Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Landspítali

Hið besta mál. Orðið Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut er það versta orðskrípi sem lengi hefur komið fram. Virkilegur tungubrjótur sem fæstir notuðu.

Hið opinbera getur líka gert mistök og gott að slík mistök séu leiðrétt.


mbl.is Landspítalinn háskólasjúkrahús verður Landspítali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að virða skoðanir annarra

Tel mig nokkuð fordómalaus manneskju. Veit sem von er, að fólk er mismunandi, og hef fullann skilning á því. Veit líka að allir þeir þættir sem koma að mótun einstaklings hafa áhrif á það hvernig fólk kemur fram við náungan og því er oft erfitt að breyta hegðun eða skoðunum manna. 

Ég hef reynt í gegnum lífið að setja mig í spor annarra áður en ég set mig í dómarasætið. Þó ekki án undantekninga.

Sumar skoðanir á ég þó erfiðara með að skilja og umbera og þar eru það helst fordómar gagnvart hópum innan samfélagsins. Sama hvort um minnihlutahópa er að ræða eða ekki.

Auðvitað er ekki hægt að setja alla þá einstaklinga sem undir slíka hópa falla undir sama hatt. Þar koma að óteljandi aðrir þætti að og ólíkir mótundþættir hvers og eins.

Allir útlendingar eru ekki eins, ekki allir samkynhneigðir, ekki allir vinstri grænir eða allir unglingar. Hóparnir innifela allir ótrúlega flóru einstaklinga. 

Á síðustu dögum hef ég rekið augun í pistla á netinu sem innifela slíka fordóma  gagnvart framsóknarflokknum og jafnvel gagnvart öllum þeim einstaklingum sem honum tilheyra.

Þessir pistlar eiga það sammerkt að höfundar þeirra telja allt það sem flokkurinn hefur gert sé afar slæmt. Jafnvel eiga pistlahöfundar það til að nafngreina einstaklinga sem tilheyra flokknum og telja þeim allt til foráttu. Og setja síðan alla flokksmenn undir sama hatt.

Ótrúleg óvild hlýtur að liggja að baki þegar slíkar fullyrðingar eru settar fram. Veit svei mér ekki hvort það er vegna þekkingarleysis eða einhvers annars þegar slíkt skrif eru sett fram

Framsóknarflokkurinn er elsti stjórnmálaflokkur landsins og á uppruna sinn í rótum þess samfélags sem við byggjum í dag. Hann er flokkur sem byggður er upp á gildum samvinnu og jafnaðar og slík hugmyndafræði á fullt erindi í stjórnmálin í dag.   

Án efa hefur framsóknarflokkurinn í sinni 90 ára sögu staðið að verkum sem sem eru umdeild. Jafnvel geta sumar ákvarðanir í stjórnartíð hans hafa verið slæmar. Það sama gildir að öllum líkindum um alla flokka sem starfað hafa í stjórnmálum. Sagan dæmir best þau verk sem flokkar vinna og án efa hefur framsóknarflokkurinn komið ótal mörgum góðum málum í verk.

Ég er ekki einlægasti aðdáandi vinstri græna en veit þó að innan þess flokks eru einstaklingar sem ég á mikið sameiginlegt með. Margt af því hið besta fólk. Það sama á við um alla stjórnmálaflokka, innan þeirra er gott fólk sem gott er að eiga að vinum.

Virðum skoðanir annarra og hættum að fella dóma yfir fólki á þessum nótum. Tökumst frekar á um málefninn sjálf.


Tyrkland á krossgötum

Ekki jákvætt fyrir lýðræðið í Tyrklandi að Gul hafi verið kjörinn í þetta embætti. Hef enga trú á því að hann hafi þjóðina á bak við sig og ekki stendur herinn á bak við hann.

Mun án efa verða til þess að auka óróa í landinu og styttir ekki leið Tyrkja í átt að aðild að ESB.


mbl.is Abdullah Gül kjörinn forseti Tyrklands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveitarstjórn eða þing

Prófið í stjórnsýsluréttinum var í gær. Er orðin uppfull af vitneskju um stjórnsýslulögin, upplýsingalögin og allt það sem kemur að stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Verkefnin sem lögð voru fyrir voru ólík en öll nokkuð skemmtileg. Páll Hreinsson sem kenndi þennan áfanga er óhemju fróður og skemmtilegur kennari. Hafði gaman þegar hann afhjúpaði veika og vanhæfa stjórnsýsluna oft á tíðum.

Það sem kemur kannski mest á óvart er hvað stjórnsýsla sveitarfélaga er oft á brauðfótum og hvað vanhæfni kemur þar oft að.  Erfitt að taka mál fyrir í minni sveitarfélögum þar sem skyldleikinn er meiri og nándin mikil.

Ljóst að það er mikilvægt fyrir sveitarstjórnir að setja sér einhverskonar siðareglur þegar kemur að vinnubrögðum innan stjórnsýslunnar. Minnir að slík vinna sé nú þegar í gangi hjá Reykjavíkurborg og bíð spennt eftir að sjá útkomuna.

Annars hlustaði ég á röksemdarfærslu nýs félagsmálaráðherra í Kastljósinu í vikunni fyrir því að sveitarfélög ætti ekki að fá hlut í fjármagnstekjuskattinum. Áttaði mig ekki alveg á því hvert hún var að fara þegar hún fór að bera saman mismunandi meðaltal sem hvert sveitarfélag fengi.

Hlýtur að snúast um það að í sumum sveitarfélögum greiða fleiri fjármagnstekjuskatt en í öðrum. Ef slíkt á við verður það sveitarfélag af meiri útsvartekjum en önnur. Finnst þetta ekki sterk rök í málinu að allir fái ekki jafnt.

Held að það sé ekki sama úr hvaða umhverfi menn koma á þing hvaða skoðun þeir hafa á málinu. Þannig virðast fyrrverandi sveitarstjórnarmenn sem nú sitja á þingi hafa skilning á því að sveitarfélög þurfi hlutdeild í fjármagnstekjuskattinum. Þvert á allar flokkslínur.

Nú er bara að sjá að menn vinni þannig á þinginu en gleymi ekki uppruna sínum sem sveitarstjórnarmenn.  


Draumaferð

Fór í önnur spor en venjulega síðustu daga. Upplifði dagana líkt og barn og takturinn varð allur annar. Hafði ótrúlega gaman af.

 

Ég á um  margt einstakan son sem er 10 ára gamall. Hann hefur að mörgu leiti önnur áhugasvið en önnur börn og hefur ekki félagslegan þroska á við jafnaldrana. Honum lgengur betur að tala við sér eldri og nýtur sín vel þannig. Hann á því ekki félaga á sama reki nema í mjög takmörkuðu mæli.

 

Sumarið hjá honum er því um margt með öðrum hætti en hjá öðrum börnum. Hann fer ekki út nema í fylgd fullorðinna og þess utan er honum frekar illa við flugur og önnur skordýr sem vakna til lífsins á sumrin. Hann kýs því frekar vera innan dyra. Félagarnir úr skólanum halda út í sumarið í útileiki og hjólatúra en hann eyðir dögunum með öðrum hætti.

 

Hann fór reyndar í sumarbúðir í 14 daga í Reykjadal í Mosfellsdal og það var í raun hápunktur sumarsins. Ótrúlegt starfsfólk þar sem hugsar vel um þessa krakka sem flest eru með sérþarfir. Að öðru leiti hefur hann verið meira og minna með mér í sumarfríinu og við bæði orðin óþreyjufull eftir skólabyrjun.

 

Því var ákveðið að við foreldrar hans færu með hann um síðustu helgi til Kaupmannahafnar og myndum leyfa honum að hafa ferðina að sínum hætti.

 

Fimm dagar fóru í ferðalagið og á þrem af þeim var eitt í skemmtigörðum. Við fórum með lest og heimsóttum Legoland, við eyddum degi í Bakken og heill dagur fór í Tívolí. Við fórum í þrívíddar bíó og meira að segja eitt fimmvíddar. Við fórum á fjöldann af söfnum um allan bæ sem hann hafði fundið á netinu.

 

Við borðuðum pizzur og ís, hamborgara og ís og pylsur og ís til skiptist. Við eyddum ómældum tíma í leikfangabúðum og ýmsum skrítnum búðum sem við fundum

 

Við horfðum á barnaefni kvölds og morgna og lásum teiknimyndablöð. Við vorum alltaf sofnuð löngu fyrir miðnætti.

 

Þetta var draumaferð fyrir okkur öll.

 

Nú býður mín að útbúa bók um ferðalagið okkar. Hann vill eiga minningar þegar hann verður eldri og hefur svolitlar áhyggjur af því að við foreldrarnir verðum þá búin að gleyma þessu öllu.

 

 


Tökum upp ný vinnubrögð

Sumarið hefur verið með besta móti og í mínum huga endalaust sólskin. Nú er hinsvegar alvara lífsins farin að gera vart við sig. Síðasta helgin framundan áður en grunnskólinn hefst. Reykvískir grunnskólar hefjast þann 22 ágúst og sama dag fer ég í próf í stjórnsýslurétti.

 

Um margt sérstakt sumar fyrir okkur framsóknarmenn þó að ég telji nú ekki að við séum dauð úr öllum æðum eins og Stakksteinar Morgunblaðsins ýjuðu að í liðinni viku.

 

Flokkstarfið er auðvitað alltaf með öðrum blæ yfir sumartímann og ekkert óeðlilegt við það. Forystumenn flokksins hafa án efa notað tækifærið og tekið sér gott frí eftir samfelda12 ára ríkisstjórnarsetu. Starfið í stjórnarandstöðu, þegar þing verður síðan sett á ný, mun líka verða hörku vinna fyrir okkar fólk.

 

Hef heyrt í mörgum framsóknarmönnum sem bíða með óþreyju haustsins og þess að flokkstarfið fari af stað að nýju. Margir vona að nú verði farið í að byggja frekar upp innra starf flokksins og vinnubrögðin verði í þá veru að fólk sækist í auknu mæli eftir því að starfa með okkur. Það er eitt af því sem ég tel að verði að gerast.

 

Ég hélt  í einfeldni minni að nú þegar Framsóknarflokkurinn væri komin í sögulegt lágmark að allt okkar fólk myndi leggjast á eitt til að skapa liðsheild innan flokks. Þá myndu menn vanda sig í vinnubrögðum innan stjórna og ráða. En ekki virðist sú von mín vera að rætast.

 

Landsamband framsóknarkvenna fagnaði nú nýverið 25 ára afmæli sínu og gaf út bók í tilefni þessara tímamóta. LFK hefur lyfti grettistaki í jafnréttismálum innan framsóknarflokksins á liðnum árum og ber því að fagna. Í gegnum bókina alla fer eins og rauður þráður að konur séu ekki eins og karlar og því verði þær að vera sýnilegar í stjórnmálum eins og annars staðar í samfélaginu öllu.  Mér hefur persónulega alltaf þótt konur í stjórnmálum spila á öðrum nótum en karlar.

 

Ég hlakkaði því mikið til að taka þátt í þingi LFK, hitta góðar konur og ræða stjórnmálin og stöðu kvenna innan flokksins. Í dag, mánudaginn 13.ágúst, berst mér tilkynning í vefpósti um að þingið verði haldið n.k. laugardag og muni standa heila sjö tíma. Auðvitað með tilheyrandi kaffi og marhléum. Umræða um mál sem verða lögð fyrir þingið eiga m.a. að taka heilar 20 mínútur. Sé á vef LFK að þar hefur verið sett með löglegum fyrirvara auglýsing um þingið, en veit ekki hversu margir skoða þann vef sem sjaldan er uppfærður.

 

Nú er ég alveg lens. Landsamband framsóknarkvenna boðað til þings í Reykjavík á sama tíma og Reykjavíkurborg kallar fjölskyldurnar saman til menningarhátíðar.

Þennan dag sem fjölskyldurnar flykkjast saman í miðborginna til að sýna sig og sjá aðra. Ég og mínir höfðu meðal annars hug á að fara í siglingu um Ægisgarð kl. 12.00, skoða Kvennaslóðir hjá UNIFEM kl. 13.00, sjá Öskubusku í Tjarnarbíó kl. 14.00 og fleira og fleira. Eftir 18.00 lýkur minni menningargöngu þar sem annað yfirbragð kemur þá á borgina og börnin oftast búin að fá nóg.

 

Ég get ekki orða bundist. Landsamband framsóknarkvenna virðist vera að taka upp þann ósið sem lengi hefur verið gagnrýndur að halda þing eða fundi með slíku skipulagi að sem fæstir mæti. Helst að boða  félaga með sem stystum fyrirvara, halda það á vonlausum tíma(menningarhátíð Reykvíkinga) og keyra dagskrána á nokkrum klukkutímum.

 

Er þetta konum sæmandi, eða á kannski að skipta um forystu í samtökunum og ekki æskilegt að fjölmennt verði. Er von nema spurt sé?


Undirliggjandi ágreiningur í Sjálfstæðisflokki?

Las þessa óborgarnlegu færslu á bloggi Friðjóns á eyjunni.

"Hvað segir maður um þingmann sem er fyrsti flutningsmaður 16 frumvarpa á síðasta kjörtímabili og þar af 4 sinnum um sama málefni? Á hverju þingi lagði hann fram frumvarp um þetta hugðarefni sitt, það er fjórðung allra frumvarpa sem þingmaðurinn hefur lagt fram í eigin nafni. Er ekki hægt að segja óhikað, að málið sé viðkomandi þingmanni hjartans mál? En hvað á maður svo að halda, ef sami þingmaður verður ráðherra og lætur það verða eitt sitt fyrsta verk að gefa það út að hann ætli ekki að beita sér fyrir viðkomandi máli?

Er rökrétt að draga þá ályktun stjórnmálamaðurinn hugsjónalaus eiginhagsmunapotari sem er bara í pólitík fyrir eigið egó? "

Ætli megi lesa úr þessum skrifum undirliggjandi ágreining í Sjálfstæðisflokknum. Skyldu þessi skrif Friðjóns vera bergmál af hugsanagangi fyrrverandi yfirmanns hans í Dóms og Kirkjumálaráðuneytinu? Kannski fer nú undirliggjandi ágreiningur í flokknum að koma oftar upp á yfirborðið.

 

 

 


Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband