Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Ályktun íbúasamtaka Bústaðahverfis

Fyrsti fundur stjórnar íbúasamtaka Bústaðahverfis var haldinn í gær. Mikil hugur í fólki og mörg verkefni framundan.

Samþykktum eftirfarandi ályktun á fundinum:

Stjórn Íbúasamtaka Bústaðahverfis ályktar eftirfarandi vegna umræðu um mislæg gatnamót á mótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar. 

Stjórn íbúasamtaka Bústaðahverfis leggst alfarið gegn framkomnum hugmyndum um byggingu mislægra gatnamóta við Bústaðaveg.

 

Slík framkvæmd mun hafa í för með sér mikla aukningu umferðar um Bústaðaveg sem mun kljúfa hverfið endanlega í sundur að óbreyttu ástandi.

 

Óviðunandi er að auka umferðarþunga í íbúðarhverfi með slíkum hætti. Það eykur m.a. slysahættu við Bústaða -og Réttarholtsveg í tengslum við skólasókn unglinga í Réttarholtsskóla og rýrir enn frekar möguleika barna ofan Bústaðavegar að sækja íþróttaæfingar hjá Víkingi, sem er íþróttafélag hverfisins. Auk þess sem það skerðir önnur lífsgæði íbúa hverfisins.

 

Þessi framkvæmd mun þannig rýra búsetuskilyrði í hverfinu, sem er óásættanlegt að mati stjórnar íbúasamtakanna.

 

 


Endurskoðun bóta TR

Formaður Landsambands eldri borgara, Helgi Hjálmarsson, sagði í morgun í fréttum RÚV að það væri naumt skammtað á garðann og að eldri borgarar þurfi 200.000 á mánuði til að lifa mannsæmandi lífi.

Þessi ummæli komu í kjölfar þess að ríkisstjórnin tilkynnti í gær að hún hyggist verja fimm miljörðum á ári í að bæta kjör aldraðra á öryrkja. Í því felst m.a. að skerðing bóta vegna tekna maka verði afnumin 1. apríl og frítekjumark ellilífeyrisþega hækki í hundrað þúsund á mánuði frá fyrsta júlí. Jafnframt að skerðing á lífeyri vegna séreignasparnaðar verði afnumin 1. janúar 2009. Vasapeningur vistmanna á stofnunum hækki næsta ári um 8.000 á mánuði eða um 30%, og verði 36.500.

Nú er það svo að eldri borgarar eru langt í frá að vera einsleitur hópur. Margir þeirra eru í góðum efnum og þurfa alls ekki á greiðslum tryggingastofnunar að halda. Aðrir hafa það verra og þurfa að lifa mjög spart. Það sama á við þegar rætt er um kjör öryrkja og stöðu þeirra.
  
Ríkisstjórnin lofar frekari umbótum á kerfinu.Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um kjarabætur handa eldri borgurum og örykjum kemur fram að á næstu misserum verði unnið að heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins með það fyrir augum að bæta kjör þessara hópa enn frekar á kjörtímabilinu. Félagasmálaráðherra segir að í heildina muni aðgerðirnar kosta meira en fimm miljarða á ári.

Aðalvandinn er að mínu mati sá að lífeyriskerfið sjálft þarf að skera upp. Það  verður að gera betur við þá lífeyrisþega sem á því þurfa að halda og hætta að greiða bætur til þeirra sem eru það vel staddir fjárhagslega að þeir þurfa ekki á slíkum bótagreiðslum að halda.

Slíkt mun til lengri tíma, þótt sársaukafullt sé, skila samfélagi velferðar sem stendur undir nafni.  

 


Svandís og Hanna Birna sammála um þörf á nýjum áherslur.

Heyrðist ekki betur í dag, þegar ég hlustaði á fund Borgarstjórnar, að borgarfulltrúi Svandís Svavarsdóttir fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs talaði  í sama tón og Hanna Birna Kristjánsdóttir fulltrúi Sjálfstæðisflokks. Tilbreyting að heyra slíkan samhljóm með fulltrúum meirihluta og minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Svandís ræddi um gamaldags vinnubrögð í stjórnmálum og þá nýju sýn sem hún hefði á stjórnmálin. Átakapólitík ætti ekki alltaf við, heldur yrðu menn að taka upp samstöðupólitík. Hennar sannfærðing var að stjórnmálamenn ættu að nýta þá aðferð meira. Þótt enn séu átakalínur í stjórnmálum þá eiga menn að vinna betur saman að góðum málum, hvort sem þeir eru í minnihluta eða meirihluta.

Það væri ekki stjórnmálunum til framdráttar að beita sífellt átakapólitík og þar skipti ekki máli hvort menn kæmu úr meirihluta eða minnihluta. Þarna talaði fulltrúi úr meirihluta.

Síðan tók borgarfulltrúi Hanna Birna Kristjánsdóttir  undir umræðuna um form gærdagsins  í stjórnmálum. Þar talaði hún í sama tón og hún gerði svo ágætlega á ráðstefnu stjórnsýslu og stjórnmála s.l. föstudag sem ég hef áður skrifað um hér á síðuna.

Hanna Birna talaði um formið á stjórnmálunum sem við göngum svo hressilega inn í. Hún taldi að helsta ógn stjórnmálanna sé hvað stjórnmálamenn séu hræddir við að breyta forminu.

Það eigi að vera nýsköpun í forminu. Það sé jafnframt mikilvægt að brjóta formið meira í samskiptum minnihluta og meirihluta. Það séu þó enn ungir menn sem ganga þennan veg á eftir forverum sínum í stjórnmálunum og vinna á sömu forsendum og þeir gerðu. 

Þessi orð hljómuðu eins og tónlist í mín eyru. Við verðum að fara að breyta vinnubrögðum í stjórnmálunum, ekki síst til þess að almenningur fái aftur trú á þeim.

Þessi gamaldags vinnubrögð í stjórnmálum eru ekki endilega borgarbúum til góðs.

Það er komin tími til að breyta.

 


Lýðræði, sanngirni eða hvað?

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, sagði í ræðu í borgarstjórn nú rétt í þessu, að eftirfarandi skipting í ráð og nefndir hjá Reykjavíkurborg bæru vott um lýðræðið í nýjum meirihluta í borgarstjórn.

Af 16 nefndum borgarinnar. 8 fastanefndum og öðrum 8 stærri nefndum borgarinnar er skiptingin eftirfarandi:

Fulltrúar og formennska eftir kjörfylgi í kosningum til borgarstjórnar:

Samfylking ( 17.750 atkvæði 4 fulltrúar) 19.fulltrúar- 5 formennskur

Vinstri hreyfingin grænt framboð  (8.739 atkvæði 2 fulltrúar) 14. fulltrúar-3 formennskur

Frjálslyndi flokkurinn (6.527 atkvæði 1 fulltrúi)  6.fulltrúar-1 formennska

Framsóknarflokkurinn (4.056 atkvæði -1 fulltrúi)  16. fulltrúar-7.formennskur

Skrítið lýðræði þetta. Virðist eitthvað halla á vægi kjósenda eftir því hvaða flokk þeir hafa kosið. Ætli atkvæðin hafi verið mismunandi dýr?

Múrbrjóturinn

Í dag er alþjóðadagur fatlaðra. Við það tækifæri hafa Landssamtökin Þroskahjálp undanfarin ár afhent Múrbrjótinn til aðila eða verkefnis sem brýtur niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks.

Ég var viðstödd athöfnina í dag þegar Kennaraháskóla Íslands var veittur Múrbrjóturinn vegna starfstengds diplómanáms fyrir fólk með þroskahömlun sem tók til starfa á þessu hausti.

Það þarf hugrekki til þess að fara ótroðnar slóðir og slík hugrekki hefur Kennaraháskólinn sýnt með þessu framtaki. Skólinn á heiður skilin fyrir að setja á laggirnar námsbraut fyrir fólk með þroskahömlun. Ekki aðeins sýnir þessi ákvörðun hugrekki heldur líka áræðni og fumkvæði og ber víðsýni og jafnréttishugsjónum forsvarsmanna skólans glöggt merki. Það eru eiginleikar sem eru afar mikilvægir hverri menntastofnun.

Það er ástæða til að þakka þetta góða framtak og óska öllu því góða fólki sem að þessu hefur unnið innilega til hamingju.


Munu stjórnmálin breytast?

Fór á sérstaklega skemmtilegan ráðstefnu s.l. föstudag. Þetta var afmælisráðstefnu stofnunar stjórnsýslu og stjórnmála sem hélt upp á fimm ára afmæli sitt.

Yfirskrift ráðstefnunnar var "Ný form lýðræðis" Íbúalýðræði, lýðræðiskerfi sveitarfélaga og félagsauður. Aðal fyrirlesturinn var fluttur af Gerry Stoker prófessor við Háskólann í Southhamptin og hét hann" Civic engagement and new forms of democracy in local politics-Are they a threat to representative democracy or a necessary support in times of declining in traditional politics?

Forseti Íslands ávarpaði samkomuna í byrjun og var gaman að sjá hann setja sig aftur í stelingar stjórnmála prófessors. Meðal þess sem hann sagði var að við Íslendingar hefðum verið þjóð án mannréttinda fyrir eini öld. Lýðræðisþróun væri í sífeldri hreyfingu og  væri mjög ungt. Hann ræddi um að áður hefðu stjórnmálamenn verið með meiri þekkingu en almenningur en slík ætti ekki við í dag. Valdastéttin, þ.e. stjórnmálamennirnir væru tregir til að viðurkenna það að almenningur sé jafn fær um að afla sér upplýsinga og taka þannig bestu ákvörðun. Jafnframt það að íbúar væru ekki lengur tilbúnir að sætta sig við að einhverjir aðrir, þótt um kjörna fulltrúa sé að ræða, séu til þess betur fallnir að taka rétta ákvörðun.

Næstur var síðan Gerry Stoker. Sérstaklega skemmtilegur og áheyrilegur fyrirlesari. Hann hefur unnið að fjölda rannsókna á sviði lýðræðis, stjórnsýslu og sveitarstjórnarmála. Hann hefur gefið út yfir 20 bækur um þessi málefni og ritað yfir 80 fræðigreinar. Bók hans "Why politics matter" vann til verðlauna í Bretlandi sem besta rit um stjórnmál árið 2006.

Hann taldi að almenningur væri farin að nálgast stjórnmálin á annan hátt. Þetta kæmi til vegna breytinga á lýðræði og lýðræðisríkjum í heiminum. Hann taldi að almenningur vildi taka þátt í lýðræðinu en ekki endilega stjórnmálunum. Þannig hefur einstaklingshyggjan breytt viðhorfum almennings.  Stjórnmál snúast ekki bara um að velja og nauðsyn þess að hlusta á kjósendur. Stjórnmálamenn þurfa að senda skilaboð og jafnfram hlusta. Eins og almenningur þekkir þetta eru stjórnmál oftast einhliða tjáskipti og bregðast því kjósandanum.Ákvarðanir eru teknar án samráðs.

Stjórnmálin hafa líka breyst. Áður voru menn í stjórnmálum í ákveðin tíma en snéru sér síðan aftur að fyrra starfi. Nú væru stjórnmál orðið lífsstarf einstaklinga. Þannig séu þetta einstaklingar sem alast upp í stjórnmálakerfinu. Síðan koma að breytingar á stjórnmálaflokkunum. Meira orðið í þátt átt að þetta séu kjarnar sem stýrt er  af sérfræðingum. Einsmálshópar  eru líka að koma að stjórnmálaunum í meira mæli.  Almenningur farinn að nálgast stjórnmála á annan hátt. Vilja stjórnmál fyrir alla. Það þarf að opna nýjar leiðir til þátttöku. Gera leiðirnar færari og ýta undir hana, í hvaða formi sem hún er. Þótt bara til þess að taka til máls. Margt annað kom fram í máli hans sem áhugavert er og efni í annan pistil.

Hann Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi, flutti síðan stutt erindi og var það um margt áhugavert. Hún talaði í þá vera að maður fylltist þeirri von að nýtt fólk myndi færa ný vinnubrögð inn á svið stjórnmálanna.

Það sem mér fannst áhugaverðast í hennar erindi var umræðan um það form sem stjórnmálin eru föst í. Það að andstæðingar í stjórnmálum eru ekki endilega ósammála en verða að vera það formsins vegna. Það að vera í minnihluta þýðir að þá ert þú á móti flestu því sem meirihlutinn leggur fram, og öfugt. Þetta er það form sem stjórnmál hafa verið sett í og virðist erfitt að breyta því. Þarna þyrfti nýsköpun.

Hún ræddi líka um að lýðræðið og hvernig mætti gera á því tilraunir. Mætti t.d. rekast utan í það, það veri ekki ósnertanlegt. Að lýðræðið þoli umræðu, þoli tilraunir. Ekki nálgast það eins og eitthvað sem ekki má nálgast

Hún taldi að samtalið við almenning ætti ekki að vera aðalatriði heldur aðgerðirnar. Fólkið á að velja. . Sveitarstjórnir besta tækið. Sveitarstjórnamálin væru átakaminni en landsmálin. Nálgunin er meiri. Skóla og skipulagsmál eiga þannig að geta verið tæki til tilrauna með lýðræðið.  

Gunnar Helgi Kristinsson sagði frá nýju þriggja ára rannsóknar og þróunarverkefni sem stofnunin fer nú í í samvinnu við Samband sveitarfélaga um íbúalýðræði og félagsauð.  

Að lokum flutti Dagur B. Eggertsson lokaorð. 

Þarna komu fram virkilega áhugaverð sjónarmið og verður áhugavert að fylgjast með þróun mála á þessum vettvangi á næstu misserum. Ekki síst íbúalýðræðinu.   


Hvað með hagsmuni íbúa Bústaðarhverfis

Skrítin skilaboð sem bárust okkur íbúum Bústaðarhverfis í hádegisfréttum. Það sagði formaður framkvæmdaráðs borginnar eftirfarandi;

Mislæg gatnamót Bústaðarvegar og Reykjanesbrautar hafa ekki verið slegin af, Þeim hafi hins vegar verið frestað til að finna betri lausnir fyrir umhverfið. Ástand gatnamótanna verði metið eftir að vinstri beygjunni frá Bústaðarvegi inn á Reykjanesbraut verði lokað.

Nú hafa þessi mál oft verið rædd við forsvarsmenn borgarinnar á liðnum misserum af íbúum hverfisins.  Ekki síst vegna þeirrar miklu umferðar sem fer eftir Bústaðarhverfi og í raun klýfur hverfið í tvennt.  Börnin í hverfinu sem búa ofan Bústaðarvegar og þurfa að sækja æfingar hjá Víkingi verða að fara yfir þessa miklu umferðaræð til þess að stunda íþróttir. Ekki hefur verið hægt að setja undirgöng eða brú til að leysa vandann.

Í samtölum við borgarfulltrúa hefur komið fram að ekki verði farið í þessa framkvæmd. leita verði annarra leiða til að leysa umferðarvandann. Umferðinn sé nú þegar of mikil í hverfinu.

Nú virðist nýtt hljóð vera komið í fulltrúa borgarinnar. Íbúar Bústaðarhverfis munu ekki sitja þegjandi undir slíku.

 


« Fyrri síða

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband