Leita í fréttum mbl.is

Reykjavík eitt kjördæmi

Ánægð með frumvarp sem Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingar, hefur lagt fram á Alþingi.

Þar er lagt til að skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi sé feld úr gildi og borgin verði aftur gerð að einu kjördæmi.

Það að búa í sveitarfélagi sem eru tvö kjördæmi þegar kosið er til Alþingis er aðeins til að flækja málin en frekar fyrir almenningi. Í 1.grein frumvarpsins kemur m.a. fram að Kjördæmaskipun skal ávallt þannig háttað að allir íbúar sveitarfélags séu í sama kjördæmi.

Merkilegast finnst mér, ef rétt er, að rökin fyrir skiptingunni sé aðeins vegna hagræðis vegna útreikninga en enginn önnur rök liggi þar að baki.

Þegar þessi breytingar voru gerðar á kjördæmaskiptingu landsins árið 1999/2000 urðu um það miklar umræður í samfélaginu.

Mikil óánægja var meðal félaga í framsóknarfélögunum í Reykjavík vegna þessa og málið ósjaldan tekið upp á fundum með þingmönnum flokksins. Félagsmönnum flokksins var sagt að ekki væri mögulegt að koma á neinum breytingum vegna kjördæmisskiptingarinnar. Skipta yrði Reykjavík upp í tvö kjördæmi og fyrir því lægju margar flóknar ástæður vegna útreikninga og fjölda þingmanna. Það væri ekki einu ástæðu þess að breyta þyrfti kjördæmisskipan.

Nú er bara að vona að þingmenn Reykjavíkur, allir sem einn, hvar sem þeir eru í flokki standi á bak við þetta frumvarp.

Greinagerð með fumvarpinu er eftirfarandi:


Með þessu frumvarpi er lagt til afnám kjördæmaskiptingar í Reykjavík.
Við breytingar á skipan kosninga til alþingis um aldamótin (með stjórnarskrárbreytingu, lögum nr. 77/1999, og kosningalögum, nr. 24/2000), þegar kjördæmum var fækkað í sex, var ákveðið að skipa kjósendum í Reykjavík í tvö kjördæmi og sett á fót kjördæmin Reykjavíkurkjördæmi suður og Reykjavíkurkjördæmi norður. Mörk þessara kjördæma eru ekki ákvörðuð í kosningalögum þar sem kveðið er á um mörk annarra kjördæma heldur er landskjörstjórn falið að ákveða þau hverju sinni.
    Á sínum tíma voru þau rök helst færð fyrir því að skipta Reykjavík í tvö kjördæmi að þannig yrðu þingmannahópar kjördæmanna sex svipaðir að stærð og því hentugar einingar við útreikning í kosningakerfinu sem upp var tekið.
    Reykvíkingar og fulltrúar þeirra mótmæltu því að sveitarfélaginu væri skipt í tvö kjördæmi í fyrsta sinn í lýðræðissögu Íslendinga (sjá m.a. samþykkt borgarráðs 26. janúar 1999 og 25. apríl 2000). Andstaða við kjördæmaskiptinguna varð þó minni en vert væri vegna þess að í breytingunum í heild fólust þær réttarbætur fyrir Reykvíkinga og aðra íbúa á höfuðborgarsvæðinu að nokkuð var dregið úr misvægi atkvæða, samanber ákvæði kosningalaganna um helmingsmun við rásmark nýja kerfisins, og íbúar höfuðborgarsvæðisins, rúmlega þrír fimmtu landsmanna, kusu í fyrsta sinn meiri hluta þingmanna, 33 af 63.
    Skemmst er frá að segja að í Reykjavík skilur ekki nokkur maður af hverju sveitarfélagið þarf að skiptast í tvö kjördæmi við alþingiskosningar. Kjördæmaskiptingin hefur á hinn bóginn aukið vanda við lýðræðisstarfsemi í höfuðborg Íslendinga.
    Reykvíkingar hafa ekki myndað nein sérstök tengsl við „sína“ þingmenn umfram þingmenn í hinu borgarkjördæminu. Stjórnmálasamtök í borginni skipuleggja grunneiningar sínar eins og um eitt kjördæmi væri að ræða. Einu samtökin sem greindu félagsstarf sitt í Reykjavík eftir nýju kjördæmunum, Framsóknarflokkurinn, hafa sameinað kjördæmasambönd sín í höfuðborginni. Á Alþingi kemur kjördæmaskiptingin ekki fram í störfum þingmanna Reykjavíkur. Þingmannahópar kjördæmanna tveggja hafa aldrei fundað hvor í sínu lagi eða haft með sér nokkurn félagsskap, og má raunar færa að því rök að við kjördæmabreytinguna hafi heldur dregið úr samstarfi Reykjavíkurþingmanna.
    Íbúar í einstökum hverfum hafa í hvorumtveggja þeim kosningum sem háðar hafa verið eftir nýja kerfinu þurft að bíða fram á síðustu vikur kosningabaráttunnar eftir úrskurði um það í hvoru kjördæminu þeir skuli kjósa. Við kosningarnar árið 2003 voru mörk kjördæmanna tveggja miðuð við Hringbraut–Miklubraut–Vesturlandsveg. Íbúum Grafarholtshverfis, sem er sunnan þessarar brautar, var þó skipað í norðurkjördæmið. Vorið 2007 brá hins vegar svo við að kjördæmamörk voru dregin þvert um Grafarholtið. Búast má við frekara hringli með kjördæmamörk í hverfum Reykjavíkur haldi núverandi skipan velli. Í kosningunum vorið 2003 olli kjördæmaskiptingin þeim mistökum að úrskurða varð atkvæði gild sem greidd voru í öðru kjördæmi en greiðendurnir tilheyrðu, þegar íbúar á Framnesvegi sunnan Hringbrautar greiddu atkvæði á sama kjörstað og nágrannar þeirra á Framnesvegi norðan Hringbrautar. Kjördæmaskiptingin í Reykjavík hefur einnig valdið þeim vandkvæðum við val manna á framboðslista að erfitt er að láta vilja kjósenda í prófkjöri um gengi einstakra frambjóðenda endurspeglast í kosningaúrslitum. Bæði 2003 og 2007 gerðist það að frambjóðandi sem ekki náði kjöri hafði fengið meiri stuðning í prófkjöri flokks síns en frambjóðandi sem náði kjöri á lista flokksins í hinu borgarkjördæminu.
    Skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi flækir leikreglur lýðræðisins fyrir kjósendum og veldur þeim óþægindum. Kjördæmaskiptingin hefur þyngt róðurinn við stjórnmálastarf í borginni, aukið vanda við framkvæmd kosninga, spillt vali á framboðslista og torveldað samráð með fulltrúum Reykvíkinga á þingi. Nauðsynlegt er því að gera höfuðborgina að nýju að einu kjördæmi við alþingiskosningar.
    Kjördæmi eru nú ákveðin bæði í stjórnarskrá og sérlögum. Fjöldi þeirra er tiltekinn í stjórnarskrá, „fæst sex en flest sjö“, og þar segir einnig að landskjörstjórn geti ákveðið kjördæmamörk í Reykjavík. Í kosningalögum er síðan kveðið á um skiptingu kjördæmanna og þingmannatölu þeirra. Þótt hugsanlegt sé að knýja fram sameiningu kjördæmanna í Reykjavík með breytingum á kosningalögum – þá með því að bæta við kjördæmi utan höfuðborgarinnar! – er náttúrlegra að breyta þessum ákvæðum í stjórnarskrá. Það er í samræmi við eðli og orðalag stjórnarskipunarlaga að gera það með grundvallarreglu sem varðar grundvöll lýðræðisskipunar og mannréttinda á landinu, nefnilega að mörk sveitarfélaga séu virt við skipan kosninga til Alþingis Íslendinga.
    Í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga er ekki gerð tillaga um breytingar á almennum lögum en eðli málsins samkvæmt yrði að setja ný kosningalög að þessu frumvarpi samþykktu. Minnsta hugsanleg breyting frá núverandi skipan er sú að Reykjavíkurkjördæmi norður og suður yrði sameinuð í eitt, sem þá hefði átján kjördæmissæti og fjögur jöfnunarsæti. Hlutfallsákvæði kosningalaga mætti þá t.d. orða þannig að ekkert kjördæmanna utan Reykjavíkur hefði færri kjósendur en nemur fullum þriðjungi kjósenda í Reykjavíkurkjördæmi en ekki fleiri en næmi tveimur þriðju af þeirri kjósendatölu. Nú kann mönnum að þykja það spilla einhvers konar innra jafnvægi kosningakerfisins að eitt kjördæmanna sé helmingi stærra en hvert hinna, svo sem vegna lágmarksfylgis til að koma að manni í kjördæmi, og virðist þá hægur vandi að bregðast við því með sérákvæði í kosningalögum án þess að ganga á hlut Reykvíkinga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband