Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Að vita ekkert

Ekki skrítið að Geir Harde tjái sig eins og ástand mála er orðið á fjármálamörkuðum.

Fréttirnar einkennast af hækkandi verðlagi. Greiningardeild Kaupþings spáir 1,4 prósenta hækkun vísitölu neysluverðs í mars og gangi spáin eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 8,6 prósent samanborið við 6,8 prósent verðbólgu í febrúar.

Bensínverð aldrei hærra, almennt verðlag mun hækka og skuldir heimilanna aukast enn. Nýafstaðnir kjarasamningar hljóta  líka að vera í hættu.

Best væru auðvitað að forsætisráðherra myndi boða vaxtalækkun en hann hefur víst ekki vald til þess. Þar ræður fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins ríkjum.

Gylfi Magnússon, hagfræðingur og dósent við háskóla Íslands var í þættinum, í lok dags, á Visi í gær. Þar sagði hann að Seðlabankinn hafi enga góða kosti í þeirri stöðu sem nú er uppi í íslensku fjármálalífi. Aðspurður hvaða kostir væru í stöðunni fyrir Seðlabankann sagði hann að þeir væru fáir og engir þeirra góðir. „Staðan er þannig að atburðarásin er komin úr höndunum á Seðlabankanum," sagði hann.

Hvort botninum væri náð vildi hann ekki fullyrða um það eina sem hægt sé að fullyrða um er að menn vita ekkert.

Þannig virðist staðan vera í hnotskurn. Menn vita ekkert hver við stefnum.

Nú er bara að sjá hvað forsætisráðherra getur gert  í slíku ástandi.


mbl.is Blaðamannafundur boðaður að loknum ríkisstjórnarfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kostar að fá þjónustu hjá ríkinu?

Níu dagar þangað til að skilafrestur rennur út til að skila skattframtali.

Alltaf ágætt að rifja upp í hvað skattarnir okkar fara. Hvað það kostar að fá þjónustu hjá ríkinu.  

Sá þessa ágætu útreikninga á vefnum ríkiskassinn.is 

Þó er bent á að þetta er sett fram frekar til að veita innsýn í rekstur ríkisins en sem raunverulegan kostnað. Þetta eru meðaltalstölur.

Nýburi = 108.000 krónur
Nýburi tekinn með keisaraskurði = 507.000 krónur
 

Einn háskólanemi á ári = 600.000 krónur
Einn útskrifaður stúdent = 2,4 milljónir króna
 

Sinfóníutónleikar = 11.000 krónur á gest

Leiksýningar = 9.000 krónur á gest

Óperusýning = 28.800 króna á gest

Myndlistarsýning = 2.700 krónur á gest

Mjaðmarkúluaðgerð = 700.000 krónur

Hjartaþræðing = 200.000 krónur

Lungnabólga = 727.000 krónur

Íslenskur landbúnaður = 28.000 krónur á ári á íbúa 

Bundið slitlag = 2,5 milljónir króna á kílómeter

Ferjusigling = 33 krónur á hvern kílómetra á mann

Jarðgöng = 650 milljón krónur á kílómeter

 

 


Eru stjórnmál leiðinleg?

Hitti íþróttafrömuðina mín í gær. Fer stundum á þeirra fund til að fá heitustu fréttirnar af íþróttamafíunni.

Þeim finnst gott að ég sé ekki lengur í framsóknarflokknum. Vilja samt tala við mig um stjórnmál og spyrja mig síðan í hvaða flokk ég ætli að ganga. Ég bið um tilfinningalegt svigrúm. Þarf að hugsa mig um vel og lengi áður en ég svara þessu.

Sá í 24 stundum í dag að Valgerður Bjarnadóttir telur að hún rekist illa í flokki. Hún er prinsippmanneskja og þorir að berjast. Stundum á móti sínu eigin flokksmönnum. Mér líkar við það vel að fólk gefi ekki af sínum hugsjónum. Hvað sem er í boði. 

Ég er stundum þannig, get ekki selt sannfæringu mína, hvað sem í boði er. Held að slíkt fólk finnist í öllum flokkum. Allt of fáir slíkir einstaklingar, sem starfa í stjórnmálum.

Vinir mínir í íþróttamafíunni segja að ég bloggi allt of mikið um stjórnmál. Þau séu leiðinleg til lengdar. Hvort ég verði ekki stundum leið á þessu.

Í mínum huga snýr allt lífið að pólitík. Allar ákvarðanir eru mótaðar af því. Lífið er pólitík en samt er lífið svo skemmtilegt.

Hvernig getur þá pólitíkin verið leiðinleg?


Hvernig á ekki að byggja upp traust

Borgarstjórn virðist eiga í vandræðum með að laga slæmt andrúmsloft sem virðist svífa yfir öllu og allt um kring á milli fylkinga meiri og minnihluta.

Í gær var haldinn vikulegur fundur borgarráðs og stóð hann yfir frá 9.40 til 15.00 eða í rúma fimm klukkutíma. Það er óvenjulangur fundartími borgarráðs og líklega hefur andrúmsloftið verið í samræmi við það.

Eftir fundinn var sagt frá því að skýrsla sem innihélt drög að svörum borgarráðs til umboðsmanns Alþingis varðandi pólitískt umboð Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, til að samþykkja samruna REI og Geysis Green Energy, hafi verið tekin af dagskrá fundar borgarráðs.

Drögin að svari við þessari fyrirspurn voru rædd á borgarráðsfundinum en síðan var ákveðið að taka málið af dagskrá og öll framlögð gögn dregin til baka.

Oddviti samfylkingarinnar sagði eftir fundinn að drögin að svörunum væru ekki í samræmi við raunveruleikann.

Áfram ganga brigslyrðin á víxl  á milli manna og almenningur er lítið nær hver er að segja satt og hver ekki.

Í lok fundarins bókar borgarstjóri síðan vegna annars og óskylds máls þessi orð:    

"framkoma borgarfulltrúa hver við annan og við embættismenn borgarinnar er með þeim hætti sem ekki hefur tíðkast í Borgarstjórn Reykjavíkur"

Er ekki komin tími til að borgarfulltrúar reyni að semja frið sín á milli og skapa vinnufrið til þess að koma góðum málum í verk. Ágreining manna á milli verður að leysa inna veggja borgarstjórnar en ekki í fjölmiðlum.

Að öðrum kosti er ekki líklegt að traust almennings gagnvart borgarstjórn breytist.


Hvar finnur Samfylking bandamann?

Umræðan um Evrópumálin virðist loksins vera komin á dagskrá hér á landi. Öll umræða síðustu missera um veika stöðu krónunnar og stöðu efnahagsmála virðist hafa ýtt hressilega við mönnum.

Ingibjörg Sólrún sagði á ráðstefnu í Kaupmannahöfn í gær, að í næstu alþingiskosningum yrði kosið um Evrópumálin. Það er af hinu góða.

Málið þarfnast frekari umræðu í samfélaginu öllu, en að mínu mati þarf samhliða að hefja    aðildarumræður til þess að sjá hvað sé í boði fyrir mögulega aðild. Þá fyrst getur þjóðin tekið afstöðu og í framhaldi kosið um aðild að Evrópusambandinu. En til þess að slíkt gerist þarf að taka málið á dagskrá hjá stjórnvöldum.

Vandinn er hinsvegar sá að Samfylkingin er eini flokkurinn sem er með málið á stefnuskrá sinni og sá flokkur hefur ekki hreinan meirihluta. Því þarf að fá annan eða aðra flokka til liðs við sig í slíkan leiðangur.

Ólíklegt má telja að vinstri grænir eða sjálfstæðisflokkur setji málið á dagskrá í næstu kosningum.

Frjálslyndi flokkurinn ætti samkvæmt stefnu sinni í innflytjendamálum og sjávarútvegsmálum að vera á móti aðild, þótt einstakir félagar eins og Jón Magnússon og Ásgerður Jóna Flosadóttir tali fyrir aðild. Ólíklegt að samstaða náist innan flokksins um stefnubreytingu fyrir næstu kosningar.

Þá er Framsóknarflokkurinn einn eftir. Hann er klofinn í afstöðu sinni til ESB líkt og flestir aðrir flokkar. Núverandi formaður er ekki líklegur til þess að taka málið á dagskrá.

Þó tel ég fulla ástæðu að ætla að við næstu forystuskipti í flokknum verði reynt að koma flokknum hægra megin við miðju og setja á stefnuskrá flokksins að stefna að aðildarviðræðum. Slíkt getur orðið fyrr en varir og örugglega fyrir næstu kosningar.

Þá gæti Samfylking verið komin með bandamann í Evrópumálunum.

En mörg ljón eru enn í veginum og ekkert öruggt um það hvert framsóknarflokkurinn stefnir að loknum næstu kosningum. Slíkar  stefnubreytingar verða heldur ekki án átaka og aldrei að vita hvaða stefna verður ofaná.

Spennandi tímar framundan í íslenskri pólitík.


mbl.is Nýr gjaldmiðill innan 3 ára?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfallahjálp fyrir samfylkingarfólk

Í gær voru skipaðir þrír nýir sendiherrar hjá Utanríkisráðuneytinu. Einn þeirra var fyrrverandi ráðherra sjálfstæðisflokksins sem situr ekki lengur á þingi. Eins og alltaf þegar skipaðir eru sendiherrar úr röðum fyrrverandi stjórnmálamanna kemur fram gagnrýni á slíka skipun.

Slík skrif áttu sér ekki síst stað hjá félögum innan samfylkingarinnar. Hægt var að lesa margar slíkar færslur  í gær á bloggsíðum. Meðal annars kom þetta fram í skrifum samfylkingarmanna: 

"þegar fólk er komið inn fyrir ákveðinn hring í valda- og snobbstrúktúr landsins, virðist engu skipta hvort það er til einhvers nýtilegt eður ei - dansfélagarnir í innsta hring við kjötkatlana, finna því alltaf ný embætti" og "Ég get ekki sagt annað en ég hafi orðið fyrir talsverðum vonbrigðum þegar ég heyrði í dag að Sigríður Anna hafði verið skipuð sendiherra. Samtrygging. Samtrygging. Samtrygging".

En þetta er eitt af því sem fylgir því að vera við völd. Að útdeila gæðunum. Hér á landi er líka sérstækar venjur fyrir því hvernig slíkt er gert. Það verða samfylkingarmenn að venja sig við.

Skipan sendiherra með þessum hætti er ekkert nýtt. Fyrir á fleti sitja Guðmundur Árni Stefánsson, Tómas Ingi og Svavar Gestsson. Síðan er Eiður Guðnason í embætti alræðismanns í Færeyjum.

Fleiri mæta telja sem verið hafa í slíkum sendiherrastöðum, Jón Baldvin og Kjartan Jóhannesson og Markús Örn sem brátt hættir í Kanada.

Allir flokkar hafa unnið svona. Ef þeir hafa á annað borð hafa verið við völd. Það er helst að framsóknarmenn hafi gleymst í þessari skipan. Man að minnta kosti ekki eftir neinum sendiherra á þeirra vegum í augnablikinu.

Slíkar eru venjurnar í samtryggingu stjórnmálanna. Svona verður þetta líka áfram. Nema auðvitað Samfylkingin ákveði að breyta þessu. Til þess hefur hún stöðu.

 


Stjórnmálamenn og embættismenn

Starfsmenn Reykjavíkurborgar fara ekki varhluta af þeirri sérkennilegu stöðu sem verið hefur uppi í borginni á liðnum mánuðum. Þeir hafa fengið þrjá nýja meirihluta við stjórn borgarinnar á þeim tuttugu mánuðum sem liðnir eru af kjörtímabilinu.

Æðsta yfirmanni starfsmanna borgarinnar, borgarstjóranum, hefur verið skipt út þrisvar sinnum og jafn oft hefur verið verið skipt um nefndir og formenn í öllum nefndum borgarinnar.

Samfellan í starfinu hefur því verið lítil og við hver meirihlutaskipti hafa starfsmenn borgarinnar fengið það hlutverk að upplýsa nýjar nefndarmenn um starfsemi viðkomandi sviðs og starf nefndanna. Að minnsta kosti hluti nefndarmanna hefur verið nýr við hver meirihlutaskipti.

Að sama skapi hefur jafn oft verið skipt um pólitískar áherslu í starfi málaflokka og verkefni sett í aðra forgangsröð.

Um helgina samþykkti aðalfundur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar eftirfarandi ályktun.

Aðalfundur St.Rv. haldinn 8. mars 2008 vill vekja athygli á að örar og endurteknar breytingar á stjórn  borgarinnar og fyrirtækjum hennar, hafa aukið mjög álag  starfsmanna. Miklar áherslubreytingar gera vinnuaðstæður erfiðar, draga úr stöðugleika framkvæmda og gera starfsmönnum erfitt fyrir að rækja starf sitt.

Ríkar kröfur eru gerðar til opinberra starfsmanna um að þeir sinni störfum sínum af alúð og aðhafist ekkert sem varpað gæti rýrð á starfið og þar með á mikilvægi opinberrar þjónustu. Sama skylda hvílir að sjálfsögðu á stjórnendum og pólitískt kjörnum fulltrúum. Eitt mikilvægasta hlutverk  stjórnenda opinberra stofnana hlýtur að vera að mynda trúverðug tengsl við almenning með heiðarlegri stefnu, upplýsingamiðlun, samskiptum og  samstarfi  við borgarana og alla hagsmunaaðila.

Það er ólíkt verkefni að vera embættismaður eða stjórnmálamaður. Stjórnmálamenn eru þannig kosnir til fjögurra ára og næstum undantekningalaust sitja þeir þann tíma. Embættismenn eru hinsvegar ráðnir til starfa og hægt að segja þeim upp störfum hvenær sem er. Þó auðvitað samkvæmt lögbundnum fyrirvörum.

Stjórnmálamenn sitja sem fastast hér á landi sama hvað gengur á. Sárafá eru skiptin sem stjórnmálamenn hafa axlað pólitíska ábyrgð sína með afsögn. Það eru oftar en ekki gefnar aðrar ástæður fyrir slíku brotthvarfi úr stjórnmálum en pólitísk mistök eða misbeiting valds, heldur velja menn að skýra slíkt með persónulegum ástæðum.

Embættismennirnir þurfa hinsvegar stundum að taka pokann sinn vegna afglapa í starfi eða jafnvel vegna þess að einhver þarf að taka ábyrg á því sem miður hefur farið í opinberum rekstri.

Þannig virðist það stundum vera svo að ef stjórnmálamennirnir taka ekki ábyrgð í störfum sínum, verða embættismennirnir að gera slíkt.

Núverandi framkvæmdastjóri REI sagði fyrir nokkru síðan að hann myndi taka aftur við starfi sínu sem framkvæmdastjóri Orkuveitunnar nema ef þyrfti pólitískan blóraböggull í REI málinu.

Nú er það ekki mitt að meta hver ber mesta sök í REI málinu en núverandi framkvæmdastjóri REI ber að mínu mati, ekki  einn þá ábyrgð.

Embættismennina, ólíkt stjórnmálamönnunum, má reka úr starfi. Það er sá raunveruleiki sem embættismenn búa við.


Afmælisdagurinn

Í dag fagna ég ásamt fjölskyldu minni 11.ára afmæli sonar míns. Þess vegna hefur ekkert verið bloggað um helgina.

Árin 11 með honum hafa verið okkur öllum dýrmæt. Oft verið erfiðar stundir en einstaklingurinn einstaki hefur gert lífið svo miklu innihaldsríkara.

Fyrir 11.árum áttum við hjónin ferð sem líktist spennandi þætti af bráðavaktinni. Þeirri stundu gleymum við aldrei.

Við þökkum þá gæfu að hafa fengið að njóta samvista við hann. Þökkum það að vera uppi á þessum tímum þegar læknavísindin geta lagað margt.

Við elskum hann óendanlega og hann okkur til baka. Betra verður lífið ekki.


Ísland best í heimi?

Áhyggjuefni ef ungt fólk sem hefur sótt sér menntun og reynslu erlendis snýr af því loknu ekki heim aftur. Er Ísland kannski ekki best í heimi?

Að minnsta kosti var það ekki niðurstaðan í ræðukeppni grunnskólana sem fram hefur farið að undanförnu. Á miðvikudaginn var síðan úrslitakeppnin og fór Seljaskóli með sigur af hólmi. Umræðan í þeirri keppni snérist um það hvort Ísland væri best í heimi.

Í frétt sem tengist sigri Seljaskóla kemur fram þegar keppendurnir voru spurð af hverju Ísland sé ekki best eiga þau ekki í vandræðum með svar. Það sé ekki hægt að alhæfa að eitt land sé það besta í heimi, til þess séu löndin of ólík. Ef eitthvað sé betra annars staðar en hér, geti Ísland ekki verið besta land í heimi.

Við þurfum því einfaldlega að gera betur svo unga fólkið okkar snúi aftur heim.

Ástandið á húnæðismarkaði er áhyggjuefni. Ekki síst ef staðan er orðin í þá veru að ungt fólk sem er í námi erlendis treystir sér ekki heim aftur vegna erfiðleika við að koma yfir sig húsnæði. Leigumarkaður hérlendis er einfaldlega ekki að gera sig.

Nú bætist við yfirvofandi samdráttur á vinnumarkaði og erfiðara efnahagsástand.

Nú verða stjórnvöld að fara að grípa til aðgerða til þess að unga fólkið snúi aftur heim. Tryggt húsnæði og atvinna er forsenda þess. Niðurfelling stimpilgjalda af kaupum af fyrsta húsnæði er eitt að því sem þarf að komast í framkvæmd strax. Síðan verður að standa við fyrirheitin um þekkingarsköpun og útrás eins og ríkistjórnin setti í stefnuyfirlýsingu sína.

Það er til lítils að eiga efsta sætið á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna ef unga fólkið okkar velur síðan að búa einhverstaðar annars staðar, vegna hindrana á húsnæðis og atvinnumarkaði.


mbl.is Ekkert vit í að flytja til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggarar og horngrýtis kjaftæðið

Í tilefni ummæla þingmannsins Árna Johnsen um umræðuna um Evrópumál í fréttablaðinu í dag, má ég til með að blogga um þessa könnun.

Hér kemur fram að 54% aðspurðra eru hlynntir aðildarviðræðum, 30% á móti.

Á meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks vilja 46,2%  fara í aðildarviðræður en 39% eru á móti.

Árni ætti kannski að velta því fyrir sér að meirihluti stuðningsmanna hans eigin flokks vilja fara í aðildarviðræður og að hann er komin þar í minnihluta.

Það er kannski ástæða þess að bloggar  í hans umhverfi blaðra svona út og suður og gefa honum ekki vinnufrið. Þeir vilja bara fá hann til að leggja við hlustir á rödd meirihluta þjóðarinnar.


mbl.is 54% vilja aðildarviðræður við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband