Leita í fréttum mbl.is

Skóli fyrir alla?

Rakst á þessa ágætu grein á heimasíðu Samfélagsins, félag framhaldsnema við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands http://samfelagid.hi.is/

Engin ein leið rétt í þessu máli frekar en öðrum og greinin ágætt innlegg í umræðuna um fötluð börn í almennum grunnskólum. Öll börn eiga að eiga rétt á skólagöngu við sitt hæfi og á sínum forsendum. Barnið og líðan þess skiptir öllu máli í þessu sambandi.

Hugtakið „skóli fyrir alla" hefur verið leiðarljós í íslensku skólastarfi undanfarin misseri. Í því felst að öll börn eigi þess kost að sækja nám í grunnskóla í sínu hverfi, hverjar sem aðstæður þeirra eru, og stærsta breytingin frá fyrri árum er kannski sú að fötluð börn gangi í sömu skóla og ófötluð.

Þessari hugmyndafræði hefur verið fylgt fast eftir í ýmsum sveitarfélögum, ekki síst höfuðborginni, og fáar efasemdaraddir hafa heyrst. Það er enda erfitt að vera andsnúinn þeirri hugmynd að öll börn eigi rétt á því að ganga í grunnskóla á sömu forsendum, burtséð frá aðstæðum þeirra á ýmsum sviðum. Auðvitað eiga öll börn að hafa þennan rétt en þá þarf að vera hægt að taka á móti öllum börnum á þeirra forsendum. Ýmsir kennarar hafa haft áhyggjur og efasemdir sín á milli en lítið látið til sín heyra enda sjálfsagt flestir sammála hugmyndafræðinni sem slíkri. Á fundi um „skóla fyrir alla" í Reykjavík fyrir tveimur árum mátti þó heyra fjölmarga kennara láta í ljósi umtalsverðar áhyggjur af þessu stóra og erfiða verkefni sem þeir fengju hvorki undirbúning né svigrúm til að mæta.
Nýlega var haldin ráðstefna í Háskóla Íslands undir yfirskriftinni „Stuðningur við fjölskyldur barna".

Meðal frummælenda á þessari ráðstefnu var doktor Hannes Hafsteinsson og skömmu síðar var tekið við hann ákaflega fróðlegt og áhugavert viðtal í þættinum Vítt og breitt á Rás 1. Þar lýsti doktor Hannes þrautagöngu fjölskyldu sinnar með fatlað barn. Þegar barnið hóf grunnskólanám vöknuðu fljótlega hugmyndir um að ekki væri allt með felldu og óskað var eftir rannsókn hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Biðtími þá var átján mánuðir og doktor Hannes sagðist nýlega hafa heyrt að biðtími nú væri þrjú ár. Það er auðvitað fráleitt, ef rétt er, því börn þola enga bið í svona málum. Í þessu tilviki var biðin metin óásættanleg svo leitað var til einkaaðila þar sem barnið var greint með þunglyndi. Ári seinna flutti fjölskyldan til Kaupmannahafnar þar sem kennarar voru ósammála þessari greiningu og gerðu athugasemdir. Við því var brugðist hratt og örugglega, enginn biðtími, og fljótlega lá fyrir að um þunglyndi var ekki að ræða heldur Asperger-heilkenni. Þegar barnið var tíu ára flutti fjölskyldan til Álaborgar og þar komst barnið í skóla þar sem rekin er sérstök deild fyrir börn með Asperger-heilkenni. Lýsingar doktor Hannesar, sem er afi barnsins, á þeim breytingum sem þarna urðu eru sláandi. Á þremur vikum mátti sjá greinilegar framfarir í líðan þessa barns sem nú brosti, eignaðist félaga og tók framförum í námi. Fyrstu fjögur grunnskólaárin einkenndust m.a. af vanlíðan, einelti, sjálfsvígshugsunum og mikilli lyfjagjöf. Doktor Hannes hafði margar athugasemdir við aðstæður barnsins þessi fjögur ár en stærsta athugasemdin var sú að barnið hefði verið í „skóla fyrir alla".

Þetta var áhugaverð athugasemd frá nánum aðstandanda fatlaðs barns.
Hugmyndafræði „skóla fyrir alla" er afar réttsýn og augljós. Auðvitað eiga öll börn að eiga jafnan rétt til grunnskólagöngu við sömu aðstæður. En þessum rétti þarf að fylgja ákveðið valfrelsi. Fötluð börn eiga líka rétt á skólagöngu við sitt hæfi og á sínum forsendum. Enn sem komið er vantar mikið á að hinn almenni grunnskóli geti mætt þörfum allra barna þrátt fyrir fullan vilja starfsfólks. Börn með Asperger-heilkenni eru aðeins lítill hópur fatlaðra barna og þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Sum þeirra þrífast prýðilega í almennum skóla með þeim stuðningi sem þar er hægt að veita. Önnur gera það ekki, eins og áður nefnt dæmi sýnir.

Skólayfirvöld í Álaborg hafa boðist til að koma til Íslands og ráðleggja um stofnun sérskóla fyrir börn með Asperger-heilkenni. Það góða boð hefur ekki verið þegið og enginn alþingismaður sá sér fært að mæta á þessa ráðstefnu í HÍ þrátt fyrir sérstakt boð þar um. Áhugasamir geta enn hlustað á þetta viðtal á vef Ríkisútvarpsins, dagskrá Rásar 1, frá 6. mars sl.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
Stjórnmálafræðingur, MPA nemi og áhugamaður um samfélagsmál

Mitt val

Blogg Gáttin

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband