Leita í fréttum mbl.is

4 milljónir til höfuðs verðbólgudraugnum

Síðustu dagar hafa verið eintóm sæla. Hef notið alls þess góða sem Florence bauð upp á. Félagskapurinn var síðan aukaleg ánægja til að toppa þetta allt sama. Er strax farin að hlakka til næstu ferðar að ári.

Ólíkt flestum öðrum ferðum var ekki bloggað á meðan á ferð stóð. Leit ekki einu sinni á netið, skoðaði engar fréttarsíður og lét dagana renna saman í eintómu flæði hugans. Gott fyrir andann að láta sig flæða öðru hverju með þessum hætti.

En svo tekur alvaran við. Allt virðist vera hér á landi á hraðri leið niður á við. Slíkt var að minnsta kosti upplifunin eftir að lesnar voru fréttir síðustu daga.

Fréttir gærkvöldsins fjölluðu um gasnotkun og óeirðir sem átt höfðu sér stað meðan á ferðalagi mínu stóð og einnig að verðbólgudrauginn væri vaknaður aftur til lífsins. Hrun væri væntanlegt á fasteignamarkaði og samningar væru líka í hættu. Einhverjir höfðu víst haft það á orði að nú skyldi ríkistjórnin segja af sér.

Er farinn að hafa það sterklega á tilfinningunni að við Íslendingar verðum fljótlega, með áframhaldandi samskonar fréttaflutningi, farnir að líkjast þunglyndis sjúklingi sem ekkert sér, nema svartnættið framundan.

Og þá kom ráðherra viðskipta með lausn vandans. Nú á að grípa til aðgerða og koma í veg fyrir að óðaverðbólga taki völdin.

Það á sem sagt að leggja heilar 4 milljónir í verkefni til þess að auka verðvitund okkar neytenda.

Í fréttatilkynningunni segir m.a. "Sökum lækkunar á gengi íslensku krónunnar og hækkunar hrávöruverðs á alþjóðlegum mörkuðum hefur skapast nokkur þrýstingur til hækkunar verðlags. Nauðsynlegt er að gripið verði til víðtækra aðgerða til að stemma stigu við þessari þróun og draga úr hraða verðbólgu næstu misseri. Hefur viðskiptaráðuneytið farið ítarlega yfir þá þætti sem undir ráðuneytið heyra.

Af þessu tilefni hefur viðskiptaráðherra fundað með fulltrúum hagsmunahópa neytenda og launþega; Neytendasamtökunum, Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og fulltrúum verslunarfyrirtækja og birgja; Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi stórkaupmanna og Samtökum atvinnulífsins; sem og Neytendastofu. Á fundunum kom fram fjöldi gagnlegra ábendinga um skynsamlegar aðgerðir við núgildandi aðstæður.

Að teknu tilliti til sjónarmiða ofangreindra aðila samþykktir ríkisstjórnin að tillögu viðskiptaráðherra að farið verði í eftirfarandi aðgerðir og leggur ríkisstjórnin 4 milljónir króna til þessara verkefna." fimm verkefni eru síðan tilgreind sem leiðir til að leysa vandann.

Svo mörg voru þau orð, 4 milljónir í verkefni til að lækka vöruverð. Skyldi þetta verkefni gera mikið fyrir okkur neytendur.

Starfshópar, kynningarátak, samstarf, eftirlit, sektir og átak eru orð sem fram koma í verkum sem leggja á í.

Það verður fróðlegt að sjá hvað þetta verkefni mun skila miklu í vasa neytenda. Hef ekki mikla trú á slíku þegar menn leggja svo illa búnir af stað.

Þessi upphæð dugar varla nema fyrir broti af því mikla starfi sem vinna þarf til þess að bæta stöðu þessa málaflokks. Betra heima setið en af stað farið, á við í þessu tilfelli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband