þökk fyrir.

Eftir stendur líka frábær matur í Tjöruhúsinu. Sá frábæri veitingastaður var heimsóttur tvisvar. Kolinn, steiktur í smjöri er betri en nokkuð annað. Plokkfiskurinn og skötuselurinn lítið síðri. Rabbabaragrautur með rjóma í eftirrétt. Fær bestu einkunn okkar allra sem í ferðinni voru.

Eitthvað skorti hinsvegar á matagerðina í Edinborgarhúsinu. Kokkurinn var víst í fríi þegar sá staður var heimsóttur en það gleymdist að láta okkur vita af því.  Við hinsvegar létum vita af óánægju okkar með veitingarnar.

Á leiðinni suður sáum við Örn á flugi. Langt síðan ég hef séð þá sjón. Hlýtur að boða gott.

Hef að minnsta kosti þá trú eftir góða ferð vestur. Að allt fari nú á réttan veg.


Frá Reykjavík en samt að vestan

Nú skal haldið vestur á firði. Þaðan sem allt gott er komið. Eða svo var mér alltaf sagt.

Ég lærði það fljótt á minni ævi að ekkert alvöru fólk kemur frá Reykjavík. Þaðan er enginn ættaður. Allir eiga ættir sínar lengra að rekja.

Gaflarar verða til ef menn fæðast í Hafnarfirði en það sama virðist ekki vera um Reykvíkinga. Þeir koma víst allir frá öðrum stöðum. Sama þótt þeir hafi búið allt sitt líf í borginni.

Líklega leifar af þeim þankagangi Þegar menn töldu að allt slæmt kæmi frá kaupstöðum landsins. Í sveitinni væri allt betra og menningin blómlegri. Held varla að lífið sé svo einfalt. Allt hefur sína kosti og galla.

Ég kem að vestan í móðurætt. Frá Suðurlandinu í föðurætt. Hef þó hitt Þá fleiri í gegnum lífið sem vilja tala um vestfirska genið. Hef því frekar notað það, þegar ég kynni ættir mínar. Nema auðvitað að ég sé stödd á Suðurlandinu.

Nú skal haldið vestur. Í afmæli hjá góðum vin á Súðavík. Í kjötsúpu á Bolungarvík og sjóstöng á Suðureyri. Haldið til á Ísafirði.

Vinir og ættingjar heimsóttir. Kaffi og með því á öllum stöðum og  helstu fréttir fengnar.

Mikið hlakkar mig til. Fæ án efa orku frá galdramönnum fyrir vestan.


Lífið án frétta

Helgin leið án þess að ég hafi haft tíma til þess að skoða póstinn, lesa fréttir eða blogga. Vonandi til marks um að ég get lifað góða daga án þess að komast í tölvu.

Hef reyndar haft það oftar og oftar á tilfinningunni að undanförnu að ég sé illa haldinn af tölvufíkn. Eða kannski fréttafíkn. Ég þarf helst að heyra fréttir oft á dag og án þeirra finnst mér eitthvað vanta.

Síðustu mánuðir hér við tölvuna hafa haft þessar hliðarverkanir í för með sér.

Veit að þetta er ekki gott og var því fegin í morgun þegar ég áttaði mig á því að ég hafði ekkert farið í tölvuna síðan á föstudag eða lesið blöðin. Helgin var einfaldlega allt of annasöm fyrir slíkt.

Á laugardag var verið allan daginn í laugardalnum í góðum hópi. Notið dagsins og fylgst með úr fjarlægð glæsilegum sigri í kvennaboltanum. Dagurinn endaði síðan í Hafnarfirði þar sem hlustað var á afmælistónleika MND félagsins.

Á sunnudag Viðey heimsótt í góðum félagskap og frábæru veðri. Farið með yngsta soninn og nýjan félaga hans í bíó í lok dags og síðan í heimsókn til nýja félagans á Álftanesið. Dýrmætt að eignast vini Þegar félagsfærnin er ekki mikil og slíku tekið opnum örmum.

Í dag tekur síðan síðan við undirbúningur vegna vestfjarðarferðar sem byrjar á miðvikudag.

Kannski ágætt þegar gúrkan fer að ná yfirhöndinni í fréttaflutningi og sumarið sýnir sínar bestu hliðar.

 


Næsta síða »

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband